03.10.1944
Sameinað þing: 50. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í D-deild Alþingistíðinda. (5171)

146. mál, húsnæði fyrir geðveikt fólk

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. — Ég er að vísu þakklátur hv. form. fjvn. fyrir góð ráð í þessu. En ég skal nú taka það fram, að það var ekki beinlínis mín till. upphaflega, að hv. fjvn. yrði send þessi þáltill. Ég held, að ég hafi heyrt það á hæstv. forsrh., ef ég man rétt, eða einhverja rödd, sem taldi þetta sjálfsagt. En ég sagði þá þegar, að ég ætlaði ekki að gera deilur út úr því. Svo hefur verið talað um að vísa þessu máli til n., sem ekki er til í sameinuðu þingi, nefnilega heilbr.- og félmn. Það eru deildanefndir.

Ef maður athugar eðli málsins, þá er það þetta: Hér er verið að skora á ríkisstj. að framkvæma það, sem fjvn. er búin að leyfa, að stjórnin framkvæmi. (PO: Sem Alþ. er búið að leyfa.) Já, eftir till. hv. fjvn. er Alþ. búið að leyfa ríkisstj. að framkvæma þetta. Og ég get í sjálfu sér ekki tekið það upp á öðrum grundvelli. Ég hef engin bréf í höndum um það sem flm. þessarar till., hvort rétt sé að byggja á Kleppi eða hjá Hafravatni eða hvort rétt sé að gera einhverjar sérstakar aðrar ráðstafanir heldur en þetta. En hitt veit ég, að það verður eitthvað að gera, til þess að leysa þessi vandræði. Ef á að skilja afstöðu ríkisstj. þannig, að hún vilji ekkert með málið hafa, þá virðist mér ekki um annað að ræða en annaðhvort að samþ. till. áframhaldandi til fjvn. eða þá senda hana til allshn., sem vafalaust getur um hana fjallað. En mér virðist það rétt hjá hv. form. fjvn., að fjvn. sem slík er búin að segja sitt orð í málinu með því að flytja till. í málinu áður. Hér er að ræða um heimild, sem þingið hefur veitt ríkisstj. til framkvæmdar, sem ríkisstj. hefur ekki séð sér fært að nota enn þá. En mér virðist eðlilegast, að samþ. þessarar þáltill., sem ég tel sjálfsagt að samþ., mundi vera áherzla á það við hæstv. ríkisstj., hver sem hún verður, að koma þessu máli í höfn. Og eftir að hafa heyrt álit hv. form fjvn., leyfi ég mér að gera það að till. minni, að málinu verði vísað til allshn. — En ekkert fyrirheit er gefið um það, að málið verði látið falla niður, þótt sú hv. n. geri ekkert við það.