16.12.1944
Sameinað þing: 77. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í D-deild Alþingistíðinda. (5266)

158. mál, byggingarmál

Frsm. minni hl. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. — Það var hv. 6. þm. Reykv., sem lauk hér máli sínu, og heyrðist mér hann vera að ræða um traustsyfirlýsingu á hæstv. ríkisstj. Ég er dálítið í vafa um, hvernig ég á þá að líta á þskj. 669, þar sem fimm af sterkustu stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj. setja sig upp á móti till. okkar minni hl., um að mál þessi séu falin í hendur hæstv. ríkisstj. Ég held, að hér reki sig dálítið hvor á annars horn. Sýnist mér dálítill ruglingur um þetta atriði. En svo að maður tali um málið eins og það liggur fyrir, á hæstv. ríkisstj. að velja menn til þess að láta athuga og gera till. um þau verkefni, er hér um ræðir, samkv. till. okkar í minni hl., en eftir till. flm. á að kjósa með hlutfallskosningu fimm manna mþn., og vita allir, að stjórnarliðið verður í miklum meiri hl. í þeirri n. við þá kosningu, en ég ætla mér ekki að deila um það atriði. Ég álít, að hæstv. ríkisstj. gæti valið tvo eða þrjá menn til þess að standa fyrir þessum málum, en í till. flm. er farið fram á fimm. Það er vitað mál, að ef mþn. verður kosin af Alþ., fær hún sér ýmsa sérfræðinga til aðstoðar, en hæstv. ríkisstj. á hins vegar miklu hægara með að velja sérfræðinga. — Ég vil taka það fram, að ég er þakklátur hv. 6. þm. Reykv. fyrir stuðning hans í garð okkar í minni hl., og tel ég ekki þurfa að deila um þetta mál lengur. Finnst mér því nú vel í höfn komið, þar sem það hefur nú svo traust fylgi. — Hvað viðvíkur því, sem frsm. meiri hl. n. sagði, gegnir öðru máli, og finnst mér ekki þurfi að vera sérstakir húsasmiðir í kaupstöðum og sérstakir smiðir í sveitum. Ég veit ekki, hvernig á að flokka þá, eða á að kalla þá hallarsmiði og kofasmiði? Mér finnst, að við gætum einnig orðið sammála um smiðina. — Að endingu vil ég svo þakka flm. till. fyrir ágætar undirtektir.