16.12.1944
Sameinað þing: 77. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í D-deild Alþingistíðinda. (5286)

180. mál, framkvæmd póstmála

Pétur Ottesen:

Frsm. fjvn. er ekki viðstaddur, og verð ég í forföllum hans að fara nokkrum orðum um þetta mál. Fjvn. leggur til, eins og um getur á þskj. 645, að till. verði breytt nokkuð frá því, sem hún er flutt á þskj. 478. Fjvn. ræddi við samgmrh. um þetta mál, og var það í samráði við hann, sem n. leggur til, að þessari þáltill. verði breytt eins og greinir á þskj. 645, einnig að framkvæmdir yrðu auknar á póstsamgöngum eftir því, sem við verði komið á næstu árum. Í samráði við samgmrh. flytur n. einnig brtt. um það, að hækkaður verði liðurinn til póstsamgangna í landinu um 200000.00 kr. Þessi hækkunarliður er miðaður við það, að strax upp úr áramótunum verði að því unnið, eftir því sem kostur er, að framkvæma auknar póstsamgöngur.

Mþn. í póstmálum hefur skilað áliti, sem liggur fyrir Alþ. Er þar gert ráð fyrir að gera allverulegar breytingar á póstsamgöngum í landinu, sem allir munu vera sammála um, að nauðsynlegt sé að framkvæma svo fljótt, sem við verður komið. Kostnaðurinn af þessum fyrirhuguðu framkvæmdum er talinn nema um 750 000.00 kr. En nokkuð af þeirri upphæð, eða þriðji hluti hennar, er miðaður við það, að komið verði upp kössum eða hylkjum til þess að láta póst í á þeim svæðum, þar sem mjólkurflutningsbifreiðar eru notaðar til póstflutninga. En það leiðir af sjálfu sér, að það er mjög mikið hagræðisatriði þar, sem því verður við komið, að nota slíkar bifreiðar til þessara flutninga, bæði vegna þess, að hér er um að ræða mjög örar ferðir og auk þess verður það miklu ódýrari framkvæmd en hægt er að fá með annarri tilhögun. Þess vegna er það alveg rétt á litið hjá mþn., sem hafði málið til meðferðar, að það er óþarfi að horfa í þann kostnað, sem leiðir af því að koma upp slíkum hylkjum til að láta póst í, þar sem mjólkurbílar eru notaðir til þessara flutninga. Það, sem ber á milli í hinum upprunalegu till. og till. fjvn., er það, að till. póstmálan. má skilja svo, að ætlazt sé til, að þessum málum sé hrint í framkvæmd nú þegar á næsta ári. En fjvn. áleit rétt að þreifa nokkuð fyrir sér með þessar framkvæmdir, því að við það mundi fást mikilsverð reynsla og sjást betur, hvernig haganlegast væri hægt að koma þessu fyrir samkv. till. póstmálanefndar.

Ég hef svo ekki fleira um þetta mál að segja, enda gerð grein fyrir skoðun n. á þessu máli á þskj. 645. Ég ætla, að komnar séu fram tvær brtt. við málið, önnur frá hv. þm. Barð., á þskj. 652, en hin frá bv. 2. þm. N.-M. En ég sé ekki ástæðu til að minnast á þær, fyrr en flm. hafa gert grein fyrir þeim, ef mér þykir þá ástæða til þess.