03.10.1944
Sameinað þing: 50. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í D-deild Alþingistíðinda. (5123)

102. mál, síldarverksmiðja Siglufjarðarkaupstaðar

Frsm. 1. minni hl. (Jónas Jónsson):

Hv. 1. þm. Rang., sem í fjvn. stóð sama megin í máli þessu og ég og hefur ásamt mér skilað nál. á þskj. 343, er fjarverandi sökum embættisskyldu, og vildi ég fara fram á það við hæstv. forseta, að hann stillti svo til, að þessi hv. þm. gæti verið staddur við endanlega afgreiðslu till.

Áður en ég vík að þessu máli, finnst mér við eiga að benda á, að tillaga um, að Siglufjarðarbær fari að starfrækja stórt og dýrt atvinnufyrirtæki, virðist vera byrjun á hreyfingu, sem vakin er hér á Alþ. Það munu vera þrír þm. Sósfl., sem hafa lagt til, að bæjarfélög efni til útgerðar í stórum stíl með 100 milljóna ríkisframlagi og í einn stað megi veita allt að því 5 millj. kr. Þannig er ætlazt til, að framleiðslan færist úr höndum einstaklinga í hendur bæjarfélaga á ábyrgð allra gjaldþegna. Nú á Siglufjarðarbær að ríða á vaðið, og svo eiga öll bæjarfélög að geta byrjað milljónarekstur á ábyrgð ríkisins. Meðferð þessa máls verður því vottur um það, hverja stefnu Alþ. vill hafa í þessum málum.

Þetta mál hefur oft verið borið fyrir ríkisstjórnir fyrri tíma, en forráðamönnum landsins hefur jafnan þótt stórum varhugavert að leyfa verksmiðjubygging þá, sem um ræðir. Í tíð þjóðstjórnarinnar var það sótt sérstaklega fast að fá að stækka verksmiðjuna upp í 5 þús. mál, og málið kom fyrir þáv. atvmrh., Ólaf Thors. Hann var að vissu leyti einn um það, hvernig hann leit á málið. En Eysteinn Jónsson og a.n.l. Hermann Jónasson studdu hann eindregið og höfðu á þessu svipaða skoðun og aðrir landmenn, að út á þessa braut ætti ekki að fara. Siglufjörður fékk ekki nema takmarkað leyfi til stækkunar eða upp í 2500 mál. Nú höfðu kommúnistar látið í veðri vaka, að fé væri tryggt og ekkert vantaði nema leyfið. En þeir stækkuðu ekkert, enda leizt víst fáum á fyrirtækið. Bankarnir, a.m.k. Landsbankinn, voru því mótfallnir að leggja í það fé, — og væri það þó mörgum sinnum fjarlægara nú. Í landinu eru til 4 jafnstórar verksmiðjur og Rauðku er ætlað að verða, en kosta ekki meir en 2 millj. kr., og þessi mun ekki kosta minna en 8 millj. Samkeppni hennar við hinar verksmiðjurnar hlyti að verða svo erfið, að hún stæðist ekki, ellegar gróðinn yrði næsta mikill af verksmiðjunum á Hjalteyri og í Djúpuvík. Og svo halda menn, að Rauðka eigi að auki að standa straum af hinni óhemju dýru rafvirkjun Siglfirðinga.

Ekkert bæjarfélag hefur hingað til getað staðið undir slíku. Allt sýnir, að óhugsanlegt er, að hin dýra verksmiðja beri sig. Ýmsir einstaklingar og félög, sem gætu aukið síldarverksmiðjur sínar, hafast ekki að, og ríkið, sem byrjaði á að stækka sínar verksmiðjur, hreyfir sig ekki. Allir vita það fjarstæðu að reisa þessi fyrirtæki nú á hápunkti dýrtíðar. Það kom fram hjá hv. þm. Borgf., að verksmiðjuaukning gæti orðið hjálparráð fyrir bæ, sem væri í kröggum vegna Skeiðsfossvirkjunar. En þegar sú virkjun er nú á veturnóttum komin í þrot, vegna þess að þær 8 millj. eru búnar, sem ríkið ábyrgðist, er víst óvarlegt að ætla Rauðku ófæddri að hjálpa og ætla bænum að bjarga sér úr þrotinu með því að ráðast nú í glæfrafyrirtæki slíkt, að engir aðrir láta sér detta í hug að leggja í það. Þeir koma sjálfsagt til Alþ. aftur með nýtt rafveitulán, því að ósennilegt er, að nokkur annar vilji hjálpa þeim. Hvorki getur rafveitan stutt síldarbræðsluna né síldarbræðslan rafveituna, heldur verður þetta samlagt eitt hið stórkostlegasta tapfyrirtæki, sem sögur fara af, og Siglufjörður kominn á ríkið, þegar að skuldadögunum kemur.

