03.10.1944
Sameinað þing: 50. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í D-deild Alþingistíðinda. (5170)

146. mál, húsnæði fyrir geðveikt fólk

Pétur Ottesen:

Herra forseti. — Ég heyri í þessum umr., að til orða hefur komið að vísa þessari þáltill. til fjvn. Mér finnst, eins og þessi þáltill. liggur hér fyrir, að hún eigi ekkert erindi til fjvn. Fjvn. hefur flutt um það till. á síðasta þingi að heimila ríkisstj. að verja fé í þessu skyni. Að þessu leyti hefur fjvn. lýst afstöðu sinni til þessa máls. Nú er í þessari þáltill. farið fram á, að ríkisstj. framkvæmi það, þ.e.a.s. noti þessa heimild, sem hún, eftir því sem fram hefur komið, hefur ekki gert. Mér virðist þess vegna þetta mál liggja þannig fyrir, að í þessu formi sé gersamlega ástæðulaust að vísa þessu máli til fjvn. Ef svo flm. þessarar þáltill., eins og fram hefur komið, er óánægður með það, að ríkisstj. noti ekki þessa heimild, sem mér skilst eftir orðum hæstv. forsrh., að hún hyggist ekki að gera, enda fellur það saman við þá skýrslu, sem ríkisstj. hefur gefið fjvn. um það, hvað hún hafi notað af heimildum 22. gr., þá finnst mér liggja beinast við fyrir hv. flm. þessarar þáltill. og þá aðra, sem vilja nú fá þessu til vegar komið, að byggt sé þarna á Kleppi, að bera fram einmitt í sambandi við afgreiðslu fjárl. till. um það, að fé skuli vera varið til þessara bygginga. Þá er málið komið inn á eðlilegan grundvöll. Og mér skilst það vera sá eðlilegi rekspölur líka, eins og við horfir um þetta nú. — Þessu vil ég skjóta til hv. flm. þessarar þáltill. En að vera að vísa þessari till., eins og hún liggur hér fyrir og eins og þetta mál er í pottinn búið af hálfu fjvn., til fjvn., sé ég ekki, að geti verið til þess að greiða neitt fyrir þessu máli. Hitt virðist mér miklu eðlilegra, þegar málið er borið fram í þessu formi, sem nú er gert, að Alþ. láti ákveðið í ljós vilja sinn um þetta og láti þá af hendi rakna það, sem til þess þarf, að verkinu sé hrundið í framkvæmd, sem sé fjárveitingu til þess að framkvæma þetta með.