24.11.1944
Sameinað þing: 67. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í D-deild Alþingistíðinda. (5199)

186. mál, alþjóðlega vinnumálasambandið

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson):

Ég get að mestu leyti látið nægja að vísa til þeirrar ýtarlegu grg., sem till. fylgir. Alþjóðlega vinnumálastofnunin var stofnuð um líkt leyti og þjóðabandalagið og í rauninni þáttur úr því, þó óháð í störfum. Og þegar það hætti starfsemi, fluttist skrifstofan til Canada og heldur þar áfram störfum. Þing heldur hún á tveggja ára fresti, og var hið síðasta háð í Philadelphíu á s.l. vori 20/4–12/5. Þar átti 41 ríki fulltrúa, en fyrir stríð voru mest 55 ríki þátttakendur. Sum þeirra, svo sem baltisku löndin, eru ekki lengur sjálfstæð. Búlgaría, Finnland og Ungverjaland voru nú forfölluð frá þátttöku, og Rússland var farið, því að það var rekið úr þjóðabandalaginu fyrir árás sína á Finnland 1939. Ítalía og Spánn höfðu og gengið úr, en Bandaríkin gerzt þátttakendur í staðinn, síðan 1934. Á þinginu í Philadelphíu var talið, að stofnunin mundi eftir stríð gegna hliðstæðu hlutverki við UNRA og fleiri alþjóðasamtök, sem að endurreisn vinna. Og hvað sem verður um alþjóðasamtök í framtíðinni, taldi fulltrúi Íslendinga, sem boðinn var gestur á þingið, Þórhallur Ásgeirsson, að mikið væri undir því komið, að Íslendingar þægju það boð að ganga í þessi samtök með fullum réttindum til að gæta þar hagsmuna sinna, og hefði stofnunin fengið tryggð mikil ítök og áhrif í framtíðinni.

Þannig er fulltrúavali háttað, að tveir fulltrúar mæta af hálfu hverrar ríkisstj., en að auki eru einn maður frá hverju landi sem fulltrúi verkamanna og annar af hálfu atvinnurekenda. Hver fulltrúi hefur atkvæðisrétt, og þarf 2/3 atkv. til þess, að samþykkt öðlist gildi. Gera má því ráð fyrir, að samþykktir þinga þessara séu eingöngu um samkomulagsatriði, sem litlar deilur vekja. Á þinginu í Philadelphíu var samþ. yfirlýsing um mannréttindi og ber nafn eftir borginni. Þar segir m.a. og er grundvallaratriði, að vinnan sé ekki verzlunarvara, sem fylgja eigi lögmáli framboðs og eftirspurnar. Kosningafrelsi, skoðanafrelsi og samtakafrelsi er þar talið óhjákvæmilegt skilyrði öruggra framfara. „Fátækt á einum stað er hætta fyrir velgengni annarra staða“, segir í yfirlýsingunni, „og stríð gegn skorti verður að heyja hjá hverri þjóð með stöðugum og sameiginlegum átökum allra þjóða á þeim samkomulagsgrundvelli, sem alþjóðavinnumálasambandið byggist á“.

Í öðrum kafla yfirlýsingarinnar er áherzla lögð á félagslegt réttlæti. Þar segir:

„a) Allir menn, án tillits til kynflokka, trúarbragða eða kynferðis, eiga rétt á því að leita bæði efnalegrar velferðar sinnar og andlegs þroska í frjálsum og sómasamlegum lífskjörum, fjárhagslegu öryggi og jafnrétti til að fá að njóta þeirra hæfileika, sem hver og einn hefur til að bera.

b) Sköpun þeirra skilyrða, sem gera þetta mögulegt, skal vera höfuðmarkmið innanlands- og alþjóðastjórnmála.

c) Alla innanlands- og alþjóðastjórnmálaviðleitni og framkvæmdir, einkum hagfræðilegs og fjármálalegs eðlis, skal dæma út frá þessu og því aðeins láta koma til framkvæmda, að talizt geti til eflingar, en ekki hindrunar því, að náð verði þessu höfuðmarkmiði.

d) Það er skylda hins alþjóðlega vinnumálasambands að rannsaka og íhuga allt það, sem fram kemur í alþjóðlegum hagfræði- og fjármálastefnum og ráðstöfunum, með hliðsjón af þessu höfuðmarkmiði.

e) Í framkvæmd þeirra starfa, sem hinu alþjóðlega vinnumálasambandi eru falin, er því heimilt að undangenginni rannsókn á öllum hagfræðilegum og fjármálalegum atriðum, sem um er að ræða, að taka upp í ákvarðanir sínar og tillögur hver þau ákvæði, sem það álítur réttmætt.“

Í næsta kafla yfirlýsingarinnar er rætt um atvinnumál og talin skylda stofnunarinnar að stuðla að því, að stefnt verði að eftirtöldum hlutum:

„a) Nægri atvinnu og bættum lífskjörum.

b) Að verkamenn fái atvinnu í þeim starfsgreinum, þar sem þeir geta notið þeirrar ánægju að láta í té í sem ríkustum mæli hæfileika sína og fagkunnáttu og lagt sem stærstan skerf til almennrar velferðar.

