06.12.1944
Sameinað þing: 71. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í D-deild Alþingistíðinda. (5237)

197. mál, hitaveita

Flm. (Jónas Jónsson):

Ég hef leyft mér að óska eftir, að Alþingi legði fyrir ríkisstj. að láta gera verkfræðilega rannsókn á því, hve mikið mundi kosta, að koma á hitaleiðslu frá Uxahver til Húsavíkur. Í grg. eru aðalatriði málsins skýrð. Í Uxahver eða hverunum þar er ákaflega mikið af sjóðheitu vatni, eflaust meira en ¼ þess, sem Reykjavík notar. Ég geri ráð fyrir, að það mundi reynast tiltölulega ódýrt að koma upp hitaleiðslu þessari. Ekki þarf að bora eftir vatninu. Það mundi geta verið sjálfrennandi niður eftir Reykjahverfi og þyrfti ekki dælur eins og á Reykjum í Mosfellssveit. Ekki þyrfti heldur eins dýra einangrun og á leiðslunni þaðan til Reykjavíkur.

Húsvíkingar hafa, eins og eðlilegt er, mikinn hug á að fá þessa rannsókn gerða og hefja síðan framkvæmdir. Yrði þá farið að vinna að verkinu á næstu missirum eftir að rannsókn lyki. Ég óska, að till. verði vísað til síðari umr. og n.