11.09.1944
Sameinað þing: 40. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í D-deild Alþingistíðinda. (5118)

102. mál, síldarverksmiðja Siglufjarðarkaupstaðar

Flm. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. — Það er óþarfi að hafa mörg orð um þetta mál, því að ég býst við, að flestir hv. þm. séu því kunnugir frá umr. um það utan þings.

Svo er mál með vexti, að Siglufjarðarkaupstaður hefur rekið síldarverksmiðjuna Rauðku síðan 1938. Það hefur komið á daginn, að verksmiðjan er orðin svo úr sér gengin, að engin tök eru á að reka hana án tekjuhalla. Var þá um tvennt að ræða: hætta rekstri hennar eða byggja hana á ný. Var síðarnefndi kosturinn valinn, og er verkið nú langt á veg komið. Er búið að fá lán hjá Tryggingastofnun ríkisins og á vegum Útvegsbankans samtals 4 millj. kr., en hann hefur ekki talið sér fært að lána meira, eins og sakir standa. En hvað sem því viðvíkur, þá telja Siglfirðingar, að það sé svo mikið hagsmunamál fyrir almenning á Siglufirði að fá verksmiðjuna byggða á ný, að ekki sé horfandi í fyrir ríkið að ábyrgjast lán það, er hér er farið fram á.

Stærð verksmiðjunnar á að verða 5 þús. mál strax, en byggð með tilliti til þess, að auka megi hana síðar upp í 10 þús. mál. Gert er ráð fyrir 4 millj. kr. láni frá Tryggingastofnun ríkisins og Útvegsbankanum. Þá er ein millj., sem farið er fram á ríkisábyrgð fyrir, er notuð verði að hálfu til byggingarinnar, en að hálfu leyti sem rekstrarfé. Síðan ætlar Siglufjarðarkaupstaður sjálfur að útvega 500 þús. kr. lán frá bæjarsjóði Siglufjarðar, sem fær 4. veðrétt á eftir ríkinu.

Ég býst ekki við, að ræða þurfi málið frekar. Þó getur verið, að hv. fjvn., sem mun fá þetta mál til meðferðar, óski eftir að fá upplýsingar um byggingarkostnað og annað, sem við kemur fjárhag fyrirtækisins, og er ég fús til að láta í té allar upplýsingar, sem óskað kann að verða eftir af n.