17.02.1945
Neðri deild: 131. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1918 í B-deild Alþingistíðinda. (4954)

257. mál, veltuskattur

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. — Hæstv. fjmrh. hefur nú gert till. um, að þetta frv. fari til n., sem ég á sæti í, svo að ég skal ekki segja margt um það á þessu stigi málsins. Ég hafði þá hugsað mér að gera fyrirspurn til hæstv. fjmrh. um það sama atriði, sem hv. þm. Borgf. gerði að umtalsefni í ræðu sinni. Hæstv. ráðh. hefur nú svarað fyrirspurn hans, en mér fannst í því svari koma fram nokkur misskilningur hjá hæstv. ráðh. Hann var að tala um — t.d. að því er snertir Sláturfélag Suðurlands. sem hv. þm. Borgf. minntist á í þessu sambandi, — að bændur mundu ekki þurfa að greiða veltuskatt af verðmæti þeirrar vöru, sem þeir seldu félaginu, en aftur á móti mundi félagið þurfa að borga skatt af andvirði þeirrar vöru, sem seld er í búðum þess í smásölu. — Ég hef nú staðið í þeirri meiningu, og ég held, að hún sé rétt, að þetta félag kaupi ekki vörur af félagsmönnum sínum, heldur starfi sem umboðsverzlun fyrir þá, og þannig er þetta um samvinnufélögin, þau kaupa ekki vöruna af sínum félagsmönnum, heldur taka hana til sölu fyrir þeirra reikning. Það er því þarna um að ræða sölu frá framleiðendum. Hins vegar skildist mér á hæstv. fjmrh., að t.d. mjólkursamsalan mundi verða undanþegin þessum skatti, vegna þess að þar væri um að ræða umboðsverzlun, sem tæki mjólk í umboðssölu fyrir framleiðendur. Ég vil benda hæstv. fjmrh. á það, að hér er alveg nákvæmlega um hið sama að ræða hvað snertir Sláturfélagið, samvinnufélögin og kaupfélögin, að þau taka vöruna, t.d. kjötið, eingöngu í umboðssölu frá sínum félagsmönnum. Hins vegar skildist mér á hæstv. fjmrh., að það væri ekki ætlun hæstv. ríkisstj., að þetta gjald yrði á neinn hátt til þess að lækka það verð, sem framleiðendur ættu að fá fyrir framleiðsluvörur sínar, samkvæmt því samkomulagi, sem gert var í haust, en samt finnst mér réttara að taka það fram í frv., að sölufélög framleiðenda verði undanþegin skattinum, að því er snertir þessar vörur. Ef það er ekki gert, mun afleiðingin verða sú, að ríkissjóður verður að greiða þeim mun meira til þeirra. til þess að þau geti borgað út hið tiltekna verð fyrir framleiðsluvörurnar. Mér finnst ástæða til þess að taka þetta til meðferðar í n., þegar málið verður þar til athugunar í heild, og væri gott að fá nánari skýringar á þessu frá hæstv. fjmrh.