17.02.1945
Neðri deild: 131. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1913 í B-deild Alþingistíðinda. (4948)

257. mál, veltuskattur

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Herra forseti. Þetta er eitt af þeim tekjuaukafrv., sem ríkisstj. hefur hlutazt til um, að borin yrðu fram á Alþ. Það var flutt af hv. fjhn. Ed. og hefur gengið í gegnum þá d. og kemur óbreytt til Nd.

Frv. þetta hefur verið rætt svo mikið, bæði á Alþ. og utan þings, að ég tel ástæðulaust að þreyta hv. þm. með langri framsöguræðu.

Ég skal aðeins með örfáum orðum gera grein fyrir höfuðefni frv. Í frv. er gert ráð fyrir, að árinu 1945 verði lagður skattur á veltu þess árs hjá verzlunar- og iðnfyrirtækjum. Skatturinn er mismunandi hár, eftir því hverrar tegundar atvinnureksturinn er. Samkv. 3. gr. frv. er ætlazt til, að á heildsölu og umboðssölu verði skatturinn 11/2% af veltunni, með þeirri takmörkun þó, að hann fari aldrei yfir 25% af umboðslaunum.

Af smásölunni verður veltuskatturinn 1% og eins af iðnfyrirtækjum, 1%.

Nokkrar vörur eru undanþegnar skattinum. Það eru allar vörur, sem seldar eru úr landi, andvirði mjólkur og mjólkurafurða, kjöts, nýs, frosins, reykts og saltaðs, fisks, nýs, frosins og saltaðs, að síld meðtalinni, þegar vörur þessar eru seldar af framleiðendum þeirra eða í heildsölu. Ég vil aðeins láta þess getið, að ástæðan fyrir því, að hærri skattur er lagður á heildsölu, þrátt fyrir yfirleitt lægra álag, er sú fyrst og fremst, að talið hefur verið, að heildsalan hafi gefið meiri arð á undanförnum árum en smásalan og þar af leiðandi sé gjaldþolið meira hjá þeim fyrirtækjum, sem heildsölu hafa rekið. Enn fremur er þess að gæta, að heildsalan er yfirleitt, þó að undantekningar séu frá því, rekin í hlutafélagsformi, og njóta því heildsölufyrirtæki, að svo miklu leyti. sem þau eru rekin sem hlutafélög, þeirra skattafríðinda, sem hlutafélög njóta samkv. gildandi skattar. Þeim er heimilt að leggja 20 af hundraði í varasjóð, án þess að skattur sé á lagður.

Samkv. 7. gr. frv. er ákvæði þess efnis, að óheimilt sé að telja skattinn í kostnaðarverði vöru eða taka á annan hátt tillit til hans við verðákvörðun.

Í 8. gr. er ákvæði um, að samvinnufél. og samvinnusamböndum sé eigi skylt að leggja í varasjóð gjald af viðskiptaveltu sinni á árinu 1945, eins og þeim ber að gera samkv. l. frá 1937. Þetta þótti rétt í varúðarskyni, að leysa samvinnufél. frá þessari skattgreiðslu, þar sem hér er um óvenjulegt skattaálag að ræða.

Loks er í 9. gr. ákvæði um, að skattur þessi sé ekki frádráttarbær við ákvörðun skatts á tekjur. Því hefur verið hreyft, bæði innan þ. og utan, að þessi skattur væri ranglátur og hann kæmi mjög misjafnt niður á þau fyrirtæki, sem hann er lagður á. Út af þessari aths. vildi ég aðeins segja það, að það hefur þráfaldlega verið á það minnzt á undanförnum árum, að stríðsgróðinn hafi eigi verið nægilega skattlagður. Þau fyrirtæki í landinu, sem aðallega munu vera talin stríðsgróðafyrirtæki, eru annars vegar stórútgerðarfélög og svo ýmis af þeim fyrirtækjum, sem reka verzlun og iðnað.

Fram hefur komið frv. um að leggja skatt á stórútgerðina, og hefur það gengið gegnum hv. Ed. Þessu frv. er ætlað á sama hátt, eins og frv. um veltuskatt á útgerðina, að ná til annarra þeirra fyrirtækja, sem hægt er að tala um stríðsgróða hjá, þ.e.a.s. verzlunar- og iðnaðarfyrirtækja. Það má vel vera, að þessi skattur komi ekki alls kostar réttlátlega niður að því leyti, að afkoma þeirra fyrirtækja, sem skatturinn verður lagður á, hefur vitanlega verið æðimisjöfn. En þetta er ekkert séreinkenni á þeim skatti, sem hér um ræðir. því að það má vafalaust segja um alla skatta, að þeir komi misjafnlega niður, og það jafnvel þeir skattar, sem minnstri gagnrýni hafa sætt. Skal ég ekki fara nánar út í þetta nú, því að síðar mun gefast tækifæri til þess.

Eins og segir í grg. fyrir frv. er gert ráð fyrir því, að skatturinn muni gefa í tekjur árið 1945 ca. 9–10 millj. kr. Þetta er sjálfsagt miklu fremur ágizkun en áætlun, þótt að vísu hafi verið gerð tilraun til þess að athuga þetta af mönnum, sem góð skilyrði hafa til þess að gera sér grein fyrir þessu, en þeir létu þess getið, að mjög erfitt væri að gera nokkra áætlun um þetta. Vildi ég samt vænta þess, að þessi áætlun eða ágizkun sé ekki mjög óvarleg. Skal ég svo ekki fjölyrða um þetta frv. nú og vil leyfa mér að vænta þess, að frv. gangi til 2. umr. og hv. fjhn.