16.10.1944
Sameinað þing: 55. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í D-deild Alþingistíðinda. (5003)

142. mál, rafveitulán fyrir Keflavíkurhrepp, Njarðvíkurhrepp og Grenjaðarstaða- og Múlahverfi

Eiríkur Einarsson:

Ég ætla að leiða hjá mér að ræða sérstaklega um efni þeirrar þáltill., sem hér er flutt, eða þá brtt. við hana, sem síðasti ræðumaður var að skýra. Það, sem gefur mér tilefni til að segja örfá orð, er einungis í sérstöku sambandi við fram komna brtt., sem sé það, að þarna er leitað hjálpar ríkisins til að leiða raforkuna frá þeim stöðum á landinu þar sem raforkuver eru fyrir. Í sambandi við þetta verður ekki fram hjá því gengið, að þegar rætt var um rafveitur til Keflavíkur og Njarðvíkurhrepps, þá var einnig, með nokkrum vilyrðum af hálfu Alþ., rætt um rafveitur til Stokkseyrar, Eyrarbakka, Selfoss og Hraungerðis, og ég vil minna á það, að samkvæmt rannsókn hefur verið ákveðið, að Sogsvirkjunin skuli gilda fyrir þessi þorp. En eftir upplýsingum rafmagnseftirlits ríkisins, þá er það tilviljun, að Keflavíkurlínan fer fram fyrir, sem ég vil þó að engu leyti gera að umræðuefni nú. Þetta var nokkuð rætt í fyrra á Alþ., og mun ég því ekki ræða það frekar nú. Málið er komið í sinn farveg, og við það situr. Úr því að brtt. eru komnar fram, skal ég ekki véfengja, að þær eigi rétt á sér, en hæstv. Alþ. verður að gera sér grein fyrir því, að það er víðar þessi aðstaða, sem rætt er um í brtt., og því verður að nota þá aðstöðu þegar efni til slíkra framkvæmda fæst flutt til landsins. Hæstv. Alþ. verður að gera sér grein fyrir því, í hvaða röð slíkt eigi að takast. En sá réttur, sem þar kemur fram, hlýtur að fara eftir fylgi við málið á Alþ. og í samræmi við þær niðurstöður, sem þar koma fram.