16.12.1944
Sameinað þing: 77. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í D-deild Alþingistíðinda. (5287)

180. mál, framkvæmd póstmála

Gísli Jónsson:

Hv. fjvn. hefur lagt til á þskj. 645, að ríkisstj. verði falið að láta framkvæma frá næstu áramótum till. mþn. í póstmálum eftir því, sem við verður komið. Hefur n. einnig ætlað nokkurt fé til þessara framkvæmda, án þess þó að taka nokkuð fram um það, hvernig þessu fé skuli varið, hvort verja skuli því til þess að fjölga póstsamgöngum á þeim stöðum, sem bezt eru settir í þessu efni, eða verja því til þeirra staða, sem örðugast eiga hér hlut að máli, eða hvort verja skuli fénu til þess að koma upp kössum fyrir póst. En talið er, að það muni kosta á þriðja hundrað þús. kr. Með brtt. minni legg ég til, að framkvæmdum sé hagað þannig, að hinum nýju fjárframlögum verði varið fyrst og fremst til þess að bæta samgöngur í þeim héruðum, sem búa við lakastar póstsamgöngur. Í tilefni af þessu leyfi ég mér að upplýsa hér, að áður en n. hóf aðalstarf sitt sendi hún út bréf með fyrirspurnum til á 3. hundrað. sveitarstjórna í landinu og annarra aðila. Og það er eftirtektarvert, að flest svörin bárust frá þeim héruðum, sem standa verst að vígi með póstsamgöngur. Og svör bárust úr hverjum einasta hreppi í þeim héruðum, sem afskekktust eru, sem sagt í þessum héruðum var langmestan áhuga að finna fyrir bættum póstsamgöngum. En þau héruð, sem fá póstinn á hverjum degi á sumrin og einu sinni eða tvisvar í viku á veturna, eins og hér á Suðurlandsundirlendinu, þaðan komu miklu síður svör og sum ekki, fyrr en eftir töluverða eftirgangsmuni. Nú komst n. að þeirri niðurstöðu, að það kostaði lítið að bæta póstsamgöngurnar í þeim héruðum, sem góðar póstsamgöngur eru fyrir í. Og hef ég ekkert á móti því, að það sé gert, svo framarlega, að það kosti póstsjóð ekki aukin útgjöld, og ef það er ekki heldur gert á kostnað þeirra héraða, sem við verstar póstsamgöngur búa. Væri t.d. farið inn á þá leið að eyða þessu fé til þess að koma upp póstkössum á þessum slóðum, þá tel ég, að gengið sé á rétt þeirra héraða, sem erfiðastar póstsamgöngur hafa. Það kom mjög til umræðna í n., hvort rétt væri að gera till. um það, að sveitahéruð tækju að einhverju leyti sjálf þátt í kostnaðinum við að koma upp póstkössunum, en eftir að hafa rætt við póststjórnina, þótti henni ekki rétt að leggja það til. En hins vegar bendir hún á það, að ef ríkissjóður sér sér ekki fært að leggja fram nægilegt fé nú þegar til þessara framkvæmda, þá komi til athugunar, hvort ekki sé rétt, að þau héruð, sem vildu leggja til helming kostnaðar, gengju fyrir öðrum að koma þessu kerfi upp hjá sér, burtséð frá því, hvort þau búa við betri eða lakari póstsamgöngur.

Ég sé ekki ástæðu til þess að lengja þessar umr., nema sérstakt tilefni gefist til þess, en vil alvarlega beina því til hæstv. samgmrh., að því fé, sem varið verður til þess að bæta póstsamgöngur, verði framvegis varið til þess að bæta úr þeim þar, sem þær eru verstar, og legg til að till. mínar á þskj. 652 verði samþ.