17.02.1945
Neðri deild: 131. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1914 í B-deild Alþingistíðinda. (4949)

257. mál, veltuskattur

Pétur Ottesen:

Herra forseti. — Ég ætla ekki á þessu stigi málsins að fara að ræða almennt um þennan skatt, sem hér er til umr., því að vafalaust mun síðar gefast tækifæri til þess. þegar málið kemur frá hv. fjhn. — Ég vil þó aðeins á þessu stigi bera fram eina fyrirspurn til hæstv. fjmrh., og gæti svar við henni einnig komið til athugunar í sambandi við meðferð þessa máls í nefnd.

Eins og hæstv. fjmrh. gat um, er í 3. gr. frv. gerð undantekning að því er þennan veltuskatt snertir. Þar er ákveðið, að undanþegið veltuskattinum skuli fyrst og fremst vera andvirði vöru, sem seld er úr landi, og auk þess andvirði mjólkur og mjólkurafurða, kjöts, nýs, frosins, reykts og saltaðs, og fisks, sem verkaður er með sama hætti, en þessar vörur eru aðeins undanþegnar veltuskatti, þegar þær eru seldar af framleiðanda þeirra eða í heildsölu. Það er einmitt í sambandi við það. sem þarna segir, að þessar vörur séu því aðeins undanþegnar veltuskatti, að þær séu seldar af framleiðanda þeirra. sem ég vildi spyrjast fyrir um það hjá hæstv. fjmrh., hvort þetta bæri að skilja innan svo þröngra takmarkana, að það væri eingöngu sá maður, sem sjálfur framleiðir vöruna, og hann verði einnig sjálfur að hafa á hendi sölu á henni, sem verði undanþeginn veltuskattinum, eða hvort mætti leggja þann skilning í þetta, að þetta undanþáguákvæði taki einnig til þeirrar vöru, sem þau félög selja, sem bændur hafa komið sér upp til þess að selja vöru sína, og á ég þar við félög, sem eingöngu hafa það verkefni með höndum fyrir bændur að koma vöru þeirra í verð. Til þess að gera þetta gleggra vildi ég benda á Sláturfélag Suðurlands, sem er félagsskapur, sem eingöngu hefur haft það verkefni með höndum að verka og selja kjöt fyrir þá bændur, sem eru í þessum félagsskap. Ég vildi vænta þess, að það mætti leggja þann skilning í þetta undanþáguákvæði, að það tæki til þeirrar vöru, sem þannig er ástatt um, því að það er vissulega framleiðandinn sjálfur, sem stendur að sölunni í þessu tilfelli. Og því fremur finnst mér ástæða til þess að leggja þennan skilning í þetta atriði, þar sem segir enn fremur í 3. gr. frv., að þetta undanþáguákvæði nái einnig til þeirra, sem ekki eru bókhaldsskyldir. Skilst mér þetta vera í sambandi við það, að erfitt mundi verða að innheimta skattinn undir þeim kringumstæðum, en það er vissulega þannig ástatt um hvern einstakan bónda, sem framleiðir vöru sína og selur frá búi sínu gegnum félagsskap bænda, að hann er ekki bókhaldsskyldur og ætti með þessu ákvæði að vera undanþeginn veltuskatti, ef ég skil þetta rétt.

Ég vildi aðeins leggja þessa fyrirspurn hér fram. Að öðru leyti ætla ég ekki að ræða um málið á þessu stigi.