28.02.1945
Neðri deild: 140. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1944 í B-deild Alþingistíðinda. (4977)

257. mál, veltuskattur

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. — Ég get vísað til þess, sem ég sagði um brtt., er ég flutti ásamt öðrum við 2. umr. þessa máls. Hún gekk í sömu átt og sú, sem ég flyt nú með hv. 7. þm. Reykv. Hún er um það, að landbúnaðarvörur verði undanskildar veltuskatti. Við 2. umr. gerði ég grein fyrir því, að landbúnaðarvörur ættu að vera undanþegnar þessum skatti, og ætti að nægja að vísa til þess, sem ég sagði þá. En ég tel þó rétt að rifja með fáum orðum upp það, sem ég sagði þá.

Það er kunnugt, að bændur eða fulltrúar þeirra hafa gert samkomulag við ríkið um verðlag á þessum vörum. Það er ákveðið, hvað bændur eiga að fá fyrir kg af kjötinu og lítrann af mjólkinni. Eins og frv. er nú, er gert ráð fyrir því, að landbúnaðarvörurnar séu aðeins undanþegnar skattinum, ef þær eru seldar í heildsölu. En landbúnaðarvörur verður líka að selja í smásölu. Eins og frv. er nú, er gert ráð fyrir, að skattur greiðist af því verði. Það hefur verið minnzt á það, hvaða álagning er leyfð á kjötið í smásölu. Hún var 15% fyrir 2 árum, en var lækkuð niður í 13% til þess að reyna að vinna gegn dýrtíðinni. En það voru kjötkaupmenn, sem lækkuðu álagninguna, en aðrir ekki. Ef kaupmenn eiga að borga veltuskatt af þessum 13%, þá verður ekki hægt að komast hjá því að hækka álagninguna hjá kjötverzlununum eins og hann nemur. Og þá er komið að því, að það, sem ríkissjóður fær í veltuskatt fyrir sölu kjöts í smásölu, verður ríkissjóður að greiða aftur til baka, meðan það fyrirkomulag ríkir, að greitt er niður verðlag á innlendum markaði og bændur hafa samningsbundið verð víð ríkið. Sama máli gegnir um mjólkina, nema hvað álagningin á henni er minni. Þegar Mjólkursamsalan kemur mjólk til sölu í smásölu, þá er það nokkurs konar umboðssala, ákveðnar prósentur eru borgaðar fyrir. Eins og nú er, er það 6 aurar á hvern lítra, en það mun vera um 4%. Ef borga á veltuskatt af þeirri álagningu, verður sýnilega að hækka hana a.m.k. upp í 5%. Nú greiðir ríkissjóður með mjólkinni, og bændur eiga að fá ákveðið verð fyrir mjólkina. þá leiðir af sjálfu sér, að það, sem ríkissjóður kynni að fá innheimt frá þeim, sem selja mjólk í smásölu, verður hann að greiða aftur samkv. gildandi l. Þótt þessi till. á þskj. 1225 verði samþ., þá verður það ekki til þess að draga svo að nokkru nemi úr þeim tekjum, sem ríkissjóður kann að fá af veltuskattinum. Hæstv. landbrh. virðist líta svipuðum augum á þetta mál. Hann lýsti yfir því við 2. umr., að hann fyrir sitt leyti vildi mæla með till., sem við 4 þm. fluttum og gekk í sömu átt og sú. er hér liggur fyrir. Og ég verð að segja það, að mér þykir það anzi hart, ef stuðningsmenn ríkisstj. taka ekki meira til greina það, sem landbrh. segir í þessu efni, að þeir geti ekki stutt það, sem hann eindregið leggur til í málinu. Ég geri ráð fyrir því, að þeir stuðningsmenn ríkisstj., sem yfirleitt taka mikið tillit til þess, sem þessi ráðh. segir, hafi margir ekki verið viðstaddir, þegar þessi yfirlýsing var gefin af hæstv. ráðh. Og ég geri ráð fyrir því, að einmitt vegna þess, hve fáir þm. heyrðu þessa yfirlýsingu, að það sé ástæðan fyrir því, að brtt. okkar fjórmenninganna var felld við 2. umr.

Ég ætla, að hv. stuðningsmenn ráðh. og ríkisstj. viti nú vilja ráðh. í þessu efni, og vona, að till., sem hér um ræðir, verði samþ., þegar menn eru búnir að gera sér grein fyrir því, hvernig í málinu liggur.