16.10.1944
Sameinað þing: 55. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í D-deild Alþingistíðinda. (5142)

102. mál, síldarverksmiðja Siglufjarðarkaupstaðar

Frsm. 1. minni hl. (Jónas Jónsson):

Það er nú orðið nokkuð langt, síðan þetta mál kom á dagskrá. En það hefur verið mikill ávinningur að því, að málið hefur dregizt, vegna þess m.a., að fjárhagur Siglufjarðar virðist á þeim tíma, sem liðinn er, síðan málið kom fram, hafa batnað að verulegum mun, — og mun sá bær eiga nógu erfitt samt.

Annars vil ég fáort víkja að ræðu hv. þm. Seyðf. Hann gaf hér skýrslu um afskipti sín af þessu máli. Kom þar fram, sem ég hafði sagt í nál. mínu, að hann hefur tekið þetta mál að sér, eftir að Siglfirðingar sjálfir hafa strandað með lántökuna. En honum kemur náttúrlega ekki við forsaga málsins eins og hv. 2. þm. S.-M. Hv. þm. Seyðf. kemur í þessu máli fram aðeins sem hjálparmaður og fær peninga fyrir þá hjálp, sem hann veitir í málinu. Svo lýsir hann yfir skýrt og skilmerkilega, hvernig það fé, sem hann gæti fengið að láni hjá Útvegsbankanum og tryggingastofnuninni, var bundið því skilyrði, að ríkið gengi í ábyrgð. Enda er það staðreynd, og þess vegna hefur hv. þm. komið með það hér, að hv. þm. Seyðf. gat ekki útvegað þetta lán öðruvísi. Niðurstaðan var þessi, að hann komst ekki þá leið, sem hann hafði ætlað sér, leið, sem var þess eðlis, að ef um það hefði verið að ræða, að hann hefði getað farið hana, þá hefði enginn fundið að því, þó að hann hefði fengið 90 þús. kr. fyrir að útvega lánið, samkvæmt siðferðisreglum þeirrar stéttar, sem hann tilheyrir. En niðurstaðan varð, að hann komst ekki þessa leið. Og ef hann hefur ekki áttað sig á því, hve geysilegur munur er á því annars vegar, meðan hann var sem málafærslumaður að leita láns hjá lánsstofnun, og því hins vegar að koma hér fram á Alþ. í sömu lánsleit, þá álít ég, að þessar umr. hér hafi gert gagn, — því að ég treysti því, að málið falli hér.

En þó að svo verði ekki, heldur álíti hv. þm. sig bundna við undirskriftir sínar, — þótt þær hafi vafalaust verið gerðar þannig, að menn hafi ekki áttað sig á því, hvernig málið var undir komið, — þá mun enginn maður fara í þau spor hv. þm. Seyðf., — sem ég þykist vita, að hann vildi fara úr, ef hann gæti, — að vera upp á hlut til þess að afla máli fylgis á þingi, eins og nú hefur verið gert. Ef slíkt hefði gerzt í þingum, þar sem almenningsálitið hefur sterk áhrif, t.d. í Englandi, að maður eða menn hefðu fengið stórfé fyrir framgöngu sína í að afla máli fylgis, þá mundi málið fyrst og fremst falla; svo mundi alþýðan krefjast þess, að sá þm., sem slíkt hefði framið, segði tafarlaust af sér, og ef hann vogaði að bjóða sig oftar fram til þingsetu, mundi hann falla við kosningar og aldrei á þing aftur koma. — En ég álít, samt sem áður, að hv. þm. Seyðf. sé vorkunn. Hann hefur lent inn á þessi síðari spor óviljandi. Engu síður álít ég, að dæmi hans eigi til varnaðar að verða.

Þessi hv. þm. vék að því, sem hann á manna bezt að vita, að hann hefur ekki þurft að fá neina borgaða hjálparmenn til þess að vinna að þessari lánsútvegun með einum eða öðrum hætti. Hitt er svo öllum kunnugt, enda viðurkenndi hann það við mig, þegar hann kom til viðtals við n., að hann fær 90 þús. kr. fyrir þetta mál. Og þegar sveigt var að því, að hann þyrfti að borga 20 þús. kr. af því í kostnað við það verk, tók hann því ekki ólíklega. En eins og ég ræði málið, kemur mér ekki við, hvernig hann fer með þessa peninga. Það, sem ég segi, er það, að orðrómur er um það á Siglufirði, að þessi maður hafi af sínum peningum, sem hann hafi sem málafærslumaður tekið við og á málafærslumannsgrundvelli, borgað til tveggja annarra manna, annars úr Alþfl., en hins úr Framsfl. En það er ekki ástæða til að gera hávaða út af því, því að það kemur engum manni við nema hv. þm. Seyðf., hvað hann gefur eða lætur fyrir vinnu, enda gæti það verið mörg önnur vinna en fram fer í þingsölunum. En ég álít ekki undarlegt, þó að Siglfirðingar reyni að gera sér grein fyrir, hvað verður af þessum 224 þús. kr., sem nú er búið að festa í þessu máli. Þetta er óvenjulegur kostnaður, og hv. þm. Seyðf. hefur játað, að hann fengi 90 þús. kr. af því. Hitt fannst mér rétt að taka fram, — af því að mér fannst það bera vott um eðlilega og rétta sómatilfinningu hjá þingmönnum, einkum þeim, sem standa að sérstakri lánsstofnun, — að ég hef ekki fengið vitneskju um það, að nein lánsstofnun hafi verið fjármunalega tengd þessu fyrirtæki.

