19.09.1944
Neðri deild: 52. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í B-deild Alþingistíðinda. (527)

70. mál, heilsuverndarstöðvar

Frsm. (Sigurður Thoroddsen):

Heilbr.- og félmn. hefur haft þetta frv. til athugunar og leggur til, að það verði samþ. án breytinga. Frv. fylgir greinargerð, samin af landlækni, og hef ég litlu eða engu við hana að bæta.

Heilsuverndarstöðvar hafa verið reknar hér á landi, fyrst í Reykjavík árið 1919, og eftir 1938 komu hinir kaupstaðirnir og tóku þennan rekstur upp hjá sér. Ég skal ekki fara út í að rekja störf þessara stöðva. Gagnsemi þeirra verður ekki véfengd, og þær eiga almennum vinsældum að fagna hjá almenningi. Heilbrigðisstarfsemin hefur notið styrks frá ríkissjóði, og föst skipan hefur verið á þessum málum síðan 1936, að þessi starfsemi var tekin upp sem fastur liður á fjárl. Var þar krafizt um leið sem skilyrðis fyrir ríkissjóðsstyrknum, að bæjar- eða sveitarfélögin legðu tvo þriðju hluta á móti einum þriðja hluta, sem ríkið legði til.

Það hefur á nokkrum stöðum borið á því, að kalt hefur orðið um þessa greiðslu. Þó að það hafi aðeins á einum stað orðið til þess, að þessi s,tarfsemi var lögð niður um stund, þá hafa aðrir staðir ekki farið varhluta af því. 4. gr. frv. miðar að því, að slíkt komi ekki fyrir aftur og skapa öryggi fyrir þessa starfsemi.

Með frv. þessu er því farið fram á að lögfesta skipan, sem þegar hefur verið komið á af frjálsu samkomulagi, en frv. fer að því leyti lengra, að það skyldar hvern einasta kaupstað til að reka heilsuverndarstöð, nema ráðherra veiti undanþágu frá því.

Ég skal geta þess, að þetta frv. er samið af landlækni í samráði við berklayfirlækni og tryggingaryfirlækni og borið undir Tryggingarstofnun ríkisins, og telur hún sig fylgjandi málinu í öllum aðaldráttum, en gerir þó aths. við 4. gr. frv., þar sem svo er kveðið á, að ríkissjóður skuli greiða allt að þriðjungi af eðlilegum kostnaði að mati ráðherra. Finnst Tryggingarstofnun ríkisins þetta óþarft, þar sem ríkisvaldinu sé gefið aðhald um rekstur stofnunarinnar með því að tilnefna einn mann af þremur í stjórnina. N. hefur þó að öllu athuguðu fallizt á, að rétt væri að styðja þetta frv. í þessari mynd, sem það er í, og eins þessa 4. gr., þar sem n. telur, að slíkt aðhald á ráðherra verði til að brýna aðgæzlu um reksturinn.

N. leggur því til, að frv. verði samþ. óbreytt og vísað til 3. umr.