21.09.1944
Sameinað þing: 46. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í D-deild Alþingistíðinda. (5083)

127. mál, landhelgisgæzla og björgunarstarfsemi

Jónas Jónsson:

Herra forseti. — Ég hef ekki sannfærzt af þeim rökum, sem hv. flm. bar fram um, að það væri æskilegt að skipta Skipaútgerð ríkisins í tvennt. Hv. þm. sveigði að því, þótt ekki segði hann það berum orðum, að ólag væri á stjórn og framkvæmd landhelgisgæzlunnar hjá Skipaútgerðinni og ríkisstjórn, en í ræðu þeirri, sem hann flutti, kom lítið fram þessu til stuðnings. Ég vil fyrst benda á það, að þessi hv. þm. virðist mjög ókunnugur þessum málum. Hann gerir ráð fyrir, að þetta muni kosta 1 millj. kr., en það kostar 3 millj. kr. nú, og þarf þó gæzlan nú ekki að vera nema mjög lítil vegna stríðsins, og það eru engar líkur til, að þessi kostnaður fari minnkandi eftir stríð, þegar hefja verður gæzlu aftur af fullum krafti. —

Þá gerir hann ráð fyrir því, að varðskipin verði einnig látin stunda hafrannsóknir og fiskirannsóknir, en ég vil benda hv. þm. á það, að þetta hefur verið gert og eitt varðskipanna hefur verið búið sérstökum tækjum í þessum tilgangi, þannig að þetta er engin nýjung og þyrfti ekki að gera breytingar vegna þess.

Þá gat hv. þm. um það, að þessi breyting væri nauðsynleg vegna björgunarmálanna. Ég neita því ekki, að það var unnið að því af ýmsu áhugasömu fólki, einkum konum, að koma upp sérstakri björgunarskútu a.m.k. hér við Faxaflóa. Þetta var út af fyrir sig gott hjá þessum áhugasömu konum að koma þessu upp sem sérstöku fyrirtæki. En hvað gerist í málinu? Það kemur í ljós, að það er óhugsandi að reka þetta sem sérstakt fyrirtæki, heldur verður að leggja það undir björgunarstarfsemi ríkisins, vegna þess að það var ekkert vit að ætla sér að reka það áfram undir sérstakri stjórn. Það, sem hefur gerzt, gefur því síður en svo tilefni til þess að álíta, að ástæður séu til þess að skipta þessari stofnun í tvennt, enda hafa þessi mál tekið þeirri þróun nú á síðustu árum, að engir skynsamir menn sjá ástæðu til þess að setja út á það eins og nú er. Hv. flm. mun ekki hafa gert sér það ljóst, hvernig það yrði í framkvæmdinni að hafa hér tvö kerfi samhliða, þar sem eru strandferðirnar og landhelgisgæzlan. Skipaútgerðin hefur fjölda umboðsmanna úti um land, sem annast um afgreiðslu skipa hennar á viðkomandi höfnum, og svo vill hv. þm., að landhelgisgæzlan komi sér einnig upp sínu umboðsmannakerfi og mynda þannig tvö samhliða kerfi, þar sem hægt er að notast við eitt. Svo kom hv. þm. að því, sem er sérstaklega áberandi nú, að mikið samstarf er ekki einungis á milli björgunarstarfseminnar og landhelgisgæzlunnar, heldur og líka milli þeirra og strandferðanna. Varðskipin hafa farið ótal margar ferðir til björgunarstarfsemi, og auk þess hafa þau annazt strandferðir, t. d. hefur Þór mjög haldið uppi ferðum til Vestmannaeyja, sem ella hefði ekki verið hægt að halda uppi vegna skipaskorts. Aðalgæzluskipið Ægir hefur einnig þrásinnis flutt vörur og fólk milli hafna. Þá hefur og varðbáturinn Óðinn sinnt mikið flutningum milli Reykjavíkur, Borgarness og Akraness og firrt með því vandræðum. Það má að vísu segja, að hér hafi skapazt sérstakt ástand í þessum efnum vegna stríðsins, en þetta hefur verið svona allt frá stríðsbyrjun.

Nú álít ég, að hv. flm. kunni að koma fram með meiri rök fyrir þessu máli sínu nú við umr., og ég vona, að þessi till. verði til þess gagns, að Alþ. og þjóðin sjái, að þessum málum sé bezt komið eins og þeim nú er.

Þá kem ég að því, að Skipaútgerðin er undir yfirstjórn tveggja ráðh., þar sem strandferðirnar heyra undir samgmrh., en landhelgisgæzlan heyrir undir dómsmrh. Það er engin ástæða til þess að skipta Skipaútgerðinni í tvennt vegna þessa, því að það hefur gefizt vel að hafa þetta þannig og er ekkert meira en t. d., að atvinnumálunum hefur oft verið skipt milli tveggja ráðh., þannig að annar hefur farið með landbúnaðarmál, en hinn með hin önnur atvinnumál, og það hefur gefizt vel og enginn haft út á að setja.

