24.11.1944
Sameinað þing: 67. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í D-deild Alþingistíðinda. (5182)

146. mál, húsnæði fyrir geðveikt fólk

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Út af ummælum hv. 6. þm. Reykv. þykir mér rétt að benda á, að það er ekki nauðsynlegt, þó að menn tali um geðveikramál, að tala eins og geðbilaðir menn, en öll hans ræða benti á, að eitthvað væri athugavert við sálarástand hans þá stund, sem hann var að tala um þetta.

Hv. þm. var með þungar ásakanir á allshn. fyrir, að hún hefði gefizt upp við að leysa þetta mál, en samt sem áður óskar hann eftir, að þessi n., sem svo óskaplega illa hefur tekizt til með málið, fái það til meðferðar á ný. Ég vil benda þessum hv. þm. og öðrum á það, að í aðaltill. á þskj. 365 er verið að skora á stj. að láta nú þegar koma til framkvæmda heimild í 33. lið 22. gr. fjárl. fyrir árið 1944. Ég geri ráð fyrir, að ef allshn. hefði ekkert annað gert en að gefa út nál., þar sem hún hefði einróma lagt til, að þessi þáltill. væri samþ., þá hefði hvorki hv. 6. þm. Reykv. né aðrir hv. þm. kastað neinum hnútum að n. fyrir að hafa gefizt upp við málið. En allshn. gerði annað og meira en þetta. Hún rannsakaði, hvort unnt væri fyrir núv. stj. að láta þessa till. koma til framkvæmda, ef hún væri samþ., og hvort það mundi bæta úr málinu að fullu. Hún komst að þeirri niðurstöðu, að það væri engan veginn nægilegt að samþ. till. eins og hún var upphaflega borin fram. Þess vegna gerir n. þá breyt., að hún leggur til að fela stj. einnig að hefja undirbúning undir framtíðarlausn þessa máls. Þingið hefur forsómað allan þennan tíma, eins og hv. flm. minntist á, að leysa þessa skyldu af hendi. N. vildi láta það koma sérstaklega fram í sinni till., að grundvallarnauðsyn væri að fá eitthvert skipulag á þessi mál fyrir framtíðina, þannig að ekki yrði lengur sama ófremdarástandið og lýsti sér í umsögn yfirlæknisins á Kleppi, að þar hefði verið a.m.k. síðustu tíu árin, sem hann sagðist aldrei hafa treyst sér til að tilkynna Alþ. En n. gerði meira en þetta. Hún lagði einnig til, að það væri skorað á stj. að gera nú þegar nauðsynlegar ráðstafanir til bráðabirgða til að bæta úr brýnustu húsnæðisvandræðunum. Ég veit ekki, hvað hv. 6. þm. Reykv. meinar, þegar hann heldur fram, að þrátt fyrir þetta hafi n. gefizt upp á málinu. Það getur þó aldrei verið hlutverk þingn. að gera sérstakar ráðstafanir. Það er það, sem hæstv. stj. ber að gera í málinu. N. var aðeins að dæma um, hvort þætti tiltækilegt, rétt eða eðlilegt að skora á stj. að hrinda þessu máli í framkvæmd, en ekki að útvega húsnæði úti í bæ, eins og mér heyrðist helzt á hv. 6. þm. Reykv., að hann teldi, að n. bæri skylda til að gera. N. vill ekki leggja til, að tekinn verði til þessara nota neinn hluti af nýja sjómannaskólanum, en bendir aðeins á hæstv. dómsmrh. til leiðbeiningar, að þetta hafi komið til umr. og lækninum á Kleppi hafi litizt vel á þetta húsnæði. En þegar um það er komin sérstök brtt. frá hv. þm. S.-Þ., þá vil ég fara um hana nokkrum orðum og benda á, að ef Alþ. telur, að málinu sé á einhvern hátt betur borgið með því að samþ., að hæstv. stj. skuli taka eitthvert ákveðið húsnæði hér í bæ, þá koma sannarlega til greina fleiri staðir en sá hluti sjómannaskólans, sem hér er um að ræða, m.a. hvort ekki væri ástæða til að taka einhvern hluta af þjóðleikhúsinu. Ég hygg, að þar muni vera herbergi, sem eru komin lengra á veg, til að hægt sé að nota þau til mannaíbúðar, hvort sem er fyrir sjúka menn eða heilbrigða, heldur en þessi hluti sjómannaskólans er. Einnig mætti þá athuga, hvort ekki væri unnt að fá gamla stúdentagarðinn; hann er nú rekinn sem spítali. Getur vel verið, að hæstv. dómsmrh. takist að fá hann rýmdan, svo að þangað væri nú hægt að flytja sjúklinga, ef ekki þá bandóðu menn, sem þarf nú að sjá fyrir húsnæði og eru nú hér og þar úti um landsbyggðina, þá eitthvað af þeim taugaveikluðu sjúklingum, sem nú eru á Kleppi og hv. 6. þm. Reykv. sagði, að væri glæpur að hreyfa þaðan burt, fyrr en þeim væri fullbatnað, hvernig sem væri líðan þeirra manna, sem eru úti á landinu. Það má einnig benda á, að hér í bænum er hús, sem heitir hegningarhús. Getur vel verið, að hægt væri að koma þar fyrir sjúklingum, sem hvergi er hægt að stunda nema í Reykjavík. Ég vil aðeins skýra frá þessu, af því að hæstv. heilbrmrh. er viðstaddur, til þess að hann geti látið rannsaka þessi mál, án þess að ég geri það að minni till.

