21.11.1944
Neðri deild: 78. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í B-deild Alþingistíðinda. (53)

183. mál, nýbyggingarráð

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Eins og fram kemur af ræðu hv. síðasta ræðumanns, er ekki ágreiningurinn um frv. eða tilgang þess. Ágreiningurinn virðist vera eingöngu um minni háttar atriði, hvort eigi að gera frv. víðtækara og fela nýbyggingarráði ýmis óskyldari verkefni, svo sem að gera áætlun um atvinnuhætti og útvegun vinnutækja.

Ég hef áður minnzt á, af hverju við í meiri hl. gátum ekki fallizt á að auka þann gjaldeyri, sem lagður er til hliðar, upp úr 300 millj. kr. Það má vera, að það sé hægt, en þá má gera það síðar með löggjöf eða stjórnarráðstöfunum, því að ríkisstj. ræður yfir sölu þessa gjaldeyris á hverjum tíma og hefur það allt í hendi sér.

Það er ekki till. frá minni hl., að nýbyggingarráð verði kosið af þinginu, en minni hl. telur það eðlilegra. Við, sem erum í meiri hl., teljum, að óeðlilegra sé, að ráðið sé kosið af Alþ., því að það er nokkurs konar framkvæmdaráð á einu höfuðatriði í þeirri starfsskrá, sem stj. hefur sett sér. Það er ekki venjuleg mþn., heldur nokkurs konar framkvæmdaráð eins höfuðatriðis í stjórnarsamningunum. Hafi verið rétt að fela síðustu. stj. að skipa viðskiptaráð án íhlutunar þingsins, þá er það enn sjálfsagðara, að skipun þessa ráðs verði í höndum núverandi stj.

Þá er hér till. um, að ekki megi kaupa tæki innan lands eða láta smíða þau hér á landi, ef það kostar eitthvað meira en ef þau væru keypt frá útlöndum. Þetta lítur að sjálfsögðu vel út, en þó tel ég óheppilegt að taka þetta ákvæði inn í frv., því að það mundi leiða til ákaflega viðtækra ráðstafana, ef þetta ætti að ná yfir alla okkar pólitík, og það mundi leiða miklu lengra en hv. flm. gerir sér grein fyrir. Við sjáum t.d., að það er sannanlegt, að hægt er að fá erlent smjör fyrir miklu lægra verð en hægt er að framleiða það fyrir hér innan lands, og ef ætti að framkvæma þessa reglu, þá væri ekki hægt annað en að láta hana ná út yfir allt. Þeir, sem nú kaupa smjör og kjöt hærra verði en hægt væri að fá það fyrir frá útlöndum, geta sagt sem svo: Við skulum vinna fyrir jafnlágt verð og aðrir, en lofið okkur þá að flytja þessi matvæli inn, — og venjulega er það, að dýr vinna á rætur sínar að rekja til þess, að maturinn er dýr. Það er ómögulegt að framkvæma þessa stefnu að hafa dýran mat og ódýra vinnu. Það hefur verið reynt lengi, en ekki tekizt. Við kaupum nú alla landbúnaðarframleiðslu miklu dýrara verði en hægt væri að fá sömu vörur fyrir frá útlöndum, og m.a. þess vegna er óviðkunnanlegt að sjá í l. svona ákvæði, að ekki megi kaupa af innlendum smiðum, nema þeir séu samkeppnisfærir, þó að á allan hátt sé verr að þeim búið. Það gildir ekki eingöngu um mat, þessara manna, heldur líka um föt, húsnæði o.fl. o.fl. Ég er ekki að segja, að ekki þurfi að koma á verðjöfnun smátt og smátt milli okkar og annarra landa, en það verður ekki gert með því að víkja sér að verkamönnunum einum, það eru fleiri atvinnugreinar um það og jafnvel ríkisvaldið sjálft.

Þá er einnig nefnt í þessu sambandi, að koma þurfi á ákvæðisvinnu. Hvað sem því líður, þá tel ég ekki ástæðu til, að slíkt sé sett inn í þetta frv. Það væri þá nær að bera fram sérstakt frv. eða till. um slíka vinnuhætti. En það er ekkert, sem bannar ákvæðisvinnu hér í þessu landi frekar en í öðrum löndum, en nú sem stendur er þetta mál, sem atvinnurekendur eiga við starfsmennina án afskipta ríkisvaldsins. Þetta á ekki undir neinum kringumstæðum heima í þessu frv., en ætti að flytjast sem sérstakt mál, ef ríkið á að hafa afskipti af þessum hlutum.

Þá segir hv. frsm. minni hl., að ekki megi vanta í frv. ákvæði um, hvernig fyrirkomulag skuli verða á þessum atvinnufyrirtækjum, sem eiga að taka við þessum tækjum. Það er erfitt að hafa bindandi ákvæði um slíka hluti, því að þetta fer allt eftir því, sem mönnum finnst skynsamlegast í hverju tilfelli. Ef ríkisvaldið þarf sérstaklega að skipta sér af þessu, þá þarf að koma um það sérstakt frv., og ég efast ekki um, að það eigi eftir að koma fyrir þetta þing till. og frv., sem eigi rætur sínar að rekja til þessara ráðstafana, en nákvæmar till. er ekki hægt að gera í þessu frv. Það er nóg í þessu efni, sem segir í 3. gr., að stj. geti tekið undir þetta ráð starf þriggja mþn., og alveg eins og sú n., sem átti að gera till. um fyrirkomulag stóratvinnurekstrar í landinu og afskipti ríkisvaldsins af þeim málum og leggja áherzlu á, að skipulag atvinnurekstrarins tryggi sem bezt, að stórfyrirtækin séu rekin með almenningshag fyrir augum og að þeir, sem að honum vinna, beri úr býtum endurgjald fyrir störf sín í samráði við afkomu atvinnurekstrarins, þá mun nýbyggingarráð, ef starf þessarar n. verður lagt undir það, gera till. til stj. um öll þessi atriði. Það er því alveg óþarft að taka slík ákvæði upp í frv: sjálft.

