19.10.1944
Sameinað þing: 58. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í D-deild Alþingistíðinda. (5149)

102. mál, síldarverksmiðja Siglufjarðarkaupstaðar

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. — Ég hef í sjálfu sér ekki mörgu að svara hinni löngu ræðu hv. þm. S.-Þ., því að eins og hæstv. forseti tók fram, var margt af því, sem hv. þm. S.-Þ. sagði, ekki annað en endurtekningar á því, sem áður hefur komið fram í málinu. En þó er það nú svo, að ræða hv. þm. S.-Þ. var, svo sem vænta mátti, lærdómsrík fyrir málið, og — réttilega skoðað í raun og veru algerlega svar við því, sem hann hefur áður haldið fram í málinu.

Hv. þm. S.-Þ. útskýrði það rækilega og fór um það mörgum orðum, hvílíkt glæfrafyrirtæki hann teldi Rauðku á Siglufirði vera. Hann lýsti árangurslausri för bæjarfógetans á Siglufirði hingað með fríðu föruneyti, sem hefði setið hér á háu dagkaupi og verið í góðum fagnaði, en orðið lítt ágengt. — Nú er þess að geta, að þessir erindrekar voru ekki á leið til þingsins eða í erindum við Alþ. um að fá stuðning við mál sitt hér á þingi, heldur voru þeir á leið til lánsstofnana og í þeim erindagerðum að fá lán til fyrirtækis síns hjá þeim. Það er vitað, að hv. þm. S.-Þ. er einn af forráðamönnum stærstu lánsstofnunar hér, Landsbanka Íslands, stofnunar, sem að vissu leyti hefur ráð hinna lánsstofnananna í hendi. sér. Það er þess vegna ekki að furða, þótt það hafi komið á daginn, þegar einn helzti forráðamaður þeirrar stofnunar hafði það álit á fjárgetu þessa fyrirtækis, að það væri glæfrafyrirtæki, að það hafi gengið illa að útvega lán til þess að ráðast í þetta fyrirtæki. Þeir menn, sem mestu réðu í peningamálum landsins, álitu, að fyrirtækið væri þess eðlis, að hæpið væri að veita því lán. Og för Siglfirðinganna í fyrra varð árangurslaus vegna þess, að þessi skoðun hv. þm. S.-Þ. var ráðandi hjá stjórnendum Landsbankans og öðrum þeim, sem þá réðu mestu um fjármál landsins. En ég vil leggja áherzlu á, að þá var ekki leitað neitt til Alþ. um neina fyrirgreiðslu í málinu, því að eins og hv. þm. tók fram, sneru erindrekar Siglufjarðar sér ekki einu sinni til síns eigin þm. hér. — Það, sem gerist svo, þegar þessir menn voru komnir heim úr þeim góða fagnaði, sem hv. þm. S.-Þ. lýsti, að þeir hefðu setið í hér, er, að þeir sneru sér til annars aðila og leituðu aðstoðar hans um lánsútvegun hjá peningastofnunum. Þessi aðili var málflutningsskrifstofa Lárusar Jóhannessonar. Þeirri skrifstofu tekst svo að útvega þetta lán.

Nú segir hv. þm. S.-Þ., að það sé ljótt, jafnvel viðbjóðslegt, að málafærslumenn taki þóknun fyrir að útvega lán. Það er skoðun fyrir sig að halda því fram. Það færi bara betur á því, að hv. þm. S.-Þ. væri samkvæmari sjálfum sér í því efni. Ég man ekki til annars en hann nær einn allra manna hér á landi hafi gerzt opinber málsvari þess, að sendimaður landsins erlendis, hæstv. núv. utanrrh., lifði að verulegu leyti á próvisionum, þegar hann var í erindagerðum í New York. Hv. þm. S.-Þ. taldi, að þetta væri ekki athugavert og það væri venjulegt, að slíkt ætti sér stað. En ef það er viðbjóðslegt og ljótt, að menn fái þóknun fyrir að útvega lán hjá lánsstofnunum, þá er ekki síður athugavert við það, sem hv. þm. S.-Þ. varði svo mjög viðkomandi fyrrv. aðalkonsúlnum í New York. Menn geta rætt um það endalaust, — eins og um ágæti SÍS og annað slíkt, — hvort það yfirleitt sé viðeigandi, að málaflutningsmenn séu til og taki þóknun fyrir störf sín, málaflutning og slíkt. Og það er út af fyrir sig umræðuefni, sem ég skal ekki á neinn hátt gerast talsmaður fyrir hér né verjandi, að lánsstofnun skuli neita fulltrúum bæjarfélags um lán, en frekar láta það í té, þegar málaflutningsmaður kemur til þeirra, sem stofnuninni ráða. Það er líka hægt að hafa sínar skoðanir á því. En hitt liggur fyrir, að það er ekki nema algengt, að málaflutningsmaður taki að sér slíkt starf.

Svo komum við að hinu atriðinu. Ég vil vekja athygli á því, að hv. þm. S.-Þ. er í raun og veru algerlega horfinn frá því í þeim löngu umr., sem hér hafa átt sér stað og hann blandaði í fyrstu saman við hið fyrra atriðið, að þm. urðu til þess að heita fylgi sínu við ábyrgð ríkisins á þessu láni. En þetta kemur auðvitað hinu atriðinu ekkert við, ekki á nokkurn hátt. Afstaða hv. þm. Seyðf. væri því aðeins vítaverð, ef það lægi fyrir, að það fé, sem hann fékk sem málafærslumaður til þess að útvega lán, hefði ráðið úrslitum um það, hvort málið fékk meiri stuðning í þinginu eða ekki.

Þetta var líka hv. þm. S.-Þ. ljóst í fyrstu. Og með leyfi hæstv. forseta vil ég benda á, að hv. þm. S.-Þ. segir á 4. bls. í sínu langa nál.: „Eftir því, sem fram er haldið á Siglufirði, fær Lárus Jóhannesson í umsamin umboðslaun um 90 þús. kr., en mun verða að greiða af því um 20 þús. kr. samtals til tveggja aðstoðarmanna úr Alþýðuflokknum og Framsóknarflokknum.“

Þarna er hv. þm. inni á allt öðru og ekki fyrst og fremst ásökunum gagnvart mínum flokki, heldur gagnvart sínum eigin flokki og Alþfl. um, að menn úr þeim hafi látið kaupa sig til fylgis við málið (JJ: Það er hvergi sagt, að þeir hafi látið kaupa sig.) Og það er ánægjulegt, að hv. þm. S.-Þ. hefur algerlega fallið frá því í umr. um málið að halda þessu fram. Hann gæti sem sagt haft hér uppi harðar ádeilur og hörð ummæli um hv. þm. Seyðf. og stuðningsmenn málsins á þingi, ef hann vildi halda því fram, að hv. þm. Seyðf. væri með málinu sjálfur vegna þess, að hann hefði fengið þetta fé, og hv. þm. Seyðf. hefði fengið aðra hv. þm. með þessu fé til þess að vera með málinu. Þó að hv. þm. S.-Þ. segi það ekki berum orðum í nál., þá felst þetta í því. En þegar ég benti svo á þetta í umr., þá skeður það, — og það þykir mér vænt um, — að hv. þm. S.-Þ. fellur algerlega frá þessu, segist aldrei hafa sagt það, — lætur sem sér hafi aldrei dottið það í hug. Og úr því að hv. þm. S.-Þ. er fallinn frá því, að þetta fé hafi haft þessi áhrif, þá er hér í sjálfu sér ekki mikið um að sakast. Þá er hann kominn að því, að það sé almennt ljótt af málafærslumönnum að taka ómakslaun fyrir störf sín. Það væri þá gott, að hann vildi benda á annað heppilegra form á greiðslum fyrir þjónustu þeirra. Og það væri líka heppilegra, að annar þm. en hann héldi þessu fram, annar þm. en sá, sem gerzt hefur talsmaður fyrir því, að starfsmenn ríkisins erlendis ættu að lifa á slíkum próvisionum, því að hv. þm. S.-Þ. hefur verið einn af stuðningsmönnum ríkisstj., þar sem þessi erindreki hefur verið ráðh. og annar maður en ráðh., er lýsti yfir á sínum tíma, að hann færi því aðeins utan sem erindreki okkar erlendis, að hann mætti jafnhliða starfa fyrir fyrirtæki sitt þar. Og vegna þess, að hv. þm. S.-Þ. hefur gerzt stuðningsmaður þeirra manna, sem svo hafa farið að, þá ætti hann allra sízt að ásaka málafærslumenn fyrir það að taka þóknun fyrir störf sín. Ef hv. þm. S.-Þ. álítur, að hér hafi eitthvað óþinglegt og óviðurkvæmilegt skeð, þá á hann að segja það hreinlega, að hv. þm. Seyðf. hafi mútað einhverjum mönnum í Alþfl. og Framsfl. til þess að vera með málinu. (Forseti: Þetta var aths.) Ég vona, að hæstv. forseti virði mér til vorkunnar, þó að ég hafi talað í 10 mínútur, eftir að hv. þm. S.-Þ. hefur talað í klukkutíma.

Ég þarf ekki á nokkurn hátt að svara ummælum hv. þm. S.-Þ. um Reykjavíkurbæ. Ég get einungis glaðzt yfir því, að hann setur nú ekki metið hærra, sem við eigum að bera okkur saman við, en Samband ísl. samvinnufélaga og fyrirtæki hans. (JJ: Það er nokkuð hátt met.) Ég þykist vita, að Reykvíkingar væru allilla komnir, ef þeir væru ekki betur staddir — og það eftir jafnstórkostlegar greiðslur úr ríkissjóði til þess að halda uppi atvinnu sinni — en þeir landsmenn, sem sérstaklega hafa lifað í skjóli Sambands ísl. samvinnufélaga. Og við skulum þá fyrst tala um yfirvofandi hrun Reykjavíkurbæjar, þegar svo er komið. En að vissu leyti eru horfurnar ískyggilegar í þessu sambandi. En þá fyrst er ástæða til að óttast fyrir alvöru, þegar hagur Reykvíkinga er eins illa kominn og þeirra, sem lifað hafa í skjóli Sambands ísl. samvinnufélaga eftir 20 ára starfsemi þess.

Hv. þm. taldi, að ég hefði ekki mikið vit á því glæfrafyrirtæki, sem hér væri um að ræða, og virti mér það til vorkunnar. Ég get játað, að ég er enginn sérfræðingur í síldarmálefnum, þótt ég hyggi, að ég þekki meira til þeirra málefna en hv. þm. S.-Þ. Hitt er alrangt, sem hann hélt fram, að formaður Sjálfstfl. væri andstæðingur þessa máls. Ég veit ekki betur en hann hafi á sínum tíma veitt leyfi til þessarar starfsemi, Rauðku. Og ég veit ekki betur en að annar forvígismaður Sjálfstfl., hv. 1. þm. Reykv., hafi einnig veitt áframhaldandi leyfi til þessarar starfsemi. Þótt hv. þm. G.-K. hafi af einhverjum ástæðum ekki viljað rita undir þá yfirlýsingu, sem hér um ræðir, er mér ekki kunnugt um, að hann sé andstæðingur þessa máls.

Í sambandi við það, að hv. þm. S.-Þ. vitnaði í, að enginn vildi ráðast í framkvæmdir á þessum tímum, má minna á, að sú ágæta lánsstofnun, sem hv. þm. er einn af ráðamönnum í, Landsbankinn, hefur veitt Reykjavíkurbæ ágætan stuðning til að halda áfram framkvæmdum á þessum miklu dýrtíðartímum, bæði hitaveitu Reykjavíkur og aukningu rafveitunnar, og þótt ég viti, að hitaveitan og Sogsvirkjunin séu hvor tveggja mjög nauðsynlegar, tel ég þó víst, að síldarverksmiðjuiðnaðurinn sé sízt ábataminni rekstur en hitt hvort tveggja, enda er mér kunnugt um það sem starfandi í nýbyggingarsjóðsnefnd, að útgerðarmenn og að ég hygg einnig Kveldúlfur, sem hv. þm. gerði að umtalsefni, hafa verið að stækka verksmiðjur sínar og jafnvel reisa nýjar verksmiðjur á þessum sama tíma.

Það er svo, að þetta fyrirtæki getur orðið áhættusamt svo sem margt annað, sem nú er ráðizt í. Ég held nú samt, að það sé hættumest að sitja auðum höndum, telja kjark úr mönnum til framkvæmda og láta dýrtíðina og aðra erfiðleika, sem steðja að um tíma, standa í vegi fyrir því, að réttmætar aðgerðir, sem nauðsynlegar eru til þess að fólkið í landinu geti fengið lífvænleg kjör, geti átt sér stað. Vil ég ekki fallast á að gerast talsmaður slíkrar helstefnu sjálfur og mun fylgja þeirri till., sem hér liggur fyrir. Og mér þykir leitt, að hv. þm. S.-Þ. skuli troða þann helveg, sem hann nú gengur.