16.10.1944
Sameinað þing: 55. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í D-deild Alþingistíðinda. (5133)

102. mál, síldarverksmiðja Siglufjarðarkaupstaðar

Áki Jakobsson:

Herra forseti. — Þetta mál, sem hér um ræðir, er orðið allgamalt hjá Siglfirðingum. Síldarverksmiðjan Rauðka hefur frá 1938 verið rekin fyrir bæjarins fé og nú á síðasta ári með tapi, sem nemur um 1 kr. á hvert mál.

Var nú horfið að því að reisa nýja verksmiðju. En þá kom í ljós, að hægt var að fá hagkvæmari lán með því móti, að ríkisábyrgð fengist fyrir nokkru af því fé, er útvega þurfti.

Á síðastliðnu vori var öllum ljóst, að vinda þurfti að þessu bráðan bug, því að eina leiðin til þess, að verksmiðjan gæti tekið til starfa sumarið 1945, var, að bygging hennar væri hafin þegar í sumar. Var það og gert, strax og unnt var. Ef hins vegar hefði verið beðið eftir því, að þing kæmi saman, hefði verið loku fyrir það skotið, að verksmiðjan gæti tekið til starfa næsta sumar. Þess vegna var tekið það ráð að safna undirskriftum meðal þm. viðvíkjandi ríkisábyrgðinni, með því og að vitað var, að allir þm. voru þegar búnir að taka afstöðu til þessa máls. Og á þennan hátt reyndist unnt að byrja á verkinu þegar í sumar. Nú er að vísu búið að fleygja milljónum króna í sjóinn í síld, og ef togararnir hefðu verið á síld í sumar, hefði útkoman orðið enn verri. En búast má við aukningu síldveiðiflotans á næsta sumri. Það er því hagsmunamál allrar þjóðarinnar, að verksmiðjan komist upp. Nú kom okkur auðvitað ekki til hugar, að ég eða þm. Seyðf., sem hafði forystu í því að afla álits þm. um ríkisábyrgð, gætum á nokkurn hátt haft áhrif á atkvæði þeirra, enda kom í ljós, að þm. voru yfirleitt fyrir fram ákveðnir í því, hvaða afstöðu þeir tækju til þessa máls, og svöruðu flestir ákveðið já eða nei. Þm. Seyðf. hefur með starfi sínu í þessu máli unnið allri þjóðinni gagn og þá auðvitað Siglfirðingum fyrst og fremst.

Hv. þm. Barð. telur, að sökum þess að unnið hafi verið að þessu máli á ósæmilegan hátt, eigi að neita Siglfirðingum um þessa ábyrgð. Hann ræddi málið ekki á þeim grundvelli, hvort það væri nauðsynjamál, enda mundi honum ganga illa að sannfæra nokkurn þm. um annað. En ég vil lýsa yfir því hér, að allar aðdróttanir þm. Barð. til þm. Seyðf. eru tilhæfulausar, og þótt hann aðstoðaði Siglfirðinga í lánsútvegunum, þá er það einungis af því, að hann telur þetta nytjamál og er því fylgjandi. Það hefði verið full ástæða til, að forseti hefði vítt framkomu þm. Barð., svo fáheyrð sem hún var. Hann vændi hv. þm. Seyðf. um að hafa selt atkv. sitt og jafnvel annarra þm. fyrir peninga. Ég vil benda á, að sú leið, er hér var farin, — að leita álits þm., — er ekkert einsdæmi. Þess er skemmst að minnast, þegar tvennir 14 þm. ákváðu utan þings uppbæturnar til landbúnaðarins, enda þótt sumir þeirra fengju uppbætur sjálfir, svo að tugum þúsunda skipti. Annars kæri ég mig ekki um að taka hér þátt í deilum á þeim grundvelli, sem þm. Barð. byrjaði á, enda ekki sæmilegt.

Varðandi þær till., sem hér hafa komið fram, þá vil ég þakka undirtektir fjvn. Munurinn á hinum tveim till. er lítill, svo að ég vænti, að það verði þessu máli ekki til falls.

Þá hefur hv. 2. þm. S.-M. flutt brtt., sem er þess efnis, að lántaka í 3. veðrétti verði 3½ millj. í stað 4 milljóna. Til þess að sem minnstar deilur verði um þetta mál og það nái fljótt fram að ganga, vil ég mælast til, að þessi brtt. verði samþ., með því að bæjarstjórn Siglufjarðar telur sig geta útvegað nægilegt fé, þótt þetta sé ekki hærra.

Eins og ég gat um áðan, var þegar byrjað á byggingunni og hægt var í vor, og nú er húsið fokhelt og útivinnu að miklu lokið. Nú hafa verkföll þau, er staðið hafa yfir undanfarið, tafið eitthvað fyrir vélum, en þó má ætla, að öllu verði lokið í tæka tíð, þannig að verksmiðjan geti tekið til starfa á næstu vertíð, ef þessi ríkisábyrgð fæst.