Ég vil taka fram, að menn mega ekki verða hissa á því — og sízt hv. 6. þm. Reykv., — þó að það hljótist eitthvað leiðinlegt af máli eins og þessu. Honum hlýtur að vera það ljóst, — því að m.a. hefur hann skrifað merka bók um Alþ., vegna sögulegra rannsókna hlýtur honum að vera það ljóst, að það hefur aldrei komið fyrir fyrr í sögu þingsins, að einn þm. hafi upp á prósentur, ekki minni upphæð en 90 þús. kr., reynt að koma máli fram á Alþ. og það þann veg, að hætta er á, að ábyrgð á því lendi á ríkissjóði. Þegar hv. 6. þm. Reykv. gefur út næstu bók með sögu Alþ., þá geri ég ráð fyrir, að hann taki það fram, að umr. hv. þm. Barð. og mínar um þetta mál hafi orðið til þess, að eftir þetta hafi þótt alveg óhæfilegt, að nokkur hv. þm. væri á prósentuveiðum hér á þessum stað.

Ég sé því ekki annað en það sé réttlátt og eðlilegt að fella þetta mál, eins og ég hef lagt til í nál., því að með því eina móti getur þingið sýnt, að þingmenn hafi, eftir að þeir hafa prófað málið, komizt að þeirri niðurstöðu, að það eigi ekki fram að ganga.

Ég vil svo enn fremur, — þó að aðrir hafi ýtarlega um það rætt, — víkja að því, að það sýnist fullkomin ástæða til að fella þetta mál á fjárhagsgrundvelli, og vil ég í því sambandi sérstaklega víkja máli mínu til hv. 2. þm. S.-M., sem hefur flutt hér brtt., sem er eins og undirskrift hans algerlega í ósamræmi við fyrri afstöðu hans í þessu máli. Ef þessi verksmiðjuaukning á að kosta a.m.k. 8 millj. kr. og kannske meira, og þar sem 4 síldarverksmiðjur eru til í landinu jafnstórar, sem kostuðu ekki nema 2 millj. kr. hver, þá er þetta fyrirtæki fjárhagslega dauðadæmt, því að þetta fyrirtæki hlýtur samkvæmt óhagganlegu lögmáli gjaldþrota að verða gjaldþrota og lenda síðan á ríkinu. Það er því óafsakanleg glópska af hv. þm. að fylgja þessu máli frá því sjónarmiði. Og nú vil ég spyrja hv. 2. þm. S.-M.: Hvað hefur breytzt, síðan hann með miklum dugnaði tók afstöðu með okkur fleirum til að vinna á móti því í byrjun stríðsins, að Rauðka yrði endurbyggð? Þá hefði það þó orðið margfalt ódýrara að byggja upp verksmiðjuna en nú. Þá grundvallaði sá hv. þm. það á sömu röksemd, sem nú er borin fram, þó veikari þá en nú, af því að þá hefði verið ódýrara að byggja verksmiðjuna en nú mundi verða, því að það gerir það fyrst og fremst óaðgengilegt að byggja þessa verksmiðju upp nú, hve það yrði dýrt, því að það er nú svo dýrt að byggja, að engin gróðafyrirtæki og enginn gróðamaður byggir nú verksmiðju. Enginn hreyfir sig í þeim sökum, heldur bíða menn betri tíma. Ég get þess vegna ekki annað en óskað þess, að hv. 2. þm. S.-M. geri grein fyrir þessu gagnvart okkur, sem stóðum með honum í fyrra skiptið, þegar hann vildi ekki, að endurbygging þessarar verksmiðju gengi fram, og í öðru lagi, hvað hann meinar með undirskrift sinni í sumar. Hann telur nú, að málið eigi ekki að koma til þingsins kasta. Hvað meinar hann með því að skrifa undir? Ætlar hann, þó að hann hafi ekki viljað ríkisábyrgð nú, að greiða atkv. með ríkisábyrgð, eftir að sýnt er, hversu óeðlilegt er, að málið gangi fram?

Hv. þm. Borgf. virtist vera nokkuð undrandi yfir þeim mótsögnum, sem kæmu fram viðvíkjandi fjárhagsatriðum þessa máls. Mér finnst hann ætti ekki að tala um það. Hann er sá maður, sem nú hefur setið hér lengst á þ. og ætti að vera ljóst, að í svona máli koma alltaf fram einhver leiðindi því lengur sem um það er rætt, því að það er byggt á óheilbrigðum grundvelli. Þessar mótsagnir eru minni háttar sjúkdómur, en ekki af stærstu tegund.

Þá víkur hv. 6. þm. Reykv. nokkrum orðum að siðferðislegri hlið þessa máls. Hann hlífir sér þó við því að taka fram, að einn af hv. þm. fær 90 þús. krónur, ef hann getur komið fram þessari till., út á atkv. hv. 6. þm. Reykv. Ef þessir menn tækju upp á að segja: Við viljum ekki standa í ábyrgð, — þá fellur þetta allt niður og Siglufjörður mundi ekki fá lán, ef hann fær það ekki út á annað en ríkisábyrgð. Ég hef nú 20 ára þingreynslu að baki og hef aldrei vitað dæmi þess fyrr en nú, að maður hafi gefið atkv. fyrir atkv. Allt, sem einkennir þetta mál, sker sig úr öllum öðrum málum, sem verið hafa til meðferðar á þingi í 100 ár. — Eftir að hv. 6. þm. Reykv. var búinn að hleypa sér í hita í málinu, fór hann að koma með heimspekilegar ályktanir um það, að mjög væri algengt, að ég syndgaði hér með alls konar eigingirni og fjárdrætti. Það var nú samt bersýnilegt, að honum var það ljóst, að þetta var ekki annað en vindhögg, því að hann fór að afsaka sig sjálfur og þóttist ekki sekur. Ég vil víkja að því dæmi, sem hann beindi til mín, ekki af því, að það sé nauðsynlegt, heldur til þess að sýna hv. þm., á hve veikum ísi hann er í þessum efnum. Hann hélt því fram, af því að ég er skólastjóri Samvinnuskólans og hann hefur í mörg ár fengið 5 þús. kr. styrk, að þar sem ég hafi verið hér þm., hafi ég greitt atkv. með þessu. Hefði ég verið með fjárdrátt í þessu skyni. Ég vil benda honum á það, að oft á ýmsum árum þessa tímabils hefði ég auðveldlega og án þess að bíða spillingu getað komið því til leiðar, að skólinn hefði fengið miklu hærri styrk. En ég hef frekar dregið úr því, að það væri gert, og reyndin er, að hann hefur verið miklu minna styrktur en nokkur annar skóli á landinu, og það munar svo miklu, að ef þessi skóli hefði verið ríkisskóli, þá hefði af því hlotizt tvítugfaldur kostnaður á við það, sem verið hefur fyrir minn tilverknað með þessum litla styrk. — Samvinnufélögin, sem hv. þm. minntist á einnig í þessu sambandi, eru nú stærstu fyrirtæki okkar, og á bak við þau er fullur helmingur allra heimila á landinu. Það hefur nákvæmlega enga þýðingu fyrir samvinnufélögin, hvort þau fá þann litla styrk, sem ég hef haft forgöngu um að veita þeim, eða ekki. Það, sem ríkið leggur fram á þennan hátt, hefur engin áhrif á aðstöðu Samvinnuskólans, engin áhrif á aðstöðu mína, og því er það, að röksemdir hv. þm. í þessum efnum eru alveg tilgangslausar nema að því leyti að kasta birtu á þá mestu eigingirni, sem hann er að afsaka, með því að vera svo óheppinn að taka dæmi um mestu óeigingirni, sem hefur komið hér fram.

Ég skil, að hv. 6. þm. Reykv. hefur haldið sína ræðu í svipuðum tilgangi og verkamenn gera samúðarverkfall, til þess að hjálpa þessum flokksbræðrum sínum, sem hafa lent hér í nokkuð miklum vandræðum, og verður að líta á það, að þessar rökvillur, sem hv. þm. lenti í, standa ekki í sambandi við hans góðu greind, heldur stafa af því, að hann hefur verið að reyna að rökstyðja mál, sem ekki verður varið. Ég mun, áður en þessari umr. lýkur, leggja fram rökst. dagskrá um, að málinu verði vísað frá, því að ég álít óviðeigandi að samþ. það.