21.09.1944
Sameinað þing: 46. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í D-deild Alþingistíðinda. (5084)

127. mál, landhelgisgæzla og björgunarstarfsemi

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. — Mér þykir miður að hafa komið hv. þm. S.-Þ. svo mjög út úr jafnvægi sem ræða hans nú sýndi. Má búast við því, að jafngamall sérfræðingur í stjórn landhelgisgæzlu og ferðum varðskipa og hann er eigi erfitt með að ræða hlutlægt um þetta mál, en ég mun hins vegar eingöngu ræða það frá hlutlægu sjónarmiði.

Hann var að spyrja um það, hver hefði brotið af sér í stjórn þessara mála. Hann getur ekki fundið aðra skýringu en þá, að einhver hljóti að hafa brotið af sér. Það er einkennileg skýring, að þegar umbóta er leitað, þá hljóti það að vera af því, að einhver hafi brotið af sér. Ég vil svo gefa þá skýringu sem hann óskaði eftir.

Það er aðalatriði þessa máls, að flutningar eru mjög fjarskyldir löggæzlu, hvort heldur er á sjó eða landi, og því höfum við lagt til, að sett yrði sérstök stjórn yfir landhelgisgæzluna, og það er einungis af því, að við teljum það nauðsynlegt, en ekki af því, að einhver sérstakur maður hafi brotið af sér eða að það sé ólag á stjórn þessara mála nú. Ég vil láta það koma hér fram, að ég tel forstjóra Skipaútgerðarinnar mjög dugandi mann, en það er ekki hægt að ætlast til þess, að hann hafi nægilega yfirsýn yfir allt það, sem honum er ætlað að sjá um.

Það er misskilningur, að ég telji það nýjung að ætlast til þess, að varðskipin stundi jafnframt gæzlunni hafrannsóknir og fiskirannsóknir, en ég tel, að þetta heyri undir þeirra starfsemi. Ég held, að enginn þurfi að villast á þessu, nema ef vera skyldi hv. þm. S.-Þ. Nú er því svo háttað, að þau þrjú skip, sem hér eru einkum ætluð til strandgæzlu og þá jafnframt til björgunarstarfsemi, eru mikið notuð af Skipaútgerðinni til flutninga milli hafna. Þótt þetta hafi verið framkvæmt þannig nú á stríðsárunum, á meðan lítillar strandgæzlu er þörf, þá kemur ekki til mála, að þetta verði framkvæmt þannig í framtíðinni. Þetta eru þess vegna engin rök gegn því, að sá háttur verði á hafður, sem við flm. leggjum til.

Hv. þm. S.-Þ. ræddi hér allmikið um það, sem ég drap á um stór og fá skip í staðinn fyrir lítil og mörg. Ég lét í ljós sem mína skoðun, að okkur hentaði fremur að hafa við strandgæzluna fá skip og stór, t.d. af stærð Ægis og gamla Óðins, heldur en mjög mörg skip af stærð Sæbjargar og litla Óðins okkar nú. Ég hygg, að reynslan sanni þetta. Það er ekkert gaman fyrir okkur að rifja upp sögur eins og þegar stýrið brotnaði af Sæbjörgu. Ekki heldur þau dæmi, sem til eru um það, að björgunarskip okkar komust ekki út í það veður, sem þurfti að liðsinna öðrum skipum í, vegna þess hvað þau voru lítil og ófullkomin. Hvaða gagn er að björgunarskipi og eftirlitsskipi, sem er svo lítið, að það getur ekki verið úti í þeim veðrum, þegar sérstaklega er þörf á því? En þó að skipin séu fá og nokkuð stór, er það ekki ætlun mín, að þau séu svo fá, að í hjálparþörf vegna illveðurs vestur við Djúp þurfi skip að koma frá Vestmannaeyjum. En í stórum dráttum hygg ég, að reynsla þeirra, sem eitthvað þekkja til sjósóknar og björgunarstarfsemi, bendi í þá átt, sem ég hef haldið fram. Hv. þm. S.-Þ. talaði mjög í háðstón um dýpt í þekkingu. Ekki veit ég, hversu mikil dýpt í þekkingu er hjá honum á því, sem að sjósókn lýtur. En mér fannst í þessu efni koma fram ósköp grunnur skilningur. En hann hefur auðvitað leyfi til að tala digurbarkalega, gamli maðurinn, því að hann hefur setið lengi á þingi, en ég stutt.

Ég vil svo að endingu benda á það, að þessi till. fjallar alls ekki um það, hvort skipin eigi að vera stór eða lítil. Ég rétt aðeins skaut þessu fram. Og mín skoðun á því er óbreytt. En aðalatriði þessa máls er það, sem ég sagði í upphafi, að sú starfsemi, sem Skipaútgerð ríkisins hefur nú, er svo óskyld, að nauðsyn ber til að aðskilja hana og fá landhelgisgæzlunni, sem er einn veigamesti þátturinn í að halda fullveldi landsins uppi, nýja forustu, sem aukin trygging er í fyrir landsmenn.