21.11.1944
Neðri deild: 78. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í B-deild Alþingistíðinda. (51)

183. mál, nýbyggingarráð

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég hef ekki miklu við það að bæta af hálfu meiri hlutans, sem fram hefur komið bæði í grg. frv. og ummælum hæstv. forsrh. við 1. umr. þessa máls. Ég vil þó aðeins minnast á það, að meiri hl. telur ekki ástæðu til að breyta því ákvæði 1. gr. frv., sem leggur til, að af inneignum Landsbanka Íslands erlendis skuli að minnsta kosti 300 millj. ísl. kr. leggjast á sérstakan reikning. Það kom til tals í fjhn., hvort ástæða væri til að nefna Útvegsbanka Íslands h/f, en meiri hl. taldi það ekki vera að svo stöddu, ekki vegna þess, að ástæða væri til að hlífa Útvegsbankanum, heldur vegna hins, að gjaldeyriskaupum bankanna hefur verið þannig hagað, að gjaldeyririnn hefur eingöngu legið hjá Landsbanka Íslands. Samkomulag hefur verið um gjaldeyriskaup bankanna, enda lögbundið s.l. 2 ár, að Útvegsbankinn fái þriðjung af þeim gjaldeyri, sem fæst fyrir útfluttar vörur. Sá gjaldeyrir, sem fæst fyrir útfluttar vörur hefur hingað til allur farið í innfluttar vörur, þannig að sá hluti, sem Útvegsbankinn fær, fer fyrir daglegar þarfir í útflutning og innflutning og hefur því aðeins verið tæplega matvinnungur nú á síðustu tímum. Þetta kemur betur fram í því, að hjá Útvegsbankanum liggur ekki meira í dollurum heldur en sem nemur fyrir skuldbindingum bankans fyrir væntanlegum innflutningi. Þetta leiðir af sjálfu sér, þar sem fyrirkomulagið hefur verið þannig, að sá banki, sem fer með seðlaútgáfuna, verður að liggja með þann gjaldeyri, sem er umfram árlegar þarfir. Það er því greinilegt, að þessar 300 millj. ísl. kr., sem hér er um að ræða, þarf að taka af forða Landsbankans, enda hér miðað við að taka af þeim gjaldeyri, sem þegar er til orðinn. En verði þessi kvöð síðar hækkuð umfram 300 millj. kr. og ástæður breyttu gjaldeyrisinneign bankanna, yrði engin ástæða til hlífa Útvegsbankanum við þessum skyldum. Þess ber þó að gæta, að Landsbankanum er engin vorkunn, því að hér eru ekki lagðar neinar kvaðir á bankann, sem ekki hafa verið lagðar á hann áður, því að hvorugum bankanna er heimilt að selja gjaldeyri nema með leyfi stjórnarvaldanna. Hér eru því aðeins gerðar hliðstæðar ráðstafanir og útdeilt nokkrum hluta gjaldeyriseignarinnar, í rauninni tekið undan Viðskiptaráði og fært yfir á nýtt ráð, sem á að sjá um nýskipun íslenzkra atvinnuvega. Engin kvörtun hefur komið fram um þetta frá Landsbankanum og því síður Útvegsbankanum, en hvenær sem aðstæður leyfa, að Útvegsbankinn geti tekið þátt í þessu, er sjálfsagt að leggja á hann sömu kvaðir og Landsbankann, en eins og málum nú er háttað, er ekki ástæða til að gera breytingu. Það kom einnig til tals í n. hvort ekki ætti að hækka þessar 300 millj. kr., og vildi einn nm. hækka þessa fjárhæð um 50%, en meiri hl. var því mótfallinn. Gjaldeyrisinneign landsmanna erlendis er þannig háttað, að 300 millj. ísl. kr. liggja í dollurum, en 250–300 millj. kr. í pundum.

Nú er það svo, að sá peningaforði, sem hér um ræðir, þarf aðallega að takast af dollaraeigninni, því að dollarinn er eini gjaldeyririnn, sem gildir á við gull í viðskiptum þjóða á milli.

Það er ástæða til að ætla, að þörf sé á að leggja til hliðar meira en 300 milljónir króna, sem hér er lagt til, að varið verði til eflingar atvinnuvegunum. Þótt þessi upphæð sé ætluð til eflingar atvinnuvegum landsins, eru margar þarfir eftir, sem hafa fullan rétt á sér og ástæða er til að fullnægja, þótt það skapi óhagstæðan greiðslujöfnuð, t.d. húsabyggingar, sem ekki eru hér með, og rafmagnsvélar, sem mikil þörf er á til heimilisiðnaðar.

Ég skil þessa stefnu svo, að þetta sé fyrsta sporið, fleira fari á eftir. Fyrsti liðurinn má því ekki gleypa allt.

Ég sé ekki ástæðu til að fara út í einstök atriði frumvarpsins frekar, en vil þó benda á, að samþykkt, sem birt er í greinargerðinni um einstaka atvinnuvegi, er ekki bindandi og ekki heldur tekin upp í lögin, heldur er til leiðbeiningar fyrir væntanlegt nýbyggingarráð.

Það er sagt, að lögin séu ógreinileg, og það má kannske segja, að svo sé. En það er höfuðatriði að hafa grundvöllinn nógu viðtækan, og ég hygg, að hann sé það.

Það hefur verið minnzt á orðin „hlutast til um“, þau þýða, að nýbyggingarráð á að hafa forustuna. Nýbyggingarr “að hefur engin fjárráð. Um það atriði verður að leita til ríkisstj. og hún aftur til Alþ.

Ég hygg svo, að ekki sé ástæða til að nefna fleiri atriði. Ég vík ekki að brtt. fyrr en þær hafa verið lagðar fyrir deildina af minni hl.