16.10.1944
Sameinað þing: 55. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í D-deild Alþingistíðinda. (5141)

102. mál, síldarverksmiðja Siglufjarðarkaupstaðar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Mér finnst nú, að ýmislegt hafi skýrzt í þessu máli undir umr., m.a., að það sé ekki þörf á þeirri háu ábyrgð, sem beðið var um í fyrstu, og jafnvel sé engin þörf á ábyrgð fyrir Siglufjarðarkaupstað í þessu sambandi.

En ég vil leiðrétta misskilning, sem kom fram hjá hv. 6. þm. Reykv. og varð þess valdandi, að hann bar á mig þungar sakir. Ef hann hefði hlustað á umr. um þetta mál, þá hefði hann getað sparað sér þá ræðu. — Ég hef ekki haldið því fram, að borið hafi verið fé á neinn þeirra manna, sem undirskrifuðu skuldbindinguna um að vera með í að samþ. þessa ríkisábyrgð hér á hæstv. Alþ., en að ég hefði gert það, var uppistaða ræðu hv. 6. þm. Reykv. Enda var því mótmælt af hv. þm. Seyðf. sjálfum. Hv. þm. S.-Þ. bar á hv. þm. Seyðf., að hann notaði fé til þess að kaupa atkv. þingmanna (JJ: Misskilningur.) Ég hef talað um það, sem viðurkennt er af hv. þm. Seyðf., að hann hafi fengið fé til þess að safna þessum undirskriftum, en ekki, að hann hafi borgað fyrir þær. — En ég vil benda hv. 6. þm. Reykv. á, að það er þýðingarlaust að bera þetta mál saman við undirskriftirnar undir það að borga uppbætur til bænda, og ágreiningur hér á þingi hefur enginn að ráði verið um það. Hv. 6. þm. Reykv. er manna bezt kunnugt um það, að bændur hafa átt kröfu á að fá þetta fé, annaðhvort á þennan hátt eða með hærra verði með venjulegum hætti án niðurgreiðslu úr ríkissjóði, sem þá hefði kostað m.a. Reykjavíkurbæ tugi milljóna kr. Það var því ekki vegna bænda einungis, sem þetta var gert, heldur af því, að það var þjóðhagsleg nauðsyn, og þingheimur var sammála um, að þessu var þann veg farið. Og hv. 6. þm. Reykv. veit, að það mál kemur ekkert við þessu máli, sem hér liggur fyrir.

Hinu vil ég vísa á bug sem óhugsuðu, að ég hafi hér á hæstv. Alþ. rætt einkamál mín, og vildi ég heyra persónulega utan þingfunda, hvaða slík mál hv. þm. á við með því að segja, að ég hafi rætt mál hér á Alþ., sem hafi verið einkamál fyrir mig.