17.02.1945
Neðri deild: 131. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1915 í B-deild Alþingistíðinda. (4950)

257. mál, veltuskattur

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. — Hæstv. fjmrh. minntist á, að þetta mál hefði verið talsvert mikið rætt í hv. Ed. og eins utan þ., og er það að vísu rétt. Eigi að síður er full þörf á því, að þetta mál verði einnig ýtarlega rætt hér í þessari hv. d., en ég hef hugsað mér að geyma umr. af minni hendi, þangað til það kemur aftur úr n., og ræða þá annaðhvort við 2. eða 3. umr. Ég geri þetta af þeim ástæðum, að ég sé, að það muni verða notadrýgra fyrir þinghaldið, að málið komist í n. í dag og að umr. fari frekar fram, er málið kemur úr n., og er þetta gert í trausti þess, að hæstv. forseti verði ekki á móti því, þótt málið verði rætt almennt við 2. umr., en slíkt verður betra fyrir þingstörfin. — Það leiðir af sjálfu sér, þótt Framsfl. sé mótfallinn þessu máli, þá vill hann ekki láta þá afstöðu sína verða til þess að tef ja þinghaldið; og þess vegna er þessi málsmeðferð við höfð.

Ég vil aðeins segja það út af því, sem hæstv. fjmrh. sagði, að ég fyrir mitt leyti lít á þetta mál sem þrotabúsyfirlýsingu um þá stefnu, sem nú er við höfð í fjármálum landsins, og það hlýtur að liggja í augum uppi, að það er meira en litið bogið við það, að á þessum mestu gróðaárstímum skuli þurfa að grípa til skattaaðferðar, sem allir munu sammála um, að sé neyðarráðstöfun, og þarf hér áreiðanlega endurskoðunar við.

Út af því, sem kom fram hjá hæstv. fjmrh., að hér væri sérstaklega lagt á stríðsgróðann, þá er auðvitað ekki hægt að hugsa sér öllu undarlegri aðferð á því en með þeirri, sem hér er hugsuð, því að þannig gæti vel farið samkvæmt þeim reglum, sem hér eru fyrirhugaðar, að menn greiði gjöld til ríkisins í engu hlutfalli við þann gróða, sem þeim hefur áskotnazt, hvað þá heldur í hlutfalli við þann stríðsgróða, sem þeim hefur áskotnazt á undanförnum árum. En eins og ég hef áður sagt, læt ég umr. um þetta bíða, þangað til málið kemur úr n.