c) Að til þess að ná þessu marki með fullkominni tryggingu fyrir alla, sem hlut eiga að máli, sé mönnum gert kleift að afla sér fræðslu og þjálfunar, og enn fremur, að flytja megi menn á milli atvinnugreina og til annarra staða til að stunda þar atvinnu eða setjast að.

d) Að setja reglur um laun og tekjur, vinnudag og önnur vinnuskilyrði, sem miði að því að tryggja öllum réttmætan hluta af arði framleiðslunnar og lágmarkslaun öllum, sem vinna og eru verndar þurfi í þessum efnum.

e) Að viðurkenndur sé í verkinu réttur manna til sameiginlegra samningsumleitana, samvinna vinnustjórnenda og verkalýðs til áframhaldandi umbóta á framleiðsluafköstum og samvinna verkamanna og vinnuveitenda í því að undirbúa og beita félagslegum og hagfræðilegum ráðstöfunum.

f) Efling félagslegra öryggisráðstafana í því skyni að tryggja grundvallartekjur öllum, sem eru verndar þurfi í því efni, svo og allsherjar sjúkraumsjá.

g) Fullnægjandi vernd á lífi og heilsu verkamanna í öllum atvinnugreinum.

h) Barnavernd og mæðrahjálp.

i) Að tryggja mönnum gott viðurværi, húsnæði og möguleika til hvíldar og menntunar.

j) Að tryggja mönnum jafnrétti til að fá að njóta menntunar og atvinnumöguleika.“

Í síðari köflum yfirlýsingarinnar ræðir um það, að framkvæmdir verði að fara eftir því hjá hverri þjóð um sig, sem henni hentar og á við þróunarstig þar í landi. Og „vitandi vits, að fyllri hagnýting á auðlindum heimsins til þess að ná þeim markmiðum, sem greinir í þessari yfirlýsingu, er hægt að tryggja með virkum aðgerðum á innanlands- og alþjóðavettvangi, þar á meðal ráðstöfunum til þess að auka framleiðslu og neyzlu, til að forða miklum fjárhagssveiflum, til að efla fjárhagslegar og félagslegar framfarir í þeim hlutum veraldarinnar, þar sem hagnýting auðlinda er skammt á veg komin, til að tryggja meiri festu í markaðsverði helztu nauðsynja og til að stuðla að víðtækari og öruggari heimsverzlun, heitir þingið fullri samvinnu hins alþjóðlega vinnumálasambands við þau alþjóðasamtök, sem hægt er að trúa fyrir ábyrgðarhluta í þessu mikla starfi til eflingar heilbrigði, menntunar og vellíðunar allra þjóða.“

Um þessa yfirlýsingu mælti Roosevelt forseti í ávarpi til fulltrúa ráðstefnunnar 17. maí s.l.: „Þér hafið haldið þing í Philadelphíu, þar sem feður þessa lýðveldis staðfestu fyrir 169 árum, að augljós væru m.a. þau sannindi, að öllum mönnum væru af skaparanum gefin ákveðin óafsalanleg réttindi, svo sem líf, frelsi og leit að hamingjunni. Í þessum orðum felst markmið allra þjóða, sem gæddar eru hugsjónum frelsis og lýðræðis.

Yfirlýsing sú, sem þér hafið gefið í Philadelphíu, á vafalaust eftir að verða álíka mikilvæg, og ég trúi því einlæglega, að óbornar aldir muni líta um öxl á þennan atburð og telja, að hann marki tímamót í sögu mannsandans.“

Nú hefur ríkisstj. í málefnasamningi sínum sagt frá því sem fastráðnum hlut, að samþ. verði á Alþingi, að Ísland gerist nú þegar þátttakandi í International Labour Office eða þeirri stofnun, er við hennar störfum kunni að taka. Með þeim röksemdum, sem ég hef vikið að eða nefndar eru í grg., leyfi ég mér að leggja til, að till. verði vísað til síðari umr. og fjvn.

Kostnaður af þátttökunni mun verða 2–3 þús. dollara á ári auk kostnaðar við sending fulltrúa á ráðstefnur eða þing annað hvert ár. Rétt er að benda á það, sem grg. skýrir frá, að upptök málsins voru þau, að samþ. var 15. okt. 1943 þál., flutt af 4. þm. Reykv., um að ríkisstj. íhugaði þátttöku í þessari stofnun. Síðan var Íslandi boðin þátttaka í þinginu í Philadelphíu og boðið þegið. Fulltrúi landsins þar, Þórhallur Ásgeirsson sendiráðsritari, hefur sent ríkisstj. greinagóða skýrslu um störf þingsins og getið helztu starfa vinnumálasambandsins á liðnum árum. Hvetur hann af þeim rökum eindregið til þátttöku og skýrir frá því, að raddir á þinginu hafi talið mjög æskilegt, að Ísland stæði eigi utan við þessi alþjóðasamtök. Augljóst er, að gagn Íslendinga getur orðið margvíslegt, og er ekkert áhorfsmál, að þetta ber að samþykkja.