09.01.1945
Sameinað þing: 82. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í D-deild Alþingistíðinda. (5300)

118. mál, kaup á hlutabréfum Útvegsbanka Íslands h.f.

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Fjvn. hefur athugað þessa þáltill. eins og hún lá fyrir og varð sammála um að mæla með henni með nokkrum breyt. Fyrsta breyt. er sú, að till. verði í heimildarformi í stað þess, að nú er hún bein fyrirmæli til stj. N. vill láta það vera á valdi hæstv. stj., hvort þetta verði gert, og að heimildin verði bundin við eitt ár, nefnilega árið 1945. Aftur varð smámeiningamunur innan n. um, hvort stj. ætti að fá heimild til að kaupa af öllum bréfaeigendum, sem vildu selja. Verulegur ágreiningur varð ekki, en einstakir nm. vildu þó ekki binda atkv. sín um það atriði.

Eins og sakir standa nú og hv. þm. mun vera kunnugt, var upphaflega hlutafé Útvegsbankans um 7,300,000 kr. Af því átti ríkissjóður 4½ millj. kr. en útlendingar rúmlega 1,200,000 kr., en 1,600,000 kr. var einstakra innlendra manna hlutafé. Nú er því þannig komið, að ríkið er búið að kaupa 25% eða 400,000 kr. af bréfum innlendra hluthafa, og ráðstafanir munu hafa verið gerðar til að kaupa bréf útlendra hluthafa. Verður þá eftir rúm milljón af bréfum innlendra hluthafa.

Ég get sagt, að ég hef verið á móti því, að ríkið færi nokkuð að seilast í þessi bréf, heldur væru einstaklingarnir látnir í friði með þau og ríkið færi ekki að gera þeim kauptilboð. Á síðasta þingi varð sú skoðun ofan á að fara að kaupa þessi bréf, en úr því að kominn er skriður á að kaupa þessi bréf og það verður aðeins örlítið eftir, sem hluthafar eiga, 1/7 í mesta lagi, og þeir, sem þessi bréf eiga, hafa engu ráðið á hluthafafundum, þar sem ríkisstj. hefur haft mikinn meiri hluta, þá virðist rétt að gefa þessum hluthöfum kost á að selja bréf sín með nafnverði. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. ríkisstj. fari hóflega í þessi bréfakaup og fari ekki að seilast eftir þeim meira en góðu hófi gegnir, en muni fullkomlega líta á hag ríkissjóðs í þeim efnum og að við þurfum ekki að bera kvíðboga af að láta hana hafa heimild, eins og gert er með þál. þannig breyttri.