16.10.1944
Sameinað þing: 55. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í D-deild Alþingistíðinda. (5135)

102. mál, síldarverksmiðja Siglufjarðarkaupstaðar

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. — Ég skal ekki blanda mér í þær umr., sem orðið hafa í þessu máli, eða undirbúning þess. En út af brtt. minni á þskj. 385 vil ég segja örfá orð.

Guðmundur Hannesson bæjarfógeti á Siglufirði talaði við mig s. l. sumar og skýrði mér frá því, að það væri ætlun bæjaryfirvaldanna á Siglufirði að byggja upp síldarverksmiðjuna Rauðku, og lagði fram áætlun um kostnað við að byggja upp verksmiðjuna. Hann skýrði mér frá því, að leitað hefði verið fyrir um lántökur í þessu skyni og að það væri ekki hægt, eins og þá stóð á, að afla þeirra lána, sem til þyrfti, án þess að hægt væri að gefa það upp um leið, að ríkisábyrgð væri föl fyrir einhverju af láninu. Hann skýrði mér frá því, að áætlaður endurbyggingarkostnaður væri 4½ millj. kr., og jafnframt, að af þessu fé mundu fást lánaðar heima fyrir 500 þús. kr. frá Sparisjóði Siglufjarðar og bæjarstjórn hefði fengið Rauðku leysta úr veðböndum og hún yrði einnig lögð fram sem áhættufé af hálfu bæjarins, en hún hefur verið metin um 2 millj. kr. virði. En hún var talsvert mikils virði sem grundvöllur að fyrirtækinu.

Ég skýrði honum frá því, að ég teldi eðlilegt, að málið gæti verið framkvæmt, án þess að ríkisábyrgð kæmi til, og eðlilegt væri, að Siglfirðingar legðu það mikið fram til verksmiðjunnar, að lánsstofnanir treystust til að lána á móti það, sem á vantaði, án þess að ríkisábyrgð kæmi til. — Bæjarfógetinn kvaðst fús til þess að gera allt, sem í hans valdi stæði, til þess að þetta gæti orðið, en kvað naumt á um tíma, vegna þess að út væri að renna frestur, sem settur var um tilboð um bygginguna frá firma hér í Reykjavík, svo að ekki væri hægt að fá svigrúm um þessa lausn á málinu. Hann kvað því vera um tvær leiðir að ræða: að hætta við málið eða hitt, að nægilega margir alþm. gæfu kost á að vera með ríkisábyrgð.

Nú hefur það verið mitt hlutskipti fyrir nokkrum árum að setja fótinn fyrir, að þessi verksmiðja væri endurreist, og ég gerði það þá vegna þess, að málið lá þá þannig fyrir, að það var um tvennt að velja, annaðhvort að síldarverksmiðjur landsmanna yrðu stækkaðar með þeim hætti eða ríkisverksmiðjan á Raufarhöfn yrði stækkuð. Þegar nú um þetta tvennt var að velja, þá vildi ég heldur, að ríkið stækkaði sína verksmiðju. En það var ekki vegna þess, að ég væri því mótfallinn, að þessi verksmiðja efldist, frá því sem verið hafði. Nú taldi ég þess vegna eðlilegt að gefa kost á því að styðja þetta mál, þó að einhver ríkisábyrgð komi til. Ég sagði þá sem mína skoðun, og ég er sömu skoðunar enn, að ef Siglfirðingar legðu fram 1—l½ millj. kr. í peningum og svo eignirnar, eins og ráðgert er, þá hefðu lánsstofnanir hér getað lánað líkum fyrirtækjum án þess að hafa ríkisábyrgð. Þetta ætti þá að vera fullkomlega eins tryggt og annað, sem gert er um þessar mundir.

Nú hefur, að því er mér skilst, verið gengið linlegar fram í því að afla þessa fjár en eðlilegt hefði verið, en þó er mér kunnugt um, að byrjað er á að selja skuldabréfalán á Siglufirði, sem á að ganga til þessa fyrirtækis, til viðbótar því, sem Sparisjóður Siglufjarðar hefur lofað að lána. Brtt. mín er miðuð við, að í framkvæmdinni verði þessu hagað þannig í Siglufirði. Þannig verður ekki ábyrgzt 1½ millj., nema sýnt sé, að Siglfirðingar hafi gert allt, sem í þeirra valdi stóð, til þess að afla lána heima fyrir til verksmiðjubyggingarinnar.

Nú hefur verið lögð fram till. um það, að ábyrgjast 1½ millj. kr. á eftir 4½ millj. kr. Ég get ekki skilið, á hverju þessi till. er byggð, og mér virðist óþarfi, að ríkið gangi í svo mikla ábyrgð fyrir þetta fyrirtæki, — það ætti að vera augljóst mál, eins og till. mín er á þskj. 385. Þar geri ég ráð fyrir því, að ríkissjóður ábyrgist 1 millj. kr., sem komi á eftir 3½ millj. kr., en ekki á eftir 4½ millj. kr., eins og hv. flm. gerir ráð fyrir í till. sinni. Þá ætlast ég til, að því næst sé heimilt að bæta við ½ millj. kr., ef kostnaðurinn fer fram úr 5 millj. kr. Ég hugsa mér sem sé, að fyrst komi 3½ millj. kr., svo ½ millj. kr. frá Sparisjóði Siglufjarðar og síðan 1 millj. kr., sem ríkisstj. yrði falið að ábyrgjast, en því aðeins nokkur viðbót, að verksmiðjan fari fram úr 5 millj. kr. fullreist. Till. mín er flutt með þeim skilningi, að ríkið þurfi aldrei að ábyrgjast meira en 1 millj. kr., sem komi á eftir 3½ millj. kr., það er að segja, að á verksmiðjunni hvíli 4½ millj. kr. Rauðka verður lögð fram frá Siglufjarðarkaupstað eins og hún er og ½ millj. kr. frá Sparisjóði Siglufjarðar, og fyrir því, sem á vantar, verði boðin út heima fyrir almenn skuldabréfalán. Ég hef ekki trú á því, að það sé nein veruleg áhætta fyrir ríkið að ábyrgjast þessa einu millj. kr. með þessum hætti. Mér er sagt, að þetta sé heppilegur staður fyrir verksmiðju og aðstaða til rekstrar hennar eins góð og frekast verður á kosið.

Ég vil segja það einnig, að ég teldi mjög heppilegt, ef illa færi fyrir Siglufjarðarbæ og hann gæti ekki staðið í skilum með greiðslur á þessum lánum, að ríkið eignaðist þessa verksmiðju upp í skuldina. Verksmiðjan á að geta tekið 5 þús. mál, og með litlum tilkostnaði mætti stækka hana upp í 10 þús. mál, þannig að ég er ekki hræddur um, að þetta verði svo mjög áhættusamt fyrir ríkið, ef haldið er á þessu máli eins og brtt. mín gerir ráð fyrir.

Ég skal að lokum minnast á, að ég var ekki viðstaddur, þegar hv. þm. Siglf. talaði, en mér hefur verið sagt, að hann og ýmsir aðrir hv. þm. ætli að fallast á þessa brtt.

Það mun þurfa að breyta brtt. þannig, að hún orðist við brtt. á þskj. 337 í stað brtt. á þskj. 345, þ.e.a.s. orðist við nál. meiri hl. fjvn. í stað minni hlutans, og vil ég afhenda forseta till. skriflega með þessari einu breytingu.