19.10.1944
Sameinað þing: 58. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í D-deild Alþingistíðinda. (5151)

102. mál, síldarverksmiðja Siglufjarðarkaupstaðar

Frsm. 1. minni hl. (Jónas Jónsson):

Herra forseti. — Ég ætla að leiðrétta nokkuð leiðan misskilning hjá hv. 6. þm. Reykv., þar sem hann var með óviðeigandi dylgjur um hæstv. atvmrh., en hann var þá sendimaður vestra.

Þegar hér um ræðir, var landið svo fátækt, — sem ekki er víst, að borgarstjórinn muni, — að ekki var hægt að yfirfæra nauðsynlegustu gjöld þar vestra. Þeir Thor Thors og Vilhjálmur Þór urðu með sínu persónulega lánstrausti að koma því til leiðar, að Ísland gæti yfirfært þær fjárhæðir, sem þurfti. Áður en Vilhjálmur Þór fór vestur, var honum jafnhliða þessu embætti, sem þá var lítið hægt að launa, veitt leyfi til að starfa sem embættismaður, og það gerði hann á þann hátt, að hann gat með því móti unnið fyrir venjulegu kaupi hjá þessu fátæka landi. Þegar svo atvikaðist, að hann varð síðar ræðismaður um eins árs skeið, óskaði stjórnin eftir því, að hann reyndi að vinna fyrir sér við ýmis viðskipti, sem honum var betur trúað til en öðrum. Hvern eyri, sem hann fékk fyrir þetta, lagði hann í konsúlatið, og liggja fyrir því hreinir reikningar. Og það er lærdómsríkt fyrir hv. 6. þm. Reykv., sem er ungur maður, að það hefur ekki komið fyrir nema í þetta eina skipti í sögu landsins, að embættismaður hafi unnið fyrir sér sem ræðismaður og lagt hvern eyri í ríkissjóð. Ég vil ekkert segja illt um þá menn, sem nú starfa fyrir landið erlendis, og þetta er vitanlega engin ræðismannsskylda, en það er enginn, sem hefur leikið þetta eftir. Og mér finnst vægast sagt mjög óheppilegt að bera þessar athafnir hans saman við það atriði, sem hér liggur fyrir. Ég vildi, að það væri sá myndarskapur hjá mönnum okkar erlendis, að þeir ynnu fyrir sér á þennan hátt, en því síður ætti að áfellast þá, sem meiri hafa hæfileikana.

Þá ætla ég á þessum fáu mínútum að leiðrétta annað atriði hjá hv. 6. þm. Reykv. Eftir að ég hef margsannað í þessari umr., að þessi ábyrgð, sem hér er um að ræða, hafi komizt á gang fyrir atbeina manns, sem tekur 90 þús. kr. fyrir það, og hann fær ekki undan því komizt, hvaða ráðum sem hann beitir, hyggst hann að hafa afsannað þetta mál, sem er margsannað atriði. Þessar 90 þús. kr. eru hreyfiaflið, sem hefur sett þetta í gang, og það hefur verið talið heppilegra, að þessi maður væri áhrifamaður og í sama flokki og hv. 6. þm. Reykv.

Ég hef hrundið þeim freku og lítilmótlegu aðdróttunum, sem komu fram í ræðu þessa hv. þm. til stuðnings máli, sem öllum er kunnugt um, að einn af þm. landsins er að reyna að koma í gegnum þingið, ábyrgð, sem er hættuleg, og fær stórfé fyrir þetta. Þeir, sem styðja till. mína, sýna andúð á þessum vinnubrögðum, en hinir, sem kunna að fella hana, sýna ást sína og velþóknun á þessum vinnubrögðum.