Út af brtt. á þskj. 535 um að reisa á Akureyri sjúkrahús fyrir 50 menn vil ég taka fram, að það kom ekki til umr. í n., hvort reisa ætti slíkt sjúkrahús á Akureyri, heldur hvort rétt væri að dreifa þessum byggingum út um land. N. bar ekki skylda til að rannsaka það mál, enda var ekki þess að vænta, að hún hefði svo mikla þekkingu á málinu, að hún væri fær um að segja, hvort það skyldi gert eða ekki. Það þurfti miklu frekari rannsóknar við. Þess vegna m.a. lagði n. til, að þessi mál væru rannsökuð, og taldi á þessu stigi enga ástæðu til annars en að bera fullt traust til hæstv. ráðh., að hann léti rannsaka þetta eins fljótt og unnt væri og velja til þess þá menn, sem hann teldi í samráði við landlækni heppilegasta til að finna örugga lausn í málinu. Ég skal um leið geta þess, að yfirlæknirinn á Kleppi hélt fast fram í n., að það væri ekki einasta miklu dýrara að byggja mörg slík sjúkrahús og dreifa þeim um landið, því að reynslan sýndi, að það væri miklu ódýrara að reka eitt stórt sjúkrahús heldur en að hafa þau mörg og smá, heldur lagði hann einnig mikla áherzlu á, að ógerningur væri af öðrum ástæðum að gera það, því að það þyrfti að sjá þessum sjúklingum fyrir læknum, sem hefðu sérþekkingu á þessum sjúkdómum, og taldi hann, að þeir væru ekki mjög margir hér á landi, sem hefðu það. Hann taldi óverjandi að láta almenna og venjulega héraðslækna stunda þessa sjúklinga, og hann tók svo djúpt í árinni, að hann áleit, svo að ég noti hans eigin orð, eins gott að láta járnsmiði gæta þeirra og hjúkra þeim eins og venjulega héraðslækna. Ég dæmi ekki um þetta; ég segi aðeins frá, hvernig á þetta var litið frá hans sjónarmiði.

Af þessum ástæðum var það, að n. taldi nauðsynlegt, að þetta mál væri undirbúið af mönnum með meiri þekkingu en allshn. gat haft. Væri þá ekkert á móti því, að hæstv. félmrh. í náð sinni skipaði hv. 6. þm. Reykv. í slíka n., ef hann býr yfir meiri þekkingu í þessu máli en þm. almennt. Tekur hann það vonandi til alvarlegrar athugunar, þegar hann á að ráða fram úr þessu máli.

