03.10.1944
Sameinað þing: 50. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í D-deild Alþingistíðinda. (5169)

146. mál, húsnæði fyrir geðveikt fólk

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Herra forseti. — Ég hef ekki neinu sérstöku við það að bæta, sem ég sagði í gær um þetta mál. En ég vildi benda á það, að í heimildarákvæðum fjárl. í 22. gr. stendur, að heimilað sé ríkisstj. annaðhvort að láta byggja viðbót við geðveikrahælið á Kleppi eða taka húsnæði á leigu. Það er nú það skringilega við þetta, að einmitt á þeim sama tíma, sem þetta viðhorf hefur myndazt, sem hv. þm. Barð. minntist á í ræðu sinni, þá er í fjárlagaheimild ríkisstj. heimilað að láta nú byggja við Klepp. Þetta rakst á. Og vitanlega tóku þetta atriði til athugunar þeir kunnáttumenn, sem fjalla um málið, og það eru þeir yfirlæknirinn á Kleppi og landlæknir. Þeir sáu strax vankanta á þessu. Ef stór skipasmíðastöð verður sett þarna, þá dugir ekki að byggja þar. Og m.a. með þetta á bak við eyrað var horfið frá því að hefjast handa um viðbótarhyggingu á Kleppi, þó að annars hefði það verið hægt. Nú líða þessir mánuðir framan af árinu án þess ákveðið væri, hvað gera skyldi helzt til frambúðar eða þá a.m.k. bráðabirgða. Og eftir allar þessar athuganir hjá kunnáttumönnunum, þá kemst jafnvel geðveikralæknirinn svo að orði, að það hafi engin lausn fengizt á þessu máli. Hvað átti að gera? Átti að gera eitthvað til bráðabirgða eða eitthvað til frambúðar? Og þá kemur hann með þessa till., sem ég minntist á í gær. — Í raun og veru þurfa ekki að vera fyrir hendi neinar ráðaleysisbollaleggingar, þó að ekki sé hægt að ráða til lykta á fáum mánuðum, hvar eigi að reisa hús, sem eiga að kosta milljónir, eða hvar eigi að reka bráðabirgðahæli, sem kostar hlutfallslega ógrynni fjár. Það má vel vera, að ég hefði getað tekið rögg á mig, — eins og hv. þm. Vestm. sagði —, og skorið úr um þetta og sagt: Svona skal það vera, þarna skal setja geðveikrahælið niður, í þessu hverfi þarna. — En þegar svo var, að ég fékk þessar till. í hendurnar 8. sept. s.l. og ég las það í áætlun, sem fylgdi þessari till., að talið var, að dvöl hvers sjúklings mundi þar kosta 36 þús. kr. á ári og þingið var komið saman, þá var það einnig til viðbótar, að líklegt þótti, að seta núv. ríkisstj. mundi ekki verða til neinnar frambúðar. Og þá taldi ég a.m.k. áhættuminnst, og ég vil segja alveg rétt, að kostað yrði ekki til milljónaframlags af mér, sem gat búizt við að vera farinn úr ríkisstj. eftir viku.

En ég vil segja, eins og ég tók fram í gær, að það er gott, að þessi þáltill. er komin fram, því að nú eru allar staðreyndir opnar fyrir hv. fjvn. og fyrir heilbr.- og félmn. Og þingheimur getur nú sagt ríkisstj. að taka rögg á sig. Ég vil heyra, að þingið taki rögg á sig og setji málið á örugga braut, og ég var einmitt að tala um það í gær, að þetta væri sú fasta braut, sem málið er nú loksins komið inn á.