13.10.1944
Sameinað þing: 54. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í D-deild Alþingistíðinda. (5128)

102. mál, síldarverksmiðja Siglufjarðarkaupstaðar

Lárus Jóhannesson:

Herra forseti. — Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls í þessum umr. En eftir framkomu svo nefnds nál. á þskj. 343 og eftir ræðu hv. þm. S.-Þ. þykir mér rétt að skýra með nokkrum orðum frá afskiptum mínum af málinu, og skal ég þá aðeins — til þess að tefja ekki tímann um of — stikla á því stærsta.

Afskipti mín af þessu máli hefjast 26. apríl s.l., þegar Guðmundur Hannesson bæjarfógeti og Snorri Stefánsson framkvæmdastjóri sneru sér til mín sem málaflutningsmanns og báðu mig um aðstoð til að útvega Siglufjarðarkaupstað 4,5 millj. kr. lán til endurbyggingar síldarverksmiðjunnar Rauðku og stækkunar úr 800 mála afköstum á sólarhring upp í 5000 mál. Skýrðu þeir mér frá því, að allir stjórnmálaflokkarnir í bæjarstjórninni litu svo á, að það væri hið mesta hagsmunamál fyrir Siglufjarðarkaupstað, að hægt væri að endurreisa verksmiðjuna fyrir síldarvertíð 1945.

Leyfi stjórnarráðsins hafði fengizt til að stækka verksmiðjuna upp í 5000 mála afköst, en auk þess hafði félagsmálaráðuneytið leyft lántökuna og fjármálaráðuneytið leyst eignir Rauðku úr veðböndum þeim, sem á henni hvíldu til ríkissjóðs vegna Skeiðsfossvirkjunarinnar. Varð því ekki annað séð en bæjarstjórnin nyti fyllsta stuðnings ríkisstjórnarinnar í málinu.

Mér var skýrt frá, að Landsbankinn hefði neitað að veita umbeðið lán. Þótti mér ekkert óeðlilegt við það, því að sá banki er aðalviðskiptabanki ríkisverksmiðjanna, en auk þess er vitað, að bankarnir kinoka sér við að veita föst stofnlán til langs tíma.

Í sambandi við þetta afhentu þeir G. H. og Sn. St. mér skýrslu, sem þeir höfðu útbúið til skýringar málinu. Fól hún í sér kostnaðaráætlanir um stækkunina, samdar af Sn. St. og Vélsmiðjunni Héðni og endurskoðaðar af Þórði Runólfssyni vélfræðing, svo og rekstraryfirlit, samið af Snorra, og fleiri upplýsingar. Samkvæmt kostnaðaráætluninni var ráðgert, að 4,5 millj. nægðu til að endurbyggja verksmiðjuna upp í 5000 mála afköst á sólarhring til viðbótar þeim eignum, sem fyrir voru, en þær voru metnar á 2169 þús. kr.

Samkvæmt rekstraráætluninni var gert ráð fyrir, að verksmiðjan gæti, þrátt fyrir það að hún yrði reist á þessum dýru tímum, gefið mjög sæmilega rekstrarútkomu.

Hagnaður á ári, miðað við núverandi verð og tilkostnað, er þar reiknaður 224.923,50 kr., en þá hafa verið dregnir frá eftirtaldir kostnaðarliðir:

l. Afborganir af stofnláni ...... kr. 300.000,00

2. Í fyrningarsjóð .............. — 120.000,00

3. Í varasjóð .................. — 100.000,00

en auk þess vaxtakonto af stofnláni, reiknuð a.m.k. 50.00 kr. of hátt og reiknað með 56.000 kr. í útsvarsgreiðslur.

En það, sem gerir fyrirtækið enn þá álitlegra, er það, að ekki mun kosta nema 2,7 millj. kr. til viðbótar eftir núverandi verðlagi að auka afköst verksmiðjunnar upp í 10.000 mál á sólarhring.

Eftir að ég hafði hugsað málið, sagði ég þeim Guðmundi bæjarfógeta og Snorra, að ég mundi gera tilraun til lánsútvegunarinnar gegn venjulegri málflutningsþóknun.

