30.11.1944
Sameinað þing: 68. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í D-deild Alþingistíðinda. (5188)

146. mál, húsnæði fyrir geðveikt fólk

Jónas Jónsson:

Eftir ræðu hæstv. dómsmrh., þar sem hann fór fram á það, að ég tæki aftur annan eða báða liði minnar till., þar sem hann mundi taka til greina efnislega það, sem um væri að ræða í till., tók ég aftur þann lið, sem laut að úrræðum fyrir bæinn og hreyft hefur verið af einum hv. þm. hér í d. áður en ég benti á það, og skal ég ekki fara frekari orðum um það. Aftur á móti sé ég ekki ástæðu til að taka aftur hina till., um byggingu fyrir geðveikt fólk á Akureyri. Þessi mál liggja nokkuð ljóst fyrir. Kleppur, gamli og nýi spítalinn, rúmar 1/3 af því fólki, sem þyrfti hælisvist. Það er hins vegar sennilegt, að Kleppur verði ekki notaður á þeim stað, sem hann er, sökum skipasmíðavinnu þar, og liggur því fyrir að byggja spítala hér á landi fyrir miklu hærri tölu sjúklinga heldur en Kleppur rúmar nú. Það er satt bezt að segja, að það hefur legið fyrir að reisa byggingar á Kleppi í mörg ár, en það hefur verið vanrækt af heilbrigðisstjórninni. Þegar lokið var við byggingu Klepps, og ég hafði afskipti af því, var eftir að byggja aðra álmuna að norðan, nýja Klepp, og var það þá þegar nauðsynlegt, en hefur alltaf verið vanrækt, og sýnir það hversu lítið málinu hefur verið sinnt af heilbrigðisstjórnum landsins. En þar sem nú hins vegar hefur ekki verið bætt við nýrri byggingu á Kleppi og þar sem ekki mun enn þá vera búið að tilnefna stað í landinu, sem væri sérstaklega heppilegur í þessum efnum, og vitað er, að Kleppur verður fluttur og reistur væntanlega ekki langt frá höfuðstaðnum, þá sýnist mér óhætt fyrir Alþ. að slá því föstu, að partur af geðveikrahæli landsins væri á Akureyri. Þar er út úr neyð byrjað að byggja hæli, sem er fullkomin þörf á vegna neyðarástands í þessum efnum, eins og hér í Reykjavík. Það hefur verið reynt að taka við geðveikum mönnum í kjallarann undir spítalanum á Kleppi, og er ekki ósennilegt, að þaðan heyrist háreysti upp um gólfið, sem er úr timbri, til þeirra sjúklinga, sem uppi eru. Ég nefni þetta sem dæmi um það, hversu menn hafa reynt ófærar leiðir til þess að ráða fram úr þessu. Nú er það engan veginn skynsamlegt að byggja eitt hæli fyrir 600 sjúklinga, heldur væri skynsamlegra að byggja hæli á tveim stöðum. Á Akureyri eru nú búsettir mjög margir læknar, og er auðséð, að þar hefur myndazt önnur miðstöð læknastarfseminnar í landinu, eins og í Reykjavík, sem eðlilegt er, þar sem bærinn er stór og liggur í miðjum fjölmennum fjórðungi. Það er þess vegna skoðun mín, að óhætt sé fyrir Alþ. samþ. að láta byggja slíka byggingu sem þessa á Akureyri. Ég held, að upphæðin til þessarar byggingar ætti ekki að vera lægri en 100 þús. kr. Ég held, að það verði nógu erfitt fyrir heilbrigðisstjórnina að ráða fram úr þessum málum hér í Reykjavík, þó að þessi tillaga verði samþykkt.