03.10.1944
Sameinað þing: 50. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í D-deild Alþingistíðinda. (5121)

102. mál, síldarverksmiðja Siglufjarðarkaupstaðar

Frsm. meiri hl. (Þóroddur Guðmundsson):

Herra forseti. — Fjvn. hefur haft þáltill. þá, sem hér liggur fyrir, til meðferðar, og hefur það farið svo, að fimm nm. leggja til, að þáltill. verði samþ. með dálítilli breyt. eða eins og segir á þskj. 337 í áliti meiri hlutans. Einn nefndarmaður skilar séráliti, leggur til, að till. verði samþ. nokkuð breytt, en gat þó ekki orðið meiri hlutanum samferða að öllu leyti. Í þáltill. er kveðið svo á, að 500 þús. krónur af láninu skuli vera rekstrarlán. Þetta vildi fjvn. ekki fallast á, og það kom líka í ljós við athugun málsins, að til þess er ekki ætlazt. Hins vegar virðist verksmiðjunni nauðsynlegt að fá alla lánsupphæðina til byggingarkostnaðar. Ég ætla ekki að vera margorður um, hve nauðsynlegt er, að síldarverksmiðjan Rauðka verði stækkuð og endurbyggð, enda hefur þetta mál verið rætt við þingmenn milli þinga, og mun meiri hl. hv. þm. vera stækkuninni fylgjandi og þá um leið þessari umbeðnu ábyrgð, því að án ábyrgðar verður ekki hægt að stækka verksmiðjuna.

Um álit 1. minni hl., þeirra hv. þm. S.-Þ. og hv. 1. þm. Rang., hef ég lítið að segja. Þó vil ég benda á, að fullyrðingar þeirra um áhættu ríkissjóðs af ábyrgð þessari eru á engan hátt rökstuddar og ekkert tillit tekið til þess, hve mikið nauðsynja- og þjóðþrifafyrirtæki hér er um að ræða. Ég held því fram, að ekki hefði mátt hika við að veita þessa ábyrgð, þó að því fylgdi mikil áhætta, vegna þess, hve mikil nauðsyn er á fleiri síldarbræðsluverksmiðjum. En að mínu áliti er hér um mjög litla áhættu að ræða.

Sérálit hv. þm. S.-Þ., Jónasar Jónssonar, er að mestu um heimilisillindi þeirra framsóknarmanna, og ætla ég mér ekki að blanda mér í það, en ég get ekki gengið fram hjá að benda á, að grg. þessi er krydduð dylgjum og getsökum í garð einstakra manna og ósmekklegu oflofi um aðra. Eins og saga Rauðskinnumálsins er rakin í álitinu, er það slík fölsun á staðreyndum, að hreinni furðu gegnir, jafnvel þótt tillit sé tekið til þess, hver segir frá.

Um álit 2. minni hl., hv. þm. Borgf., Péturs Ottesens, er það að segja, að hann vill veita ábyrgðina og er okkur í meiri hl. sammála um það, en munurinn hjá honum og okkur er aðeins sá, að hann vill veita ábyrgð gegn 3. veðrétti næst á eftir 4 millj. samtals á 1. og 2. veðrétti, en við viljum veita ábyrgð gegn veðrétti í verksmiðjunni á eftir veðréttum samtals 4 millj. króna. Allir hljóta að sjá, að hér er lítill munur á, því að engu máli getur skipt fyrir ríkissjóð, hvort hann hefur 3. eða 4. veðrétt, þegar upphæðin á veðréttinum á undan er ákveðin 4 millj. En það er þægilegra, að orðalagið sé eins og við leggjum til, meiri hl. fjvn.

Alþfl. var líka skiptur um þetta mál. Það var flokksmál hjá Sósfl. Hann barðist fyrir því, að bærinn eignaðist þessar eignir, að vísu með góðri aðstoð framsóknarmannsins Þormóðs Eyjólfssonar, — en að þakka honum einum, að það varð, þykir mér heldur mikið.

Þar sem ég geri ráð fyrir, að yfirgnæfandi meiri hl. Alþingis sé málinu fylgjandi, vil ég ekki orðlengja um það.