Ég held, að rétt sé að taka það hér fram, að það hefur komið fram yfirlýsing um íslenzka landhelgisgæzlu frá hæstarétti, allra hæsta rétti í þeim efnum, það er frá utanrrh. Breta, Anthony Eden, varðandi deilu, sem varð í brezka þinginu út af því, að íslenzkt varðskip hafði elt enskan togara út fyrir landhelgina og tekið hann þar. Þá lýsti Eden því yfir, að hann hefði rannsakað þetta mál og komizt að raun um það, að varðskipið hefði aðeins gert það, sem rétt var, enda væri óhætt að treysta Íslendingum í þessum efnum. Svo kemur hv. þm. N.-Ísf. hér fram til þess að reyna að rífa niður virðingu landhelgisgæzlunnar, þegar utanrrh. Breta hefur gefið þessa yfirlýsingu. Það má að vísu gera ráð fyrir því, að hv. þm. hafi ekki vitað um þessa merku yfirlýsingu, hann veit svo lítið um þessi mál. — Þá vildi ég biðja hv. þm. að útskýra betur, í hverju yfirmenn þessarar stofnunar hafi brotið af sér. Hafi þessir menn eitthvað brotið af sér, þá er næst fyrir hendi að skipta um menn, en ekki að fara að kljúfa stofnunina í tvennt. Það er engin ástæða til þess að vera með persónulega hlífð við Pálma Loftsson, hann situr nú í erfiðu embætti og fær fyrir það aðeins 30% þeirra launa, sem hann gæti nú fengið sem skipstjóri. Það þarf því ekki að hlífa honum, það er engin hætta á því, að hann lendi í vandræðum, þótt hann verði að fara frá Skipaútgerðinni.

Þá kem ég að einu atriði hjá hv. þm., sem ég verð að heimta, að hann útskýri betur, áður en málið fer til n., en það er, að hann telur, að það þurfi að gerbreyta varðskipunum og hafa þau fá og stór. Ef þetta væri rétta leiðin, þá gæti verið rétt að reka Pálma Loftsson frá, því að hann hefur unnið að því, að sú leið yrði farin, sem nú er notuð, að hafa litla varðbáta mest til gæzlunnar. En ég býst við því, að hv. þm. verði erfitt að útskýra þetta, því að það er þegar búið að fara þá leið, sem hann leggur til, að farin verði, að nota stóru skipin. Gamli Óðinn var smíðaður og síðan Ægir, og Þór var keyptur. Þessi hv. þm. var ekki hér á Alþ. á árunum í kringum 1934, þegar útgerðin var rekin með stórhalla og átti ekki fyrir skuldum og þegar verst var ástatt fyrir íslenzkum landbúnaði á kreppuárunum eftir 1930, en þeir menn, sem þá voru á Alþ., muna eftir þeim tímum, og þeir munu hika við að gera tvær stofnanir úr einni. Því var það gert með fullkomnu samþ. Alþ., að Óðinn, sem var sterkt og vel byggt skip, var seldur úr landi, og var það þá talið henta betur okkar efnahag að hafa minni skip til þessara starfa og hafa auk þeirra aðeins varðskipið Ægi. Það var því gert með fullkomnu samþykki Alþ. að hætta við stærri skipin og hafa aðeins eitt stórt til erfiðustu björgunarferða. Það væri því æskilegt, að hv. þm. kæmi nú fram með allar þær skýringar á þessu atriði, sem hann getur í té látið. Hann væri líka ef til vill til með það að kaupa Óðin aftur frá Svíþjóð. Flm. þessarar þál. eru ungir þm., sem hafa að vísu lifað kreppuárin eftir 1930, en þeir vita lítið um þá erfiðleika, sem Alþ. átti við að stríða á þeim árum. Dettur t.d. nokkrum þeim manni í hug, sem hefur setið nokkur ár á Alþ., að við munum hafa 3–4 sendiherra erlendis eftir stríð? Við höfum alls ekki efni á því. Danir, sem eru miklu stærri þjóð en við og betur efnum búin, völdu t.d. auðugan mann fyrir sendiherra sinn í London, til þess að hann gæti sjálfur greitt allmikinn hluta kostnaðarins við veru sína þar, og Bandaríkin, sem eru auðugt stórveldi, velja auðuga menn í sínar sendiherrastöður, til þess að þær verði þeim ekki eins kostnaðarsamar. Þess vegna er það hjá okkur að hafa marga sendiherra, jafnvel þar sem þeir hafa ekkert að gera, ekki nema svona rétt til gamans, meðan við höfum dálítið af rauðum seðlum á milli handanna, en þetta getur ekki orðið svona í framtíðinni. Það er annars ekkert á móti því að ræða þessa till., það er ekki nema til gamans meðan Alþ. hefur lítið að gera, en ég held, að það verði þjóðinni happadrýgst að hafa núverandi skipulag á þessum málum framvegis. Það má gera ráð fyrir því, að þegar stríðinu lýkur, verði hægra að byggja hér skip, og þá verður hægt að bæta við fleiri vopnuðum bátum, þannig að þá verði vel séð fyrir landhelgisgæzlunni, þótt fjöldi veiðiskipa aukist þá mjög hér við land. Hv. þm. N.-Ísf. vill hins vegar hafa hér 3 stór skip til björgunarstarfsemi og landhelgisgæzlu, í stað margra smærri vélbáta. Við skulum nú segja, að hann væri með sínum duglegu sjómönnum vestur á Ísafjarðardjúpi og væri þar í mikilli hættu staddur, en þá yrði eitt varðskipið að vera við Vestmannaeyjar, annað fyrir Austurlandi og hið þriðja fyrir norðan. Þá gæti honum að líkindum orðið það ljóst, að full þörf væri á því að hafa a.m.k. eitt skip fyrir hvern fjórðung.

Það getur verið prýðilegt að vísa þessari till. til n., svo að menn geti athugað hana vel og rætt síðan.