16.10.1944
Sameinað þing: 55. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í D-deild Alþingistíðinda. (5138)

102. mál, síldarverksmiðja Siglufjarðarkaupstaðar

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. — Ég hafði ekki ætlað mér að blanda mér í þær umr., sem hér hafa átt sér stað, enda hef ég ekki átt þess kost að fylgjast með þeim öllum. En ég hef þó heyrt þess getið, að hv. þm. Barð. hafi, síðast er þetta mál var til umr., farið allhörðum orðum um þá hv. þm., sem ritað hafa undir loforð um að styðja þá ábyrgð, sem hér um ræðir. Í ræðu sinni áðan ítrekaði og áréttaði svo hv. þm. Barð. þessi ummæli sín á þann hátt, að hann sagði eitthvað á þá leið, að sannað væri, að hv. þm. Seyðf. hefði fengið fé fyrir að útvega atkv. hv. alþm. með þessu máli.

Af því tilefni, að ég er einn þeirra alþm. Sjálfstfl., sem einna fyrstur undirritaði þessa yfirlýsingu, er hér um ræðir, þá vil ég fyrir mitt leyti algerlega mótmæla þeim aðdróttunum, sem í þessu felast. Ég vil mótmæla því og tel það mjög miður farið, að slíkt skuli hafa komið fram og a.m.k. virðingu sjálfs mín stórlega misboðið að því, sem aðdróttuninni er til mín stefnt, með því að því sé haldið fram, að einstakir alþm., í hvaða flokki sem þeir eru, geti verzlað með atkvæði mitt, og hygg ég, að hv. þm. Barð. hafi ekki gert sér ljóst, hvað í orðum hans felst. Ég vil halda því fram, hvað varðar mig persónulega og aðra flokksbræður mína og aðra þá hv. alþm., er ég þekki til og undirritað hafa þetta skjal, að við höfum gert það í þeirri eindregnu sannfæringu, að við styddum rétt mál, og að því fari fjarri, að við höfum verið fé bornir, og enn síður, að við höfum látið aðra menn verzla með atkvæði okkar. Það lýsir furðulitlu áliti þessa hv. þm. á dómgreind okkar og þingmannshæfileikum, ef hann telur, að nöfn okkar séu svo auðfengin til undirskrifta, sem hann vildi með þessu gefa í skyn.