Siglufjörður hefur átt svo bágt með að fá tiltrú, að honum tókst ekki að fá neina hjálp, þó að send væri hingað fjölmenn n. í lántökuerindum, því að málið strandaði á því, að þeir, sem peningana höfðu, vildu ekki treysta Siglfirðingum í þessum efnum. Þegar þeir stóðu svo ráðþrota, leituðu þeir til málafærslumanns nokkurs hér í bænum, sem er á þingi, og hann tók að sér að útvega þetta lán fyrir Siglfirðinga — mjög í ósamræmi við það, sem tíðkazt hefur. Ég geri ráð fyrir, að málið hefði verið einfaldara, ef ekki hefði viljað svo til, að þessi málfærslumaður er jafnframt þm. og málið berst því inn á Alþ. og þar með áhættan af því. Málið er sótt þar á öðrum vettvangi en venjulegt er um slík mál. Ég ætla ekki að leyna því, að ég álít það óviðeigandi, að þm. sé í þeirri aðstöðu, sem hv. þm. Seyðf. er í hér, að berjast fyrir lántöku á ábyrgð ríkissjóðs, þar sem hann er starfandi þm. Ég þykist þess fullviss, að þessi hv. þm. sé ötull að útvega lán, náttúrlega fyrir þá þóknun, sem málaflutningsmenn taka. En hann hefur víst ekki gert sér grein fyrir, að hann er hættur að vera á sínum venjulega starfsgrundvelli, heldur er hann kominn inn á þm.-grundvöllinn, áður en hann veit af. Hér á Alþ. að grípa í taumana.

Ég mun því, áður en málinu lýkur, leggja fram dagskrá þess efnis, að Alþ. álíti ekki viðeigandi að ganga í þessa ábyrgð, þar sem einn af þm. sé á þennan hátt við riðinn málið. — Þetta er ekki aðeins ábyrgðarmál og ríkisáhætta, heldur er formið vafasamt, að þm. séu á atvinnugrundvelli að koma lántökuábyrgð í gegn í þinginu. Ég þykist þess fullviss, að hv. þm. hefði ekki gert þetta, hefði hann athugað, hvert straumurinn bar hann. Sú leið, sem valin hefur verið í þessu máli: að tryggja nóg þingfylgi við ábyrgðina utan Alþ., er nýstárleg, þegar um svo óvenjulegt má1 er að ræða. Og mér þætti sennilegt, að við þær skýringar, sem koma munu fram í málinu við umr., muni það koma í ljós, að jafnvel sumum hv. þm., sem hafa bundið sig í þessu efni án þess að hafa yfirsýn yfir málið, finnist ástæða til að athuga þetta nánar.

Eins og tekið er fram í nál., svaraði þessi lántökumaður, hv. þm. Seyðf., fyrirspurn frá mér um undirskriftirnar með því að lesa upp nöfn mannanna. En ég sé, að í nál. hefur af vangá fallið niður hjá mér nafn eins þeirra manna, sem ekki skrifuðu undir, en það er nafn Péturs Magnússonar bankastjóra. Það getur verið, að þeir menn, sem þannig stendur á um, séu fleiri, sérstaklega úr Sjálfstfl., en ég hygg þó ekki, að svo sé. En ég leiðrétti þetta hér með, að því er Pétur Magnússon snertir, því að einmitt hann hefur tekið alveg ákveðna afstöðu í málinu og ráðið sterklega frá því, að út í þetta væri farið. Ég hef enn fremur orðið var við, að á Siglufirði þykir þetta dýr framkvæmd, þar sem búið er að eyða í kostnað við lántökuna á þriðja hundrað þús. kr. til ýmissa starfandi n., sem dvalizt hafa langdvölum hér, og annars slíks, og í próvisíon til málafærslumannsins 90 þús. kr. Af því að þetta er svo óvenjulegt, þykir mér rétt að taka fram, að þótt ekkert sé við það að athuga eftir þeim reglum, sem gilda hjá málaflutningsmönnum, þó að þeir hafi hjálparmenn, þá er mér kunnugt um, að sumum mönnum, sem stóðu að því að veita lánið, fannst þetta geta snert sig. Þess vegna hef ég spurzt fyrir um þetta og ætla að gefa hér skýrslu viðvíkjandi því. Eftir því, sem heimildir mínar norðan lands herma, hefur ekkert umtal orðið þar í sambandi við fjárgróða einstakra manna við lántöku Rauðku á Siglufirði, um að bankastjórn; útibússtjórn eða forráðamenn Tryggingastofnunar ríkisins hafi orðið þar aðnjótandi nokkurra fjárhagshlunninda. Þessi athugasemd lýtur að því, að engum, sem haft hafa orð á því, hve þessar framkvæmdir hafi orðið dýrar, hefur komið til hugar, að forráðamenn þessara stofnana hafi haft af þeim nokkurn hagnað. Að öðru leyti er mér ókunnugt um, hvaða menn aðstoða þennan mann um lántökurnar, því að til hans eins sem þm. er hægt að snúa sér um það.

