05.09.1944
Neðri deild: 44. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í B-deild Alþingistíðinda. (524)

70. mál, heilsuverndarstöðvar

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Herra forseti. Með frv. þessu er lagt til, að lögfest verði skipulag, sem er þegar í raun og veru fyrir hendi og nú er starfað eftir. Í 3. gr. laganna um berklavarnir frá 1939, yngstu berklavarnalögunum, er gert ráð fyrir, að heilsuverndarstöðvar séu starfandi í kaupstöðum landsins, enda var það svo í þeim flestum og er enn. Þó eru til kaupstaðir nú, sem ekki hafa neina slíka stöð, t.d. Neskaupstaður og Akraneskaupstaður.

Þó að þetta skiplag hafi verið starfandi, hefur það ekki verið fest svo rækilega sem þörf virðist á, og þess vegna hefur þeim mönnum, sem bezt skyn bera á þessi mál, þ.e. landlækni, berklayfirlækni og tryggingaryfirlækni, komið saman um efni þessa frv., sem landlæknir hefur samið einn.

Það hefur verið svo, að í fjárl. hefur verið ákveðið um vissa fúlgu úr ríkissjóði, gegn 2/3 kostnaðar annars staðar að. Þessir 2/3 hafa komið frá bæjarfélögum eða sjúkrasamlögum: En það hefur komið fyrir, að það hefur verið dálítill reipdráttur um það, hver greiða skyldi vissa fúlgu, og því hefur verið talið bezta ráðið að skipa fyrir um þetta í lögum, og í þessu frv. er gert ráð fyrir, að kostnaðurinn verði borinn í sömu hlutföllum, sem sé að ríkissjóður greiði styrk, sem nemi allt að 1/3 af eðlilegum kostnaði, eins og stendur í 4. gr.

Frv. hefur verið borið undir Tryggingarstofnun ríkisins, og hún hefur ekki haft neitt við það að athuga.

Það verður ekki sagt, að af lögfestingu frv. leiði kostnaðarauka fyrir ríkissjóð, en þó getur komið fyrir, að um kostnaðarauka verði að ræða, og það gæti jafnt orðið án lögfestingar, ef bæirnir setja upp heilsuverndarstöðvar, en svo er gert ráð fyrir, að verði í öllum kaupstöðum, nema veitt verði sérstök undanþága, ef heilsuverndarmálunum er komið fyrir á tryggan hátt á annan veg.

Það er gerð grein fyrir máli þessu í aths. við frv., og vil ég vísa til þeirra að öðru leyti.

Að þessari umr. lokinni óska ég, að frv. verði vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn.