17.02.1945
Neðri deild: 131. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1916 í B-deild Alþingistíðinda. (4952)

257. mál, veltuskattur

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Ég er hv. 2. þm. S.-M. þakklátur fyrir það að vilja greiða fyrir málinu til n. — Að öðru leyti gefur ræða hans ekki mikið tilefni til andsvara:

Mér sýnist hins vegar ástæðulaust fyrir hv. þm. að tala um þrotabúsyfirlýsingu af hálfu ríkisstj., því að í raun og veru hefur hún fylgt ráðum flokks þessa hv. þm., hvað efni þessa frv. snertir, þar sem hvergi hefur verið hrópað hærra um skattaálagningu á stríðsgróðann heldur en í blaði hans flokks, og það, sem ríkisstj. er nú að gera, er einmitt að leggja veltuskatt á þennan gróða.

Hv. þm. sagði, að það væri ekki trygging fyrir því, að þessi skattur á stríðsgróðann kæmi í hlutfalli við veltuna. Þótt nokkuð sé til í þessu í einstökum tilfellum, þá er það samt svo, að ekki er um stórkostlegan stríðsgróða að ræða nema þar, sem veltan hefur verið mjög mikil, og þess vegna kemur þessi skattur á stríðsgróðann í flestum tilfellum í nokkuð svipuðu hlutfalli og sá gróði hefur verið.

Út af fyrirspurn hv. þm. Borgf. vildi ég segja það, að eins og 3. gr. frv. ber með sér, verða þær landbúnaðar- og fiskafurðir, sem þar eru greindar, ekki skattskyldar, þegar þessar vörur eru seldar af framleiðanda þeirra eða í heildsölu. Hann spurðist fyrir um, hvernig viðhorfið yrði hjá sumum félögum bænda, eins og t.d. Sláturfélagi Suðurlands. Eins og frv. er nú, verður fyrst og fremst undanþegin veltuskattinum sala bænda til þess konar félagsskapar og sala hans í, heildsölu. Aftur á móti mun útsala kjötbúða í bæjum verða að greiða veltuskatt af sölu sinni og jafnframt af kjöti eins og öðru, sem þar er selt, en nú er í mörgum búðum selt meira af öðrum .vörum en óunnu kjöti. Ég skal. geta þess, að hugsun stj. var upphaflega sú, að kjöt væri algerlega undanþegið veltuskatti. af því að stj. leit svo á, að búið væri að semja um það við bændur, að þeir fengju tiltekið verð fyrir afurðir sínar á árinu 1945, og vildi stj. að sjálfsögðu ekki ganga á gerða samninga hvað það snertir. Hins vegar var talið, þegar farið var að athuga þetta nánar, að í framkvæmdinni mundi það verða algerlega óframkvæmanlegt að undanþiggja kjöt undan veltuskatti, þegar það er selt í smásölu. því að verzlanirnar þyrftu að hafa alveg sundurliðað bókhald til þess að þær gætu gefið upp, hvað þær hefðu selt mikið af kjöti og öðrum vörum, og býst ég varla við, að verzlanirnar vildu vinna þetta til. En þó að veltuskatturinn sé lagður á vörur í smásölu, á hann ekki að hafa nein áhrif á verð vörunnar í útsölu, en hins vegar má gera ráð fyrir því, að hagnaðurinn af útsölunni verði minni en ella mundi verða. Það sama gildir um kaupfélögin, að þar verður að gera ráð fyrir því, að þau geti ekki úthlutað eins miklum arði til félagsmanna og þau mundu gera, ef skatturinn væri ekki lagður á. — Um mjólkina er það að segja, að ég geri ráð fyrir því, að eftir frv. sé öll útsala mjólkur undanþegin skattinum, en síðan hefur verið upplýst, að einhver mjólk væri seld í umboðssölu, en hins vegar má gera ráð fyrir því, að notað verði ákvæði 10. gr. frv. til þess að undanþiggja þá mjólk veltuskattinum, af því að upplýst er, að þau umboðslaun, sem tekin eru fyrir þessa mjólkursölu, eru svo lág, að hætta yrði á, ef veltuskatturinn yrði lagður þar á, að það kæmi til frádráttar mjólkurverðinu, og kæmi þannig yfir á ríkissjóð aftur að greiða það, því að stj. yrði að greiða kr. 1,23 fyrir hvern mjólkurlítra, svo að ég tel víst, að umboðssala mjólkur yrði undanþegin samkv. ákvæði 10. gr.

Ætla ég nú, að ég hafi svarað þeirri fyrirspurn, sem hv. þm. Borgf. beindi til mín.