14.11.1944
Sameinað þing: 65. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í D-deild Alþingistíðinda. (5070)

177. mál, rannsóknarstöð á Keldum

Sigurður Kristjánsson:

Sökum þess, að allir fjvnm. nema ég hafa gert grein fyrir afstöðu sinni til till. á þskj. 474, tel ég rétt að gera einnig grein fyrir atkv. mínu með örfáum orðum. Hafði ég þó ætlað að leiða hjá mér þessar umr., sökum þess að það er algerlega þýðingarlaust að tala um mál, sem er þess eðlis, að þau eru fyrirfram ákveðin, og ég veit, að þetta mál, sem snýr að búfjársjúkdómunum, er þess eðlis, að það smitar fólk líka andlega, svo að það er ekki hægt að koma við skynsamlegum rökum, og ég er ekki svo gerður, að ég hafi til þess skap að þvæla fram og aftur um mál, þegar ég veit, að ekkert þýðir að beita skynsamlegum rökum.

Þegar þessi málaleitun kom frá fyrrv. hæstv. atvmrh., þá vantaði okkur um 50 millj. kr. til þess að geta komið saman fjárlfrv. tekjuhallalausu eftir þeim útgjöldum, sem þá voru talin óumflýjanleg, bæði í sjálfu fjárlfrv. og eins frv. og till., sem vitað var, að mundu ná samþ. Alþingi. Það var þess vegna ekki undarlegt frá mínu sjónarmiði, þó að svona smábeiðnir um ¾ millj. kr. kæmu einhverju hiki á menn, en þó varð það ekki svo nema um fáa af fjvnm., og varð ég einn af þeim.

Ég hef að vísu ekki getað kynnt mér nægilega vel, hversu rækilega mál þetta er undirbúið eða hversu líklegt það er til þess að bera árangur þann, sem til er stofnað, en ég hef samt sem áður litið svo á, að ekki væri hægt fyrir okkur að veita fé í stórum stíl, sízt í milljónatali, meðan við sæjum ekki hilla undir neitt það, sem héti fjáröflun eða tekjuöflun, sem gæti fyllt upp í það feikna skarð, sem nú væri í fjármálalífinu. Og þar sem ég vissi ekki heldur til, að fyrir hendi væri einn einasti eyrir til að verja til þessara hluta, þá sá ég mér ekki fært að gleypa þessa flugu fyrrv. ráðh. Ég sé að sönnu, að hv. flm. segja, að okkur þurfi ekki að vaxa þessi kostnaður í augum. Nei, ég veit það, að við erum svo stórtækir og stórhuga menn, að okkur vex ekki allt í augum og þá allra sízt svona smáupphæðir. Hv. flm. benda líka á, að þetta eigi að taka af tekjuafgangi þessa árs. Það má vel vera, að svo sé, að einhver tekjuafgangur verði hjá ríkinu þetta ár. Ég hef að sönnu verið uppi í fjmrn. til að grennslast eftir, hvernig tekjur og gjöld ríkisins mundu standa af sér á þessu ári, og fékk þær upplýsingar, að þar mundi verða jafnvægi á og afgangur ekki verða neinn. Nú má vel vera, að ég hafi ekki getað rannsakað þetta efni til hlítar, og getur því verið, að úr rætist, svo að frekar verði afgangur en að á vanti, en þó vex mér í augum að bæta við önnur útgjöld, þó að ekki sé nema ein milljón, meðan ekki eru fengnir tekjustofnar til að fylla þá gloppu, sem nú er í okkar fjárhag. Það var aðallega fyrir þessa ástæðu og nær eingöngu, að ég gat ekki gerzt meðflm. að þessari till., og það er nú orðið sýnt, að þetta þrútnar nokkuð, eftir því sem tímar líða, því að nú hefur verið farið úr 750 þús., fyrst upp í 950 þús. og síðan upp í eina millj. kr. Einnig má gera ráð fyrir, að rekstrarútgjöldin verði mjög mikil, og hef ég verið að brjóta heilann um, hvort ekki væri þörf að biðja hæstv. stj. að endurskoða rekstraráætlunina með tilliti til þess, að eitthvað væri hægt að draga saman þennan gífurlega kostnað frekar en brjóta upp á að blása hann út.

Nú neitar því enginn, að búfjársjúkdómar hér á landi eru mikið vandræðamál, sem nauðsyn er að leysa. En ég held, að það, sem þar hefur fyrst og fremst strandað á, sé það, að ekki hefur enn tekizt að skilgreina sjúkdómana sjálfa, því að mannlegur lærdómur og vit hafi ekki hrokkið þar til, og ég hef enga trú á, að úr því verði bætt, þó að fjölgað verði djúpum hægindastólum og skrautlegum skrifborðum.

Ég geri ráð fyrir, að þessi till. verði samþ. og þetta fé verði annaðhvort að rekstrarhalla hjá ríkissjóði eða tekið af tekjuafgangi þessa árs, ef hann verður nokkur, og rekstrarkostnaðurinn hækki mikið vegna þessa kostnaðar; ég hef aldrei látið mér detta annað í hug. Um árangurinn vil ég ekki hafa neinar hrakspár, en ég er sannfærður um, að það er annað en fínir salir, sem skortir, það skortir þekkingu á þessum sjúkdómum, sem er ekki undarlegt, og nægilega kynningu af þeim, hvernig þeir haga sér.

Það er sjálfsagt hægt að slá því fram og má vel vera, að eitthvað sé hæft í því, sem hv. þm. Vestm. sagði, að þarna gætu farið fram mikilvægar rannsóknir á lýsi, en það er líka rétt, sem hv. þm. S.-Þ. tók fram, að Þórður Þorbjarnarson, starfsmaður hjá Fiskifélaginu, hefur framkvæmt merkilegar rannsóknir í þessu efni, og ég skal geta þess, að hann hefur komið með rökstuddar till. til mþn. í sjávarútvegsmálum um að bæta nokkuð aðstöðuna til þessara rannsókna, og eru miklar líkur til, að óbeini hagnaðurinn af því mundi verða margfaldur á við þann stofnkostnað, sem hann gerir ráð fyrir, en samt hikuðum við í n. við að mæla með þessari málaleitun, því að við vildum, að gætilega væri farið í að eyða miklu fé, þótt til þarflegra hluta væri. Má vera, að hann viti það og geri því síður kröfur, þó að um tiltölulega lága fjárhæð sé að ræða, en vera má, að ef komið væri með milljónakröfur, þá væri þeim frekar sinnt.