18.09.1944
Sameinað þing: 44. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í D-deild Alþingistíðinda. (5298)

118. mál, kaup á hlutabréfum Útvegsbanka Íslands h.f.

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

till., sem liggur fyrir á þskj. 313, fer fram á, að ríkisstj. sé falið að kaupa hlutabréf erlendra hluthafa í Útvegsbanka Íslands. Eins og hv. þm. er kunnugt, var hér fyrir ekki löngu samþ. till. um að kaupa af þeim, sem eignazt hafa hlutabréf í sparisjóðsdeild bankans, að ríkissjóður keypti þau með nafnverði og greiddi með skuldabréfum ríkissjóðs. Í samræmi við þessa ályktun var svo þetta auglýst og þeim, sem selja vildu, gert að senda tilkynningu fyrir desemberlok þessa árs. Til þessa dags hafa komið tilkynningar um 310 þús. kr. Íslenzkir hluthafar utan ríkissjóðs munu eiga um 1½ millj. kr. í hlutabréfum. En síðan þetta gerðist hefur komið málaleitun frá einum erlendum hluthafa um, að ríkið keypti hans hlutabréf. Erlendir hluthafar eiga nú í bankanum hlutabréf fyrir um 1300 þús. kr. Af því á enskur banki 500 þús. kr. og danskur banki 500 þús. kr., ýmsir danskir hluthafar munu eiga um 300 þús. kr., samtals 1300 þús. kr. Þá eru hluthafar í bankanum fyrir utan ríkissjóð, sem ráða yfir 2,8 millj. kr. í hlutabréfum.

Eins og nú er komið, að ríkissjóður á meiri hl. í bankaráði og ræður þar af leiðandi í raun og veru öllu á hluthafafundum hans, virðist mjög eðlilegt, að ríkissjóður geri þeim erlendu hluthöfum, sem eignazt hafa bréf á þann hátt, sem varð, þannig að þeir voru í raun og veru neyddir til að kaupa þau, kost á að losna við bréfin með nafnverði. Ég hygg, að erlendir hluthafar muni telja þá lausn mjög vel viðunandi, eins og komið er, ef þeir fá þann höfuðstól, sem þeir lögðu fram, þó að ekki séu greiddir vextir af honum þann tíma, sem hann hefur staðið í bankanum. Teldi ég illa við eigandi, ef ríkissjóður keypti nú ekki þessi bréf. Hins vegar mundi ég ekki hafa neitt við að athuga, þótt væntanleg n. breytti till. á þann hátt, að ríkisstj. yrði heimilað að kaupa öll hlutabréf bankans, sem nú eru í eigu einstakra manna. Ég tel svo, að þetta mál gangi af sjálfu sér til fjvn.