20.11.1944
Sameinað þing: 66. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í D-deild Alþingistíðinda. (5104)

127. mál, landhelgisgæzla og björgunarstarfsemi

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. — Eins og sjá má af nál. fjvn., hefur n. tekið þetta mál til rækilegrar yfirvegunar og skilað um það mjög ýtarlegu nál. Getum við flm. málsins út af fyrir sig vel við unað, að n. hefur tekið þetta mál svo rækilegum tökum.

Varðandi efnismeðferð till. er það að segja, að um þau tvö meginatriði, sem í henni felast, hefur n. komizt að þeirri niðurstöðu, að æskilegt sé, að sjálfstæð, sérstök stofnun fari í framtíðinni með yfirstjórn íslenzkrar landhelgisgæzlu og björgunarstarfsemi. Í öðru lagi hefur n. orðið sammála um það, að því er álit hennar ber með sér, að æskilegt sé að samræma sem allra mest í framtíðinni landhelgisgæzluna, þ.e.a.s. eftirlitsstarfið, og björgunarstarfið við strendur landsins. En n. hefur talið, að ekki væri tímabært að hníga nú þegar að því, eins og greinir í till. upphaflega, að koma nú þegar á fót sérstakri stofnun, sem þessi yfirstjórn hafi með höndum. Telur n., að það mundi leiða til allmikils kostnaðarauka fyrir ríkissjóð, ef inn á þá braut yrði farið að setja á fót slíka stofnun, sem um ræðir í hinni upphaflegu tillögu. Ég er ekki viss um það, að kostnaðarauki þurfi að verða af þessu, eins og n. álítur. Mér virðist, eins og rekstri varðskipanna er hagað og þeirra skipa, sem eru á vegum landhelgisgæzlunnar, að þá sé það á ýmsa lund þannig, að óhagkvæmt sé fjárhagslega fyrir landhelgisgæzluna. Varðskipin annast ýmsar mjög óhagkvæmar og tekjulitlar ferðir og vöruflutninga, t.d. til smáhafna, og þau verða að taka á sig ýmis vik, einmitt sem afleiðingu þess, að þau eru í sömu þjónustu og þau skip Skipaútgerðar ríkisins, sem ætlað er að fást við vöru- og farþegaflutninga. Það mætti einnig telja fleiri atriði, svo sem það, að ef yfirstjórn landhelgisgæzlunnar væri í höndum sérstakrar stofnunar, fengist betri yfirsýn um það, hvernig rekstrinum yrði heppilegast háttað fyrir þessi skip við landhelgisgæzluna. Sem sagt, mín skoðun og okkar flm. er enn þá óbreytt um það, að æskilegt væri, að sú skipulagsbreyting, sem lagt er til í till. okkar að framkvæmd verði, gæti komizt á sem alla fyrst. Við sættum okkur hins vegar við það, að skipulag í framtíðinni sé það, sem n. leggur til um leið og hún viðurkennir það, sem till. okkar leggur til. Hins vegar verður að láta sitja við rannsókn á því, hvað heppilegast kunni að reynast í þessum efnum, og ég er sammála n. um það, að þetta muni verða eins og greinir í upphaflegu till., þ.e. sjálfstæð stofnun.

