28.02.1945
Neðri deild: 140. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1943 í B-deild Alþingistíðinda. (4976)

257. mál, veltuskattur

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. — Ég mun ekki eyða tíma í orðakast við hina konunglegu stjórnarandstöðu. En ég get þó ekki látið hjá líða að geta þess, að mér þótti hv. 2. þm. S.-M. segjast mjög vel í upphafi máls síns. Hann hóf ræðu sína með því að geta þess, að til þess að greiða fyrir þingstörfum hefði hann ekki talað í málinu til þessa. Bara þessi hv. konunglega stjórnarandstaða vildi gera sér það ljóst, að hún gerði bæði þingi og þjóð mikið gagn með því einfalda ráði að þegja. (EystJ: Ég veit það væri gott fyrir Sósfl.) Það væri greiði við þjóðina.

Út af því, sem hv. þm. V.-Húnv. var að tala um, að við sósíalistar hefðum strikað yfir stóru orðin o.s.frv., þá vil ég minna hv. þm. á, að einmitt á þeim tímum, þegar hann telur, að sósíalistar hafi viðhaft stór orð, þá þótti honum og hans mönnum sósíalistar á engan hátt viðmælanlegir. Nú telur hann, að við höfum breytt um stefnu, og þá skilst mér það hafa brugðið til þess, sem honum þykir hálfu verra. Ég sé ekki, að ástæða sé til að ræða þetta frekar við hv. þm. En ég vil benda framsóknarmönnum á það, að við sósíalistar höfum ætíð haft það að engu. sem þeir hafa sagt, og gefizt það vel. Svo að það er þýðingarlaust fyrir þá að reyna að hafa áhrif á stefnu okkar, hversu lengi sem þeir þreyta málþóf í þessari hv. d.

Önnur ástæðan til þess, að mér þótti rétt að fara nokkrum orðum um þetta mál nú, er sú að við 2. umr. málsins var ég meðflm. að nokkrum brtt., sem fram voru lagðar á þskj. 1191. Ég gat ekki tekið þátt í umr. um málið þá, vegna þess að ég var þá að sinna öðrum störfum. Meginatriði þessara brtt. var að miða skattinn við veltu 1944, en ekki 1945. Þessi till. var felld. Mér finnst ástæða til þess nú, áður en endanlega eru greidd atkv. um málið, að gera endanlega grein fyrir afstöðu minni til málsins að brtt. felldum.

Hvers vegna voru þessar brtt. fram bornar?

Hvers vegna óskuðum við heldur, að skatturinn væri miðaður við árið 1944 í stað 1945. Því er auðsvarað. Það hefði gert málið auðveldara í framkvæmd, gert innheimtuna öruggari og tryggt með öllu, að ekki væri hægt að láta skattinn auka dýrtíðina á þessu ári. Það er augljóst, að með því að miða við árið 1945 skapast ekki lítið erfiði og umstang skattinnheimtumönnum og þeim einstaklingum, sem eiga að inna skattinn af hendi. Það er augljóst, að innheimtan verður einnig mun óöruggari og torveldari. Það er kunnari staðreynd en frá þurfi að segja, að ýmsar leiðir eru notaðar til að hagræða framtölum, og ekki er ósennilegt, að unnið verði dyggilegar að því á þessu ári en því, sem var að líða. Það er líka kunnugt, að með því að miða við árið 1945 kunna að skapast möguleikar, þrátt fyrir ákvæði l., til þess á einn eða annan hátt að láta skattinn verka til verðhækkunar á ýmsa vöru í landinu. Það er að vísu gegn l., en við skulum gera okkur ljóst, að það verður reynt. Það rétta í þessu máli er að miða við árið 1944. Þeir menn, sem skattinn eiga að greiða, hafa fengið það ríflega í sinn hlut, að þeir geta skilað nokkru til baka, og stefna að því að lækka dýrtíðina sem því nemur. Nú skyldi maður ætla, eftir að hafa hlustað á framsögumenn stjórnarandstöðunnar, að þetta væri þeirra stefna. Þetta voru þeir að boða í ræðum sínum áðan. En hvað gerðu þeir við atkvæði sín? Allir sem einn greiddu þeir atkvæði með því, að skatturinn væri lagður á veltu ársins 1945, til þess að auka á þá galla, sem þeir telja vera á skattinum.

Nú vil ég lýsa yfir því, að þrátt fyrir það að ég álít stjórnarandstöðuna hafa stórlega unnið að því að halda þessum skatti í óeðlilegu horfi með því að hjálpa til við að viðhalda þessu atriði í frv., mun ég eigi að síður og minn flokkur greiða atkvæði með frv. Þó virðist mér illt fyrir stuðningsflokka stj. að þurfa að sæta því, að Framsfl. skuli eiginlega ráða því, í hvaða formi frv. fer frá hv. Alþ. Sósfl. og Alþfl. stóðu eindregið með því að miða við veltu ársins 1944, en Framsfl. og vænn hluti Sjálfstfl. hafa viljað miða við árið 1945. Á ábyrgð þessara flokka fer nú frv. með þessum ummerkjum út úr d.

Ég get lýst yfir, að ég mun ekki taka frekari þátt í umr. um málið. Minn flokkur mun greiða atkv. með frv. eins og það er, þótt við teljum það stórum verra en það hefði verið, ef brtt. okkar og Alþfl. um að miða við veltu ársins 1944, hefði verið samþ.