26.09.1944
Sameinað þing: 47. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í D-deild Alþingistíðinda. (4996)

142. mál, rafveitulán fyrir Keflavíkurhrepp, Njarðvíkurhrepp og Grenjaðarstaða- og Múlahverfi

Flm. (Ólafur Thors):

Herra forseti. — Ég hef ásamt tveimur öðrum þm. flutt till. til þál. um ríkisábyrgð á rafveitulánum fyrir Keflavíkurhrepp og Njarðvíkurhrepp, að upphæð kr. 1200 þús. fyrir Keflavíkurhrepp og kr. 300 þús. fyrir Njarðvíkurhrepp. Það er ekki ástæða til að hafa mörg orð um till., m.a. af því að höfuðrökin, sem að henni hníga, eru fram færð í grg. Við flm. höfum talail við forstjóra rafmagnseftirlits ríkisins og fengið þær upplýsingar, sem þurfti, og hann er reiðubúinn að láta sömu upplýsingar fjvn. í té, en við mælumst til, að till. verði vísað til þeirrar n.

Eins og kunnugt er, var samþ. í fyrra á Alþ.,ríkisstj. væri heimilað að leita kaupa á efnivið til þessarar virkjunar. Ríkisstj. hefur hagnýtt þá heimild og keypt efnið, sem sumpart er þegar flutt hingað til lands. Það hefur verið hafizt handa um framkvæmdir, en hins vegar er það svo, að innansveitarkerfið skal kostað af hlutaðeigandi hreppum. Þeir geta ekki aflað þess fjár, sem þarf, og er því hér farið fram á, að ríkið taki ábyrgð á væntanlegu láni. Það er því ekki lagt út á neina nýja braut, heldur eru þræddar fornar slóðir og aðeins mælzt til þess, sem áður hefur verið gert fyrir önnur sveitarfélög.

Venjan hefur verið sú, þegar um slíkar rafveituframkvæmdir er að ræða, að innansveitarkerfið hefur verið tekið með í heildarkostnaðinn. Ríkið framkvæmir aðalorkuveituna, en hrepparnir innansveitarkerfið.

Við höfum hagað till. svo, að upphæðirnar eru í samræmi við bráðabirgðaáætlun forstjóra rafmagnseftirlitsins. Við vonum, að Alþ. taki till. vel. Við leggjum mikla áherzlu á, að málið fái skjóta afgreiðslu, því að nauðsynlegt er að hefjast tafarlaust handa, til þess að framkvæmdir geti orðið af hendi leystar jafnóðum og sá hluti, sem ríkið er að láta vinna. Ég vil mælast til, að umr. verði frestað og málinu vísað til fjvn., eða, ef forseta þætti heppilegra, að þessari umr. yrði lokið og málið athugað í fjvn. á milli umr.