02.03.1945
Efri deild: 140. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1966 í B-deild Alþingistíðinda. (5193)

254. mál, fasteignamat

Gísli Jónsson:

Ég get ekki fallizt á þau rök. sem hv. 1. þm. Reykv. bar fram. Ég hef ekki kynnt mér, hvort allir hafa verið viðstaddir í Nd. eða hvernig sú atkvgr. var. Ég trúi því ekki, ef d. lætur málið fara þannig frá sér. að hún hefur breytt því til réttlátara horfs, að það stefni frv. í hættu, ég trúi ekki, að Sþ. gangi á móti því. Ég veit, að það eru möguleikar til að bera fram brtt. við það á næsta þingi, og það mun ég gera, ef brtt. mín verður ekki samþ. nú. því að það er algerlega rangt að fara inn á þessa stefnu, því að eins og ég gat um, þá er sífellt verið að rýra möguleika sveitarsjóðanna til tekjuöflunar og jafnframt verið að leggja á þá aukabyrðar, sem þeir engan veginn að eðlilegum hætti eiga að bera, og þó að hv. þm. talaði um hin breiðu bök, þá vil ég minna á það, að Reykjavík hefur ekkert breiðara bak en sveitirnar, og þeir tímar geta aftur komið, að þar verði gengið inn í merg og blóð þegnanna til að standa undir nauðsynlegum útgjöldum.

Ég þekki ákaflega vel þá óskaplegu erfiðleika, sem margir sveitarsjóðir eiga við að stríða, ekki sízt vegna þess, að margt vinnufærra manna þaðan stundar atvinnu annars staðar og greiðir þar útsvar, t.d. í Reykjavík, sem fær þá langsamlega mest af tekjum sveitarsjóðanna, en aðrir staðir eru öllu sviptir.