Ég vil svo drepa á nokkur atriði í nál. hv. nefndar. N. telur hagkvæmt, að varðskipin séu nú rekin af Skipaútgerð ríkisins vegna vöruflutninganna. Það er vitanlegt, að varðskipin hafa verið tekin til vöru- og farþegaflutninga nú um nokkurt skeið. Hins vegar er það vitað, að þetta er aðeins bráðabirgðaástand, — bráðabirgðaástand, sem verður að ljúka mjög fljótlega. Það er kunnugt, að á íslenzkum miðum hafa verið miklu færri erlendir togarar nokkur undanfarin ár en áður var. En þessum erlendu veiðiskipum fer nú fjölgandi. Það ber því til þess nokkuð brýna nauðsyn, að varðskipin snúi sér nú að þessari gæzlu frekar en verið hefur undanfarin ár. Ég hygg þess vegna, að það megi ekki byggja á því, eins og mér virðist skína í hjá n., að hægt verði í framtíðinni að nota þessi skip, sem eiga að annast landhelgisgæzluna, til vöruflutninga innanlands og farþegaflutninga. Það er skoðun okkar flm., að eins og n. hefur fjallað um þessa till., sé ekki ástæða til þess fyrir okkur að snúast gegn þeirri breyt., sem hún leggur til, að gerð verði á henni. Aðalatriðið er það, að samkvæmt till., eins og n. leggur til, að hún verði orðuð, verði athugað, hvernig landhelgisgæzlunni verði í framtíðinni haganlegast fyrir komið fyrir þjóðina, og að í því sambandi verði framkvæmd rannsókn á ýmsum nauðsynlegum atriðum, svo sem stærð og fjölda þeirra skipa, sem við landhelgisgæzluna og björgunarstarfið eru höfð. Ég vil í því sambandi minnast á það, að í nál. kemur sú skoðun fram, að æskilegt muni vera, að þessi gæzla verði rekin á smáum skipum og nokkrum vélbátum, sennilega á stærð við Óðin, en það er það skip, sem nú hefur verið notað til gæzlu. Það er mín skoðun, að með byggingu slíkra skipa sé ekki stefnt í rétta átt, og að með því sé ekki stefnt til aukins öryggis, hvorki í landhelgisgæzlunni né heldur við björgunarstörf. Reynslan er svo að segja búin að sanna það, að skip eins og Óðinn og Sæbjörg eru fulllítil og allt of ganglítil til þess að geta annast landhelgisgæzluna og að mörgu leyti eins björgunarstarfið. Það eru til dæmi, sem sanna þetta betur en miklar orðræður, og við fyrri hluta þessarar umr. benti ég á nokkur slík dæmi, og tel ég þess vegna ekki nauðsynlegt að endurtaka þau hér nú. Ég er sannfærður um, að það, sem að ber að stefna í landhelgisgæzlunni varðandi stærð skipa, er að fá vel útbúin og hraðskreið skip, trúlega ekki öllu minni en Ægi, sem nú er fullkomnasta skip okkar, sem að landhelgisgæzlu starfar. En hér greinir mig á við n. eða a.m.k. meiri hl. hennar, og mun ég ekki halda rökræðum áfram um það atriði lengur. Ég fagna því, að n. óskar þess, að ríkisstj. hlutist til um, að sem fyrst fari fram sú rannsókn og athugun, sem hún leggur til, að framkvæmd verði samkvæmt till. Enn fremur fagna ég yfirlýsingu hæstv. dómsmrh. um það, að ríkisstj. muni láta þessa athugun fram fara hið allra bráðasta. Aðalatriðið fyrir okkur flm., sem flytjum þessa till., var að tryggja sem bezt öryggi og skipulag landhelgisgæzlunnar og björgunarstarfsins við strendur landsins. Þetta starf er svo þýðingarmikið fyrir þjóðina, að í því efni má einskis láta ófreistað til þess að gera það sem bezt í samræmi við þann tilgang, sem það stefnir að. Það hefur verið bent á það, að landhelgisgæzlan er stór þáttur í sjálfstæðismálum þessarar þjóðar. Það er þetta starf, sem miðar að því að halda uppi öryggi umhverfis landið. Það hefur verið bent á það, að á þessu ári, þegar íslenzkt lýðveldi hefur verið endurreist, sæmdi það vel, að þessum málum væri gaumur gefinn og meiri rækt við þau lögð en um skeið hefur verið. Ég vil þess vegna vænta þess, að hæstv. stj. snúist vel við þeirri áskorun n. að láta þessa rannsókn fara fram hið allra fyrsta, og ég vil leyfa mér að vænta nokkurs árangurs af því, að hún færi fram, því að vissulega er margt, sem til bóta stendur í þessum efnum.

Ég vil því leyfa mér að vænta þess, að hæstv. Alþ. mæti þessu máli með skilningi, þegar til úrslita kemur um það.