03.10.1944
Sameinað þing: 50. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í D-deild Alþingistíðinda. (5122)

102. mál, síldarverksmiðja Siglufjarðarkaupstaðar

Frsm. 2. minni hl. (Pétur Ottesen):

Eins og nál. á þskj. 345 ber með sér, leitaði fjvn., strax og till. var vísað til hennar, upplýsinga hjá bæjarstjórn Siglufjarðar um kostnað við bygging verksmiðjunnar. Í grg., sem fylgir till., eins og hv. þm. Siglf. flutti hana, lágu engar þær upplýsingar fyrir og komu ekki heldur í framsöguræðu hans. Fjvn. vildi fá að vita, hvað kosta mundi að ljúka verkinu. Þegar upplýsingar fengust um það frá Siglufirði, sýndi það sig, að ekki var rétt, að ½ milljón af því fé, sem afla átti, væri rekstrarlán handa verksmiðjunni, en hún var umfram þá upphæð, sem talið var, að verksmiðjan kosti. Þeir, sem heitið höfðu láni út á 1. og 2. veðrétt í verksmiðjunni, höfðu krafizt þess, að þessar 500 þús. kr. yrðu til tryggingar því, að verksmiðjan verði tilbúin fyrir næstu síldarvertíð. Þetta varð til þess, að ég samdi þegar brtt. þá, sem er á þskj. 345, og vil takmarka ríkisábyrgðina við þá upphæð, sem þarf til að fullgera verksmiðjuna. Ég tók þar upp alveg sams konar ákvæði og er í þáltill. um, að ríkið hafi 3. veðrétt í verksmiðjunni vegna þessarar 1 millj. kr. ábyrgðar. Því fremur var ástæða til að gera það, sem það kom fram, að þeir aðilar, sem veita samtals 4 millj. kr. lán út á 1. og 2. veðrétt, Tryggingastofnun ríkisins og Útvegsbanki Íslands, hafa sett það skilyrði fyrir láninu, að ríkið ábyrgðist það, sem á vantaði af byggingarkostnaði.

Þegar þáltill. var lögð fram í fjvn., kom það eigi í ljós hjá þeim meiri hl. n., sem ábyrgðinni var fylgjandi, að eigi mætti veita ríkinu 3. veðréttinn, en þó kom kvittur um, að e.t.v. mundi vera bilbugur á öðrum lánveitingum og mundi þurfa að nota 3. veðrétt handa þeim, og þar sem ekki var tilgreindur neinn ákveðinn aðili, sem þessa krefðist, þótti mér ekki ástæða til að taka tillit til svo lauslegs umtals, er ég samdi brtt., heldur fylgdi till. flm. Það má e.t.v. segja, að þetta muni ekki hafa fjárhagsþýðingu fyrir ríkissjóð. En vel getur farið svo, að ríkissjóður sé settur í nokkra fjárhagshættu með þessari ábyrgð, því að enginn veit, hversu tekst að sjá þeim fyrirtækjum farborða eftir stríð, sem nú eru stofnuð fyrir afarfé. Það er almennt álit, að verðlag muni mjög breytast. Því ber ekki heldur að neita, að Siglufjarðarbær hefur lagt í mjög fjárfrekar framkvæmdir, þar sem Skeiðsfossvirkjunin er. En það er ákaflega nauðsynlegt, að bætt sé aðstaða til síldveiða og reynt að draga úr tjóni, sem verður af töfum síldveiðiflotans sökum verksmiðjuskorts, en aðferðir til að geyma óunna síld hafa ekki enn borið nægan árangur, svo að aukning á verksmiðjum er óhjákvæmileg. Á þessu stigi máls hef ég því ekki viljað bregða fæti fyrir þetta mál, þótt ríkissjóður mundi binda sér þar bagga og hætt sé við, að Siglufjarðarbær sé búinn að reisa sér hurðarás um öxl.

Það var upplýst í fjvn., áður en málið var flutt í þessu formi, að búið væri með undirskriftum þm. að tryggja samþ. þess nú á þingi. Þessu til staðfestingar fylgdu ekki orðin tóm, heldur lagði þm. einn fram gögn um, hvernig þetta væri tryggt. Þá held ég hafi komið fram, að búið hafi verið að leita til allra þm. um undirskrift að mér og öðrum þingmanni undanteknum. Slík undirskriftasamþykkt er allt annað en góð aðferð. En vitanlega hefur aðferðin ekki áhrif á það, hvernig ég lít á málið sjálft.