15.12.1944
Sameinað þing: 76. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í D-deild Alþingistíðinda. (5240)

197. mál, hitaveita

Frsm. (Jónas Jónsson):

Fjvn. hefur athugað þetta mál og komizt að þeirri niðurstöðu einróma, að hér væri um svo eðlilegar framkvæmdir að ræða, að réttast væri að mæla með því.

Eins og ég tók fram við fyrri umr., er þessi aflgjafi, Uxahver í Reykjahverfi, óvenjulegur; hann er með mestu hverum, sem til eru á Íslandi, þ.e.a.s. sem einstakur hver, og skilyrði til virkjunar þannig, að það virðist mega leiða vatnið án þess að dæla því frá Uxahver til Húsavíkur og í gegnum Reykjahverfi á leiðinni. Það, sem hér er farið fram á, er aðeins það, að ríkið láti rannsaka kostnað og möguleika vegna þessarar virkjunar. Og það er ekki aðeins Reykjahverfi og Húsavík, sem mundu njóta þessara þæginda af heita vatninu, heldur má gera ráð fyrir því, að Húsavík verði ein af stærstu iðnaðarstöðum norðanlands í sambandi við síldariðnað, þegar þar að kemur.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum, en ég vænti þess, að hv. þm. sjái sér fært að mæla með því, að þetta verði gert.