14.11.1944
Sameinað þing: 65. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í D-deild Alþingistíðinda. (5100)

127. mál, landhelgisgæzla og björgunarstarfsemi

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. — Ég ætla ekki að tala langt mál um það, sem hér liggur fyrir, því að ég er eindregið fylgjandi till. hv. fjvn. eins og hún hefur gert grein fyrir henni. En ég vildi bara vekja athygli á einum þætti þessa máls, sem e.t.v. mætti lagfæra án tillits til þeirra athugana og þeirrar framtíðarskipulagningar, sem gerð yrði á málinu í heild, og það er björgunarstarfsemin.

Eins og kemur fram í nál. hv. fjvn., hefur Farmanna- og fiskimannasambandið bent á, að þessi málefni, sem snerta björgunina, ættu að verulegu leyti að vera í höndum Slysavarnafélags Íslands. Í bréfi frá Slysavarnafélagi Íslands, sem raunar mun hafa borizt hv. fjvn. eftir að hún afgreiddi málið frá sér, er á það bent, að það mundi vera hyggilegt að setja upp sérdeild innan Skipaútgerðarinnar og skrifstofu Skipaútgerðarinnar undir stjórn sérfróðs fulltrúa, er starfaði undir forstjóra útgerðarinnar, sem væri nokkurs konar milliliður milli Skipaútgerðarinnar og Slysavarnafélags Íslands. Þau tíðu sjóslys, sem verða hér í námunda við Reykjavík, benda til þess, að við ættum að gera það sem í okkar valdi stendur til að auka slysavarnirnar, og ég álít því bezt fyrir komið á líka lund og verið hefur undanfarið, eins og líka er lagt til af hálfu hv. fjvn., þannig að varðskipin séu að verulegu leyti, þegar svo ber undir, notuð í þágu slysavarnanna. En þrátt fyrir þetta mætti máske með tiltölulega einfaldara framkvæmdaratriði lagfæra þetta enn betur. Þyrfti það ekki að bíða þeirrar allsherjar athugunar, sem gert er ráð fyrir í till. n., og vil ég benda á þær till., sem komið hafa fram frá Slysavarnafélagi Íslands, og vil ég skjóta því til hæstv. ríkisstjórnar, hvort hún vilji ekki athuga, hvort ekki muni tímabært, að innan Skipaútgerðarinnar væri valinn sérstakur maður undir stjórn forstjóra útgerðarinnar og í samráði við Slysavarnafélag Íslands, til þess að vera öruggur milliliður milli Skipaútgerðarinnar og slysavarnasamtakanna, og ég álít, að sá maður ætti að vera sérfróður eða hafa nokkra „praktiska“ þekkingu á þessum efnum. Þetta mætti væntanlega gera, án þess að það hefði nokkurn verulegan aukinn kostnað í för með sér.

Ég vildi aðeins skjóta þessu atriði til hæstv. ríkisstjórnar.