Þá segir hv. frsm. minni hl., að atvinnuvegirnir, sem upp eru byggðir samkvæmt þessu frv., verði að bera sig. Það er ákaflega lítil nýjung, að atvinnuvegirnir verði að bera sig, þegar til lengdar lætur a.m.k. Það hefur verið háð barátta fyrir því í þinginu á undanförnum árum að halda niðri dýrtíðinni, og maður heyrir það í sambandi við þetta frv., að það viðfangsefni verði að klára fyrst, áður en tekið er til annarra úrræða. Þessa viðleitni hafa stj. sett sér fyrir hendur hver eftir aðra, sérstaklega síðasta stj., sem gerði það að sínu höfuðmáli, en samt hefur dýrtíðin alltaf frekar hækkað, stundum stórum skrefum. Ef nú mætti ekkert taka til bragðs og ekkert styðja atvinnuvegina, fyrr en búið væri að ljúka því verkefni, sem allar stj. hafa reynt sig við, en orðið að hætta við, þá er hætt við, að seint yrði tekið til við að skapa nýja atvinnuvegi eða endurnýja þá að styrjöldinni lokinni.

Ég get tekið undir það, að skapa þurfi jafnvægi milli framleiðslukostnaðar okkar og okkar viðskiptalanda, en það væri of mikið að ætla að fela þessu ráði að rannsaka og gera till. um, hvernig þetta jafnvægi skuli skapa, það er of mikið og óskylt verkefni. Það er verkefni, sem þarf að leysa með einhverjum hætti, en að koma og segja, að þetta eigi eingöngu að leysa með því að færa niður kaup, er ákaflega einhæf lausn, sú lausn, sem menn hafa hingað til viljað nota eina og þess vegna alltaf beðið ósigur.

Þegar spurt er, hvað sé hægt að gera til þess að atvinnuvegirnir geti borið sig, þá er svarið það, að það er m.a. þetta, sem farið er fram á í þessu frv., að endurbyggja atvinnulífið. Það er eitt af því, sem hægt er að gera, til þess að atvinnuvegirnir geti borið sig. Mér dettur ekki í hug að fullyrða, þótt allir fengju ný tæki í sínar hendur, að þar með væri fengið þetta fulla jafnvægi, en það er vafalaust, að það er eitt af því stórfelldasta, sem hægt er að gera til þess að koma á þessu jafnvægi. Það er mikið vitnað til þess, að þetta jafnvægi er ekki skapað fyrir fram. Nú er þetta jafnvægi sem stendur, en búast má við, að það breytist, þegar tímar líða, og gerir það vafalaust, þegar stríðinu lýkur: En það er ekki hægt að koma og segja eins og hv. síðasti ræðumaður, að ef þetta framtíðaröryggi er ekki skapað fyrir fram, megi ekki leggja í þessa nýsköpun, því að þá kemur fjármagnið ekki til þessarar nýsköpunar. Það má náttúrlega búast við, að talsvert af þessu fjármagni, sem myndazt hefur í landinu, sé í höndum manna, sem hafa ekki staðið undir atvinnulífi landsmanna. En bændur, sjómenn og útgerðarmenn sitja fastir í sínu starfi, þeir hverfa ekki þaðan, þótt erfiðlega líti út og illa gangi, og ég hef ekki enn þá séð vott þess, að menn hafi viljað draga sig út úr útgerðinni, þó að útlitið sé ekki eins glæsilegt og það hefur verið fimm síðustu árin. En ef það fjármagn, sem getur ráðið sér sjálft, getur ekki komið með liðsinni þessarar stefnu, þá getur verið, að það uppgötvi, að það er ekki alls ráðandi í landinu. Og ef það fjármagn, sem nú er í höndum einstakra manna í landinu og skiptir hundruðum milljóna, heimtar að fá að vera laust áfram og auka sig og margfalda, þá er ekki víst, að sá mismunur, sem er á gildi íslenzku krónunnar innan lands og erlendis, verði fenginn í hendur þessu fjármagni í ofanálag á sjálfan stríðsgróðann. Það er geysilega mikill munur á gildi krónunnar innan lands og erlendis, og til þess að það fjármagn, sem laust er heima, fái eitthvað af þeim mismun, þarf það að rækja eitthvað af skyldum sínum við þjóðfélagið. Það er svo með þessa nýsköpun, að ég býst við, að í flestum löndum sé hún á undan kauplækkun, og þráfaldlega hefur hún komið í staðinn fyrir kauplækkun. Það er alþekkt, að í þeim löndum, þar sem kaupið hefur verið hæst, þar er nýting vinnuaflsins komin lengst. Nú eru Ameríkumenn komnir lengra í vinnuafköstum en þekkist í flestum öðrum löndum, og það er mikið af því, að mannsaflið er dýrt og því þörf á að nota það sem bezt, til þess að atvinnuvegirnir geti borið sig. Kínverjinn, sem getur lifað á einum hrísgrjónahnefa, er ódýrari en vélarnar, og þess vegna er þar kyrrstaða í vinnuaðferðum. Sumir vilja fá fyrst kauplækkun og síðan önnur gæði, en viðast hefur það gengið öfugt, og þar sem vinnuaflið er dýrt, þar hefur mest verið gert til að fá atvinnuvegina til að bera sig.