14.11.1944
Sameinað þing: 65. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í D-deild Alþingistíðinda. (5073)

177. mál, rannsóknarstöð á Keldum

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti. — Mér hefur komið það dálítið einkennilega fyrir sjónir, að fjvn. kemur hér fram með mikla till., en er margklofin í málinu, svo að ég veit ekki, hve margir minni hlutarnir eru. Ég er á þeirri skoðun, eins og hv. frsm. n., að hér sé á ferð hið mesta framtíðarmál og við eigum að nota féð, sem okkur er boðið, til að koma upp vandaðri rannsóknarstofnun. Rannsóknarstofu ríkisins var ekki kleift að hafa við höndina skepnur til alidýrarannsókna og aldrei ætlað að færast slíkt í fang. Menn, sem látast hafa eitthvert vit á, gátu ekki fellt sig við Keldur, eins og þær voru, til slíkra hluta. En þessir vitringar, sem hafa staðið fyrir sjúkdómarannsóknunum, hafa nú íhugað málið betur, skulum við vona.

Nú er hins vegar um að ræða vísindastofnun við framtíðarhæfi. Hún þarf að standast þær kröfur, sem almennt eru gerðar í menningarlöndum. Ég geri ráð fyrir, að hún muni kosta um tvær milljónir, jafnvel meira. Ég álít, að enn höfum við ekki menn til að standa fyrir þeirri stofnun. Um það bera kákrannsóknirnar nokkurt vitni, og þótt þær séu búnar að kosta á annað hundrað þús. og framlög til svonefndra varna við sauðfjársjúkdómum séu komin á 3. milljón á hverju ári, erum við líklega enn fjær marki en í byrjun. En þetta hræðir mig ekki. Mennirnir, sem vantar, skulu koma. Efnilegir námsmenn sjá, þegar stofnun þessi kemur, að til einhvers er að ná fullkominni menntun í dýralækningum og í sérgreinum, sem þarna skipta miklu máli. Einn af efnilegustu mönnum við þess konar nám mun hafa lokið námi eftir 2–3 ár, og þeir verða fleiri. Við skulum reisa stofnunina með bráðabirgðaprógrammi um rannsóknir þar, ná í þessa milljón frá Rockefeller, og með nýjum mönnum koma ný ráð. Ég mæli með tillögunni.