Þá ætla ég að fara nokkrum orðum um það, hve óviðeigandi það er fyrir Alþ. að ganga í þessa ábyrgð, eins og hún er til komin. Ég ætla ekki að fara út í það, hve óheppilegt það er, að Siglufjörður reki stórfelldan atvinnurekstur á eigin spýtur. Þegar þetta mál var til meðferðar hjá þjóðstjórninni, gerði Siglufjörður engar kröfur um ríkisábyrgð, heldur var einungis farið fram á leyfi stj. til að stækka verksmiðjuna og peningalán hjá lánsstofnunum. En nú horfir málið öðruvísi við, því að Siglfirðingar fengu enga áheyrn hjá lánsstofnununum, og fyrst þegar fenginn er þessi málafærslumaður til að taka málið að sér, kemst skriður á það. En þá er sett það ófrávíkjanlega skilyrði fyrir þessu fjögra millj. kr. láni, að ríkið gangi í ábyrgð fyrir tiltekinni upphæð og tryggi reksturinn, því að ólíklegt er, að hv. þm. hefði beðið um ríkisábyrgð, ef ekki hefði legið fyrir áskorun um það frá þessum stofnunum. Hvorki Tryggingastofnun ríkisins né Útvegsbankinn vildu lána nógu mikið fé til Rauðku án ríkisábyrgðar. Þessar tvær stofnanir vildu ekki hætta þessum fjórum millj., nema ríkið tæki á sig áhættuna. Hv. þm. Seyðf. hefur sýnt þann dugnað að ná vilyrði margra hv. þm. — og kannske meiri hl. þeirra — fyrir ábyrgðinni. Ég hef sagt, að það sé sök sér, þó að þm. í góðri meiningu berjist fyrir áhugamálum sínum og fari fram á fjárveitingu, sem ríkið kann að tapa á, eins og t.d. um læknisbústaði o.fl. En um öll slík fyrirtæki hefur þá jafnan gilt, að þm. var ekki að útvega féð persónulega, heldur fyrir mannfélagið að segja má og án atvinnuvonar fyrir sjálfan sig. Ég hygg, að þetta sé í fyrsta skipti í þingsögu okkar, að það komi fyrir, að maður, sem er í fullum rétti frá sjónarmiði málafærslumanns, taki mikla peninga fyrir að útvega lán og komi svo inn á Alþ. með lokahnútinn í málinu og reyni að tryggja þar, að þetta gangi fram, sem honum er atvinnuspursmál. Ég hef áður sagt, að ég vil ekki kasta rýrð á þennan hv. þm., og vil gjarnan trúa, að hann hafi ekki áttað sig á þessu, en svo mikið er víst, að í hverju norrænu þingi og í Englandi eða Bandaríkjunum væri óhugsandi, að slíkt mál gengi fram. Það kemur í ljós við atkvgr., hvort Alþingi Íslendinga ætlar að leggja út á nýjar brautir í þessu efni og það megi verða eitt af einkennum okkar, að elzta þjóðþing veraldarinnar taki upp slíkan sið. Ég vil benda á, að hér er ekki að ræða um neitt smáræðis atvinnuspursmál. Mér er sagt, að dómarar í hæstarétti hafi látið í ljós í sambandi við væntanleg launal., að minna en 18 þús. kr. laun væri þeim ekki samboðið. Hver þeirra þarf að vinna heilt ár fyrir þeirri fjárhæð. En hvað er það í samanburði við það, sem Alþ. tryggir þessum duglega málafærslumanni, ef þetta mál nær fram að ganga?