Eins og ég sagði, þá hef ég ekki átt þess kost að fylgjast að öllu leyti með þessum umr. og skal þess vegna ekki blanda mér frekar inn í þær, að öðru leyti en þessu, að mótmæla algerlega þessum ummælum, sem í ræðu hv. þm. Barð. fólust. Og ég harma það mjög, að menn skuli láta slíka aðdróttun sér um munn fara hér á hv. Alþingi. Það er vitað mál, að fjöldi málefna er afgreiddur með svipuðum hætti og þær undirskriftir, sem hér um ræðir. Það er vitað mál, að áður en alþm. skrifa undir slíkt, þá kynna þeir sér það og taka afstöðu með málunum eða móti. Það má að vísu segja, að heppilegra væri, að afgreiðsla mála færi ætíð fram á formlegan hátt á þingi, en ef menn bera ekki meira traust til alþm. en svo, að þeir láti nafn sitt falt fyrir fé til slíkra undirskrifta, þá er líka ekkert því til fyrirstöðu, að hið sama geti átt sér stað við handauppréttingu á þingi eða að menn hreyfi tunguna til þess að segja já í þingsölunum. Ásökun hv. þm. Barð. hefur því enga stoð í raunveruleikanum eða því, sem hér hefur átt sér stað. Er og vitað mál, að jafnvel hinar mestu fjárgreiðslur hafa áður verið skuldbundnar með svipuðum hætti. Er þess skemmst að minnast, að ýmsir hv. alþm. bundust undir það á síðasta ári að styðja margra millj. kr. greiðslur úr ríkissjóði með undirskriftum. Og því verður ekki í móti mælt, þótt þar sé ef til vill ekki um mjög stórar upphæðir að ræða, að sumir þeirra manna áttu þar hagsmuna sjálfra sín að gæta. Verður að hafa það í huga, ef nú á að fara að hefja ofsóknir gegn einstaka alþm. fyrir það, að hann sem alþm. hefur tekið að sér að útvega málinu já-atkvæði, þótt hann e.t.v. sem málflutningsmaður hafi haft einhver önnur skipti af málinu og fengið greiðslu fyrir þau, svo sem tíðkanlegt er. Ef gera á slíkt að sönnun fyrir spillingu hv. alþm. og að þeir selji atkvæði sín fyrir fjárgreiðslur, þá kynnu vissulega fleiri atriði að koma þar til skoðunar, áður en lyki. Og vildi ég þar í allri vinsemd t.d. skjóta því að upphafsmanni þessara umræðna, hv. þm. S.-Þ., að ég veit ekki betur en hann hafi áratugum saman tekið fé úr sjóði samvinnuhreyfingarinnar til þess að vinna henni gagn, m.a. hér í þingsölunum og m.a. með þeim lítt viðurkvæmilega hætti, að hann hefur stórum dregið fram hlut skóla síns, — þess skóla, sem hann hefur lífsuppeldi sitt af að stjórna, — miðað við aðra hliðstæða stofnun hér í landinu. Og það misrétti, sem þar hefur átt sér stað, verður vandskýrt með öðru en því, að þessi skólastjóri hafi notað þingmannsaðstöðu sína til framdráttar stofnun sinni, en niðurdreps annarri stofnun. — Þannig mætti lengi telja, ef hv. þm. vildu fara út í slíkan leik. — Og varðandi minn ágæta vin, hv. þm. Barð., er sannast bezt að segja, að við höfum hér oft, — e.t.v. með misjafnri ánægju, — séð hv. þm. Barð. standa hér upp og heyrt hann þá ræða um einkamálefni sín á þinginu og nota þingmannsaðstöðu sína til þess að verja aðstöðu sína sem einkaatvinnurekanda. — Hér situr til hægri hliðar mér hv. þm. Mýr. Mér kemur það til hugar, að á s.l. sumri var án þingssamþykktar og með samþykki flokkanna ákveðið af hæstv. ríkisstj. að kaupa setuliðsskála af því tilefni, að koma ætti í veg fyrir brask með þessa skála. Ég held, að ég fari með rétt mál í því, að hv. þm. Mýr. hafi fyrir allstóra fjárhæð gerzt kaupandi að þessum setuliðsskálum og þar með gerzt kaupandi að þeim mannvirkjum, sem hann hafði með atkv. sínu og skuldbindingu stutt til þess, að ríkið keypti, í stað þess að þeir yrðu rifnir niður og fluttir á brott. Þannig má lengi telja. — Um sjálfan mig get ég sagt það, að ég hef óhikað hér á þingi notað aðstöðu mína til framdráttar því bæjarfélagi, sem ég hef lífsuppeldi mitt af að standa fyrir og stjórna. Ég held, að við séum þess ekki umkomnir að ætla að fara að krafsa augun hver úr öðrum um, að við misnotum þingmannsaðstöðu okkar til þess að hrinda málum fram hér á þingi í eiginhagsmuna skyni, og það sé bezt að láta orðræður um slíkt falla sem fyrst niður. Það er oft erfitt að greina í sundur eigin hagsmuni og opinbera afstöðu til mála og af hverju menn eru með máli eða á móti. Í stjskr. segir, að þm. eigi að fara eftir samvizku sinni einni. Og ég hygg, að þm. ættu a.m.k. að telja, að allsterk rök í gagnstæða átt þyrftu að vera komin fram, áður en þeir færu að bera hver öðrum á brýn, að það væri annað en samvizkan, sem atkv. þeirra réði. Og allra sízt ætti nokkur hv. þm. að gera svo lítið úr vegi þingsins og meiri hl. hv. þm. að gefa það í skyn, að það væri á valdi nokkurs einstaks þm. að geta verzlað með atkv. þingbræðra sinna.