N. vildi ekki leggja til, að keyptir væru eða leigðir neinir braggar hér í bænum til þessara nota, af því að húsameistari ríkisins og landlæknir gáfu n. þær upplýsingar, að það yrði svo kostnaðarsamt að útbúa þessi hreysi, að það mundi nema miklu meira en þó að byggt væri nýtt sjúkrahús, og sama væri að segja um það húsnæði, sem komið hefði til mála að nota uppi við Hafravatn. N. gerði sér það ómak að skoða þetta húsnæði til þess að geta rætt um það á fundi. Vil ég benda á, og er það til upplýsingar fyrir hæstv. ráðh., að yfirlæknirinn á Kleppi taldi, að það væri ef til vill eina lausnin á því að geta aukið hjúkrunarliðið, að sú krafa væri gerð til hvers, sem sendi sjúkling á spítalann, að hann léti fylgja honum starfsstúlku, sem þar yrði að starfa í sex mánuði. Hefur hann gert það að ófrávíkjanlegri kröfu um alla nýja sjúklinga. Í sumum tilfellum hefur það borið árangur, og hefur þannig tekizt að fá starfskrafta. En ef slíkt skilyrði er sett um nýja sjúklinga, þá á engu síður að vera hægt að setja slíkt skilyrði aðstandendum þeirra, sem hafa átt sjúklinga á spítalanum, því að vitanlega eiga sömu skilyrði að vera fyrir alla þegna landsins. Ef þetta er hægt, þá er miklu fremur hægt að greiða úr hinu atriðinu, sem sé húsnæðisleysinu. Yfirlæknirinn á Kleppi hefur gert þetta skilyrði fyrir sjúklinga, sem ég persónulega þekki til, og eru nú viðkomandi hreppsfélög að leysa málið á þeim grundvelli, svo að sjúklingarnir geti fengið sjúkrahúsvist.

Mér fannst hæstv. ráðh. heldur halla á n. fyrir að hafa ekki viljað leggja til meira „pósitívt“ en hún gerir í till. sínum. En ég sé ekki, að það hefði leyst þetta mál, þó að allshn. hefði lagt til að hækka laun hjúkrunarkvenna til að fá þær á Klepp frá öðrum sjúkrahúsum, sem yrði þá kannske til þess, að starfsfólk vantaði þar, og hefðu þau sjúkrahús þá kannske ekki önnur úrræði en að hækka launin hjá sér til að fá stúlkurnar aftur frá Kleppi. Þetta á n. við, þegar hún segist ekki vilja stofna til kapphlaups um stúlkurnar. En ég vil einnig benda á, að það hefur aldrei staðið á þessu atriði. Síðasta þing gaf hæstv. fyrrv. stj. fulla heimild til þess að reka viðbótarhæli við Klepp, jafnvel að reisa til þess nýtt hús og bera kostnað af rekstrinum. Allshn. hefur einnig lagt til í sínum till., að ríkisstj. geri allt, sem unnt er, til að leysa úr þessum vandræðum og hefur raunverulega ekki takmarkað það við neina fjárhæð. N. er svo vel ljós hin mikla þörf á að bæta úr þessu, að hún vildi ekki undir neinum kringumstæðum draga úr þeim áskorunum, sem um það hafa komið fram, heldur miklu fremur bæta við það. Þess vegna þótti mér undarlegt, þegar hv. 6. þm. Reykv. var í sinni geðbiluðu ræðu að taka undir það, að n. hefði ekki gert fulla skyldu sína í þessu máli. Hann sagðist vita um sjúkling, sem rammefldir karlmenn hefðu ekki ráðið við á daginn og yrði að sitja yfir um nætur. N. er ljóst, að það eru fleiri sjúklingar en þessi, sem sýna ljóslega, að málið er mjög aðkallandi, og álítur hún, að till., eins og hún vill ganga frá henni, bjargi málinu bezt, en vel getur verið, að hv. flm. telji hana betri eins og hún var borin fram á frumstigi. Sé þingið á þeirri skoðun, að málinu sé betur borgið með því að samþ. frumtill., þá sé ég ekkert á móti því, en ég tel samt, að málið sé fært í betra horf með því að afgr. það eins og n. leggur til. Hitt er ekki n. sök, þó að hv. flm. komist nú að þeirri niðurstöðu, að hann hefði átt að orða till. öðruvísi en hann orðaði hana og öðruvísi en n., en honum er þá innan handar að koma með brtt., ef honum sýnist svo.