Ég hafði útvegað h/f Ingólfi á Ingólfsfirði 2 millj. kr. lán til byggingar síldarverksmiðjunnar þar. Í því sambandi fékk ég nokkra reynslu á því, hvernig heppilegast væri að haga lánsútvegun eins og þessari. Ég lagði því til, að reynt yrði að skipta lánsupphæðinni niður í fleiri lán, tryggð með mismunandi veðréttum til mismunandi langs tíma og með mismunandi vaxtakjörum, þannig að hægt væri að ná til fleiri lánveitenda, en að öll lánin mynduðu samræmda heild fyrir lántaka. Vildi ég fá ca. 2,5 millj. kr. út á 1. veðrétt til langs tíma með tiltölulega lágum vöxtum, en styttri lán með hærri vöxtum út á síðari veðrétti.

Ég tek það skýrt og greinilega fram, að á þessum tíma var alls ekki gert ráð fyrir neinni ríkisábyrgð, og Tryggingastofnun ríkisins hefur aldrei krafizt ríkisábyrgðar, hvorki fyrir láni sínu né síðari lánum.

Ég skal nú ekki lýsa starfi mínu í sambandi við lánsútvegunina, en láta mér nægja, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp kafla úr bréfi, sem við Guðmundur Hannesson bæjarfógeti sendum stjórn Útvegsbankans 23. maí s.l., þar sem skýrt er tekið fram, hvernig málið stóð þá. Gerði ég mér góðar vonir um, að bankinn veitti þær ábyrgðir, sem um var beðið. Bréfkaflinn er svo hljóðandi:

„Tilraunir okkar til fjáröflunar hafa gengið svo sem hér segir:

1. Tryggingastofnun ríkisins hefur lofað að veita Siglufjarðarkaupstað lán að upphæð allt að 2,5 millj. króna, sem sé afborgunarlaust í allt að tveim árum, en borgist síðan upp með jöfnum afborgunum á 17–18 árum. Lán þetta sé tryggt með 1. veðrétti í verksmiðjunni og beri 4½% ársvexti. Áskilið er af hálfu tryggingastofnunarinnar, að bankaábyrgð sé sett fyrir skilvísri og skaðlausri greiðslu höfuðstóls og vaxta láns þessa, þar til er verksmiðjan er komin upp og tekin til starfa með fullum afköstum, en þá fellur bankaábyrgðin niður af sjálfu sér.

2. Við höfum fengið ákveðinn ádrátt frá tveimur peningastofnunum hér í bænum um, að þær kaupi af Siglufjarðarkaupstað á nafnverði skuldabréf að upphæð allt að 2 millj. kr., sem séu afborgunarlaus í eitt ár, en greiðist síðan með jöfnum afborgunum á átta árum. Vextir séu 3½%. Áskilið er, að skuldabréf þessi séu tryggð með bankaábyrgð, en gengið út frá, að bankinn taki aftur sem tryggingu 2. veðrétt og uppfærslurétt í verksmiðjunni næst á eftir framangreindum 2,5 millj. kr.

Við leyfum okkur nú að fara fram á, að þér veitið Siglufjarðarkaupstað ábyrgðir þær, sem að framan greinir.

Tryggingar þær, sem þér hafið fyrir ábyrgðinni, eru:

1. Að lántaki er eitt stærsta og athafnamesta bæjarfélag hér á landi.

2. Eignir þær, sem Rauðka þegar á og samkvæmt framanrituðu eru lágt metnar á kr. 2.121.880,00.

3. Verðmæti þau, sem þær 4,5 millj. kr., sem óskað er tryggingar fyrir, skapa.

4. Sparisjóður Siglufjarðar hefur með símskeyti dags. 20. þ. m. kveðið sig reiðubúinn til að lána Siglufjarðarkaupstað allt að hálfri millj. króna án tryggingar til þess að greiða það, sem á kynni að vanta, ef áætlaðar 4,5 millj. kr. nægja ekki til að fullklára verksmiðjuna, með þeim kjörum, að ekki rýri árlega greiðslumöguleika á 4,5 millj. kr. lánunum. Standist kostnaðaráætlunin og ef þér takið að yður framangreindar ábyrgðir, býðst sparisjóðurinn til þess eftir frjálsu vali hans annaðhvort að lána verksmiðjunni síðustu hálfu milljónina án ábyrgðar yðar eða gefa yður bakábyrgð fyrir allt að hálfri milljón króna, sem lækkar hlutfallslega við ábyrgð yðar á þeim 2 milljónum króna, sem væntanlega verða tryggðar með 2. veðrétti í verksmiðjunni, jafnóðum og hún afborgar það lán.

Þegar það er athugað annars vegar, að svo miklar tryggingar eru fyrir þeirri upphæð, sem farið er fram á, að þér veitið bakábyrgð fyrir, og hins vegar, að slík bankaábyrgð gefur bankanum kr. 250.000,00–kr. 280.000,00 í aðra hönd fyrir ábyrgðina yfir lánstímann, vonum við, að bankinn sjái sér fært að takast á hendur umbeðnar ábyrgðir.

Við viljum að síðustu taka fram, að tilboð h/f Héðins rennur út 25. þ. m. og fæst ekki endurnýjað óbreytt. Er okkur því nauðsynlegt að fá svar bankans við málaleitun okkar ekki síðar en á hádegi fimmtudaginn 25. þ. m.“

26. maí var ég kallaður niður í Útvegsbanka, en Vélsmiðjan Héðinn hafði þá framlengt tilboð sitt þar til að kvöldi 27. maí. Hafði bankastjórnin þá lagt bréf okkar Guðmundar fyrir bankaráðið, og var svar bankans á þessa leið:

„Bankinn er velviljaður málinu, en telur, að ekki sé bankahæf trygging fyrir öllum þeim ábyrgðum, sem farið er fram á. Hins vegar álítur bankinn, að það sé svo mikið hagsmunamál fyrir þjóðina í heild, að Rauðka komist upp fyrir næstu síldveiðivertíð, að eðlilegt sé, að ríkið taki að sér nokkra ábyrgð á eftir bankanum, en á undan Sparisjóði Siglufjarðar.

Bankinn er þess vegna tilbúinn til þess að takast á hendur umræddar bráðabirgðaábyrgðir og að lána eða ábyrgjast lán að upphæð 1 milljón króna á eftir tryggingastofnuninni svo og að veita rekstrarlán, og í því sambandi talað um 0,5 milljón kr., ef hægt er að fá ríkisábyrgð fyrir 1 milljón króna gegn veðrétti næst á eftir bankanum.“

Þetta er í fyrsta skipti, sem ríkisábyrgð er nefnd í sambandi við lántökuna, og kom uppástungan um hana frá Útvegsbanka Íslands.

Svona stóð málið 26. maí s.l., en eins og ég gat um áður, féll tilboð Héðins úr gildi næsta kvöld. Hér var því ekki um annað að gera en að hætta alveg við málið í svip, því að tími var ekki til að snúa sér til annarra væntanlegra lánveitenda, ef verksmiðjan átti að komast upp næsta sumar, eða rannsaka, hvort ekki væri þingmeirihluti fyrir því að samþykkja áskilda ríkisábyrgð.

Vitað var, að Sósíalistafl. mundi samþ. ábyrgðina, og líklegt mátti telja, að Alþfl. gerði hið sama. Eftir var að athuga aðstöðu Framsfl. og Sjálfstfl., og mátti búast við, að hvorir tveggja flokkarnir væru klofnir, — frjálslyndu mennirnir flestir með, en afturhaldið úr báðum flokkunum náttúrlega á móti.

Guðmundur Hannesson tók að sér að tala við forystumenn Framsfl., en ég við aðra þm., sem hægt var að ná til á þeim stutta tíma, sem til stefnu var.

Ég fyrir mitt leyti gat ekki séð neitt á móti því, að ríkið tækist á hendur umrædda ábyrgð. Ég hafði undirritað bréf til bankastjórnar Útvegsbankans og beðið þá stofnun um að takast ábyrgðina á hendur, af því að ég taldi og tel enn, að fullkomlega bankahæf trygging sé fyrir bendi. Og þá leiðir það af sjálfu sér, að því fremur var næg baktrygging fyrir ríkisábyrgð, því að gerðar eru og gera ber minni kröfur til baktryggingar fyrir ríkissjóð, ef fyrirtækið á annað borð er þess vert, að ríkið aðstoði við stofnun þess með ábyrgð sinni. Ég gat því af beztu sannfæringu mælt með því við hv. þm., að þeir gyldu ríkisábyrgðinni jákvæði sitt. En mér dettur ekki í hug, að meðmæli mín hafi á nokkurn hátt haft áhrif á ákvörðun hv. þm. Þeir eru einfærir um að taka ákvarðanir sínar hver fyrir sig, og því miður er ég ekki sá áhrifamaður á Alþingi, sem hv. þm. S.-Þ. virðist vilja gefa í skyn.

Ég fæ ekki séð, að það, að ég er í svip þm., hafi átt að útiloka mig frá að þreifa fyrir mér um fylgi hv. þm. um ríkisábyrgð. Engum hv. þm., sem ég talaði við eða sendi skeyti, gat blandazt hugur um, að ég kom hér fram sem málafærslumaður Siglufjarðarkaupstaðar, og ég staðhæfi, að ég hafi í öllum greinum skýrt þeim rétt frá öllum málavöxtum. Og ekki minntist neinn þeirra á við mig, að hann áliti milligöngu mína óviðeigandi, vegna þess að ég væri þm. Eru þó í hópi þeirra ýmsir af mínum betri vinum, sem sjálfsagt hefðu bent mér á sem ungum og óreyndum þm., ef þeir álitu, að ég væri hér á rangri braut. Hv. þm. S.-Þ. er sá eini, sem fundið hefur að þessu, og verð ég að segja, að ég efast um, að skoðun hans hefði verið sú, sem nú virðist vera, á framkomu minni, ef hann hefði verið málinu hlynntur eða ég þægur flokksmaður hans.

Mér hefði líka verið í lófa lagið að koma sjálfur hvergi nærri þessum síðasta lið lánsútvegunarinnar og láta annan málaflutningsmann annast hann, að sjálfsögðu með sama árangri. En slíkt er mér ekki að skapi. Ég þykist vera hreinn og beinn og hef engu að leyna.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta, en niðurstaðan varð, að flestallir þeir hv. þm., sem til náðist, sýndu málinu fullan skilning, og innan tilsetts frests voru bankanum afhent skilríki, sem hann taldi tryggja, að málið næði fram að ganga á Alþ. og nægja til að veita bráðabirgðalán, svo að hægt væri að byrja á fyrirtækinu.

Hv. þm. S.-Þ. má kalla framkomu mína ómóralska, ef hann vill. Siðferðileg sjónarmið okkar eru áreiðanlega mjög ólík. Ég felli mig t.d. ekki við þann móral, sem felst í niðurlagi þessa svokallaða nál., þar sem hv. þm. ráðleggur þm. að svíkja gefin loforð. En bankastofnunin hefur lánað féð í því trausti, að þau verði haldin.

Þá áfellist hv. þm. S.-Þ. aðferðina við að afla tryggingar fyrir væntanlegu þingfylgi. Alþingi sat ekki á rökstólum, þegar þetta gerðist, og það er alkunna, að einmitt slík undirskriftarskjöl sem þau, er fyrir liggja í þessu máli, hafa oft verið notuð áður, þegar fjárhagsákvarðanir hefur orðið að taka í sambandi við loforð um væntanlegar ábyrgðir eða fjárveitingar, og það jafnvel meðan Alþ. hefur átt setu. Má t.d. minna hv. þm. á undirskriftir tuttuguogáttamenninganna í fyrra.

Hv. þm. notar enn sem fyrr þinghelgina til að ráðast að utanþingsmönnum, sem geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér, eins og t. d. Guðmund Hannesson bæjarfógeta. Ég þarf ekki að áfellast það. Slíkur verknaður dæmir sig sjálfur.

Hvað þóknuninni til mín fyrir lánsútvegunina viðvíkur, er það að segja, að hún fer eftir venju og gjaldskrá málafærslumannafélagsins, sem staðfest er af dómsmrh., en út af einni setningu í nál. vil ég taka fram, að hvorki nokkur framsóknarmaður né Alþýðuflokksmaður hefur fengið, á rétt á að fá eða mun fá nokkurn hluta af henni.