14.11.1944
Sameinað þing: 65. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í D-deild Alþingistíðinda. (5065)

177. mál, rannsóknarstöð á Keldum

Frsm. (Pétur Ottesen):

Herra forseti. — Eins og hv. alþm. muna frá umr. þeim, sem síðast fóru fram um þessa till., þá benti hæstv. fjmrh. á það, að eftir nánari athuganir, sem gerðar hefðu verið á væntanlegum stofnkostnaði við að reisa þessa rannsóknarstöð á Keldum í Mosfellssveit, sem till. var byggð á, mundi vera of lág, þannig að í stað þess, að kostnaðurinn við byggingu stöðvarinnar var samkv. áætlun álitinn að mundu verða um 1½ millj. kr., þá mundi hann verða 2 millj. kr. Í samræmi við þetta hefur meiri hluti fjvn., sem að till. stendur, leyft sér að bera fram í samráði við hæstv. fjmrh. brtt. um hækkun á framlagi til byggingar rannsóknarstöðvarinnar. — Ég sé, að við prentun brtt. hefur skolazt til þannig, að meiningin var, að þessar 750 þús. kr. yrðu hækkaðar upp í 1 millj. kr., en það hefur orðið þannig í till., að þar er talað um 950 þús. kr. Ég vil þess vegna leyfa mér að bera hér fram skrifl. brtt. við till., um það, að í staðinn fyrir 950 þús. kr. komi 1 millj. kr. Og ég vil mælast til þess við hæstv. forseta, að hann beri þessa brtt. upp við atkvgr.