25.10.1944
Sameinað þing: 61. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í D-deild Alþingistíðinda. (5051)

177. mál, rannsóknarstöð á Keldum

Pétur Ottesen:

Ég vil í tilefni af því, að í ráði er að fresta um sinn að einhverju leyti störfum Alþ., vekja athygli á þáltill., sem hér liggur fyrir frá meiri hl. fjvn. á þskj. 474. Svo er ástatt um þessa till., að gert er ráð fyrir, að nokkur styrkur muni fást frá Rockefellerstofnuninni í Bandaríkjunum til þeirra framkvæmda, sem þar um ræðir, en vitað er, að úthlutun þeirra styrkja, sem sú stofnun veitir, á að fara fram 1. des. n. k. Þess vegna gæti verið nokkur hætta á, að sú frestun, sem hér er um að ræða, gæti orðið til þess, að við misstum af því tækifæri, sem hér virðist vera fyrir hendi. Þess vegna vil ég leyfa mér að minna á þetta mál hér með það fyrir augum, hvort ekki mundi vinnast tími til, áður en frestur er ákveðinn, að taka þessa till. til meðferðar hér á Alþ.