23.01.1945
Neðri deild: 111. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1955 í B-deild Alþingistíðinda. (5001)

254. mál, fasteignamat

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. — Eins og fram var tekið af hæstv. fjmrh., þegar þetta frv. var lagt fram, er aðaltilgangur þess að spara útgjöld. N. leggur til, að tímabilið, sem fasteignamat fer fram, lengist úr 10 árum upp í 25 ár. Eiginlega eru allar breytingar á þessum l. bundnar við þessa aðalbreytingu. Það er ætlazt til, að fasteignamatið fari fram með svipuðum hætti og áður, með skipun undir- og yfirmatsn. En varðandi millimatið er gert ráð fyrir, að það sé höndum fjmrn. Fjhn. hefur athugað þetta frv. og borið það saman við l. og mælir með því, að það sé samþ. með fáeinum breytingum, sem mest eru orðabreytingar.

Í fyrsta lagi er það breyt. við 4. gr. Lagt er til, að orðin „og til jafnlangs tíma“ falli burt. Er gert ráð fyrir því, að skipaðar séu undir fasteignamatsn. og þær starfi, meðan aðalfasteignamat fer fram. Önnur brtt. er við 5. gr. um, að orðið „svo“ í annarri málsgr. falli burt. Þriðja brtt. er orðabreyting við 6. gr. N. leggur til. að fyrir orðin „matsmönnum brunabótavirðinga“ komi: sem meta fasteignir til brunabóta. Næsta breyting er, að ætlazt er til, að 8. gr. falli niður, en 14. gr. 1. standi eins og hún er. Síðasta brtt. er við 9. gr. Aftan við gr. bætist: Skal bókin löggilt af fjármálaráðherra og send ókeypis öllum þeim mönnum og stofnunum, sem fá stjórnartíðindi án endurgjalds. — Með þessum breyt. er n. sammála, að málið nái fram að ganga. Einn nm., hv. þm. V.-Húnv., skrifaði undir með fyrirvara og gerir sennilega grein fyrir, í hverju það liggi. Þykir mér svo ekki ástæða til að fara um þetta fleiri orðum.