28.02.1945
Neðri deild: 140. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1933 í B-deild Alþingistíðinda. (4973)

257. mál, veltuskattur

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. — Ég flyt brtt. við þetta frv. á þskj. 1231. Með þessari till. minni vil ég gera tilraun til þess að fá brýnustu nauðsynjar undanþegnar þessum skatti, svo sem mjólk og mjólkurafurðir, kjöt, fisk, kornvörur og byggingarefni alls konar. Veltuskattur, sem leggst á þessar vörur, ef frv. verður samþ. óbreytt, kemur fram nákvæmlega eins og tollhækkun. Og ef þessar vörur væru undanþegnar gjaldinu, þá mætti vitanlega ákveða útsöluverð þeirra þeim mun lægra.

Það hefði nú mátt vænta þess, að a.m.k. sumir af stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj. hefðu ekki flutt hér till. um tollhækkun á helztu nauðsynjavörum, ef draga má ályktanir af fyrri till. þeirra og ummælum um tolla. Ég minnist þess í því sambandi, að það liggur hér fyrir Sþ. till. til þál. frá einum af þm. Sósfl., hv. 2. landsk. Till. þessa flutti hann fyrir hér um bil einu ári, og er hún á þskj. 21. Till. hans er um afnám og lækkun tolla á nauðsynjavörum. Ég sé ekki ástæðu til að ræða um till. sérstaklega, en það virðist svo, sem áhuginn fyrir tollalækkun hafi skyndilega horfið hjá þessum hv. þm. og flokksbræðrum hans, þegar þeir komust í stjórnaraðstöðu. Og ekki nóg með það, að nú er hætt að tala um afnám og lækkun tolla, heldur flytur nú hæstv. ríkisstj. — og þ. á m. ráðh. þess flokks — till. um tollahækkun. Þar hafa því hv. þm. Sósfl. orðið að strika vandlega yfir fyrri ummæli sín og till. um tolla.

En það er raunar ekki þetta eitt, sem þeir hafa orðið að taka aftur af fyrri ummælum sínum eftir að þeir urðu þátttakendur í stjórn og stjórnarstuðningsmenn. Annað átakanlegt dæmi var nýlega rifjað upp í sambandi við annað mál.

Það er líka fleira en stefnuyfirlýsingar Sósfl. og Alþfl., sem hefur verið strikað út í sambandi við þetta mál. Ég sé ekki betur en stefnuyfirlýsing hæstv. ríkisstj., sem hæstv. forsrh. flutti, þegar stjórnin settist að völdum, hafi einnig orðið hér fyrir tilfinnanlegu áfalli. Þessi yfirlýsing var, eins og kunnugt er, tekin á talplötu og gefin út fjölrituð. Þar segir m.a., að stjórnin muni nú vera tilneydd að leggja á allháa nýja skatta, þar sem hún telji sér skylt að gera það, sem unnt er, til að afgreiða hallalaus fjárlög. Verði leitazt við að leggja skatta á þá, sem bezt fái undir þeim risið og fyrst og fremst á stríðsgróðamennina. Skattar á lágtekjumönnum verði ekki hækkaðir. Eftirlit með framtölum verði skerpt.

Það má segja, að þessi veltuskattur lendi að einhverju leyti á stríðsgróðamönnunum. En eitt er víst, að hann lendir líka á lágtekjumönnunum. Það er ómögulegt að komast hjá því, ef nauðsynjavörur almennings verða skattlagðar eins og hér er gert ráð fyrir í þessu frv. Með því er rofið það fyrirheit, sem hæstv. ríkisstj. gaf, er hún settist að völdum.

Þá hefur þess ekki orðið vart, að nein tilraun hafi verið gerð til þess að skerpa eftirlit með framtölum. Er þó talið, að það muni vera allmikil brögð að því, að t.d. handhafaverðbréf, sem gefin hafa verið út í stórum stíl, séu ekki talin fram. En enn þá hafa ekki sézt neinir tilburðir hjá hæstv. ríkisstj. að koma þessum framtölum í betra horf, þrátt fyrir stefnuyfirlýsingu hennar um það.

Með þessari brtt. minni er þeim gefið tækifæri, sem horfið hafa frá fyrri stefnu í skatta- og tollamálum, að taka upp sína fyrri afstöðu.

Hv. þm. a.-Húnv. talaði nokkuð um þetta mál síðast við 2. umr. Ég vildi þá ekki lengja þingfund með því að svara þeirri ræðu hans, en vil nú fara um hana nokkrum orðum.

Hann kvaðst ekki telja fært að framlengja þennan skatt næsta ár. Þó mátti skilja á honum, að hann taldi líklegt, að ríkissjóður kæmist ekki af með minni tekjur á næsta ári en nú, og hann sagði, að það gæti orðið nauðsynlegt að leggja skattinn á í nýrri mynd, og talaði í því sambandi t.d. um vörugjöld. Ég tel nú, að það mundi vera skárra en þetta, þótt illt væri að auka verðtollana. Bæði er það, að innheimta slíkra gjalda mundi verða öruggari og fyrirhafnarminni, og þá einnig hægt að leggja meira á óþarfavarning er nauðsynjavörur. Og þó að ég mæli ekki með þeirri leið, tel ég hana skárri en þá leið, sem valin hefur verið. En vitanlega ætti að byrja á því að afla tekna á annan hátt, t.d. með auknu eftirliti með skattaframtölum. En ef hæstv. ríkisstj. telur sig geta fundið aðra skárri leið en þessa, sem hér er farin, eins og mér skilst á hv. þm. a.-Húnv., að hún muni geta, þar sem hann lýsir því yfir, að ekki sé hægt að framlengja þennan skatt, þá finnst mér vanta skýringu á því, hvers vegna ekki er strax gripið til þeirra ráða. Nema því sé þannig farið, að hæstv. ríkisstj. ætli að losa sig frá því að leggja fram nokkrar skattatill. á næsta þingi, með því að hlaupa fyrir borð af skútunni, áður en til þess kemur, og komast þannig frá þeim fjármálavandræðum, sem nú er stýrt út í. Má vera að það vaki fyrir þeim einhverjum að sleppa þannig frá þessu. En ef svo er, þá held ég, að réttast væri fyrir hæstv. ríkisstj. að gera þetta nú fyrir vorið, heldur en að draga það til haustsins, því að alltaf fer ástandið versnandi, því lengur sem haldið er áfram þeirri fjármálastefnu, sem nú hefur verið upp tekin. Fylgjur hæstv. ríkisstj. eru vaxandi dýrtíð og þar með vaxandi eyðsla og skattaálögur. Og ég held þess vegna, að það væri bezt fyrir alla, að hæstv. ríkisstj. færi frá, áður en þessar fylgjur hennar verða svo magnaðar, að við ekkert verður ráðið.