26.02.1945
Neðri deild: 138. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1962 í B-deild Alþingistíðinda. (5066)

254. mál, fasteignamat

Frsm. (Jón Pálmason):

Ég er undrandi yfir aths. hv. 2. þm. N.-M. Eins og frv. var lagt fram af stjórnarráði. var fellt burt að láta þá alla, er þm. nefndi, hafa fasteignamatsbókina ókeypis, heldur var gert ráð fyrir, að t.d. oddvitar keyptu hana. Ekki er að saka fjmrn., þótt það sendi ekki bókina þeim, sem ekki bar að senda hana samkv. frv., eins og ráðuneytið gerði það úr garði og bjóst við, að samþ. yrði. En þessu var breytt hér í meðferð málsins, og af því leiðir að sjálfsögðu, að þessir menn eiga ekki að þurfa að kaupa bókina. Virðist mér allt hnútukast út af þessu óþarft hjá þm.

Í samræmi við það, sem meiri hl. fjhn. lagði til, þegar málið var hér til meðferðar, hef ég nú lagt til að fella burt A-lið 6. gr. og fyrirsögn B-liðar, svo að þetta verði eins og Nd. gekk frá því um daginn. Mér finnst óeðlilegt, að farið sé að setja tvo embættismenn, sem starfi stöðugt einungis við millimöt í Reykjavík. Ég fæ ekki séð annað en brunabótamat megi vel leggja til grundvallar þar sem annars staðar á landinu. Um kærur er það að segja, að fjmrn. getur breytt fyrri úrskurðum við nánari upplýsingar. En brunabótamat er góður grundvöllur að því leyti, að það má kæra, ef vill. Reiknað er með því, að þegar þessi lög eru gengin í gildi, sé fundinn út sá munur, sem verið hefur á brunabótamati og fasteignamati, og ef munurinn reyndist t.d. 50% að meðaltali, væri fundinn þar „skali“ til að umreikna brunabótamatið yfir í fasteignamat, sem gildi um þau hús, er meta þarf milli mata. En um jarðabætur, lóðir, útihús o.fl. gilda sérákvæði, og getur fjmrn. úrskurðað sérstaklega þar, sem sérstaklega stendur á. Mat á jarðabótum og húsum, sem eru ekki brunatryggingarskyld, ætti að nægja að gera á 5 ára fresti.

Ég get ekki fallizt, á brtt. hv. þm. V.-Húnv. að hafa sérstakan matsmann í þessu starfi. Einhver fulltrúi fjmrn. getur haft það á hendi með öðrum störfum. Ég er mótfallinn því að búa til nýtt embætti til þess.

Ég flyt með hv. þm. V.-Húnv. brtt. um að taka upp aftur breyt., sem var samþ. hér um daginn, en hefur